Nr. 76/2025 Úrskurður
Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 76/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24090050
Kæra […]
1 Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 9. september 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn karlmanns að nafni […], fd. […], ríkisborgari Belarús (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og vísa honum frá landinu.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.
Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga.
2 Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 29. júlí 2024. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Litháen. Hinn 15. ágúst 2024 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Litháen, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá litháískum yfirvöldum, dags. 26. ágúst 2024, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. 20. ágúst 2024, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 6. september 2024 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Það var mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur til endursendingarríkis. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 6. september 2024 og barst kærunefnd greinargerð kæranda 20. september 2024. Frekari upplýsingar og gögn bárust frá kæranda 7., 11., 17., 20., 21., 25. nóvember 2024, 18., 20. og 22. desember 2024, 5., 6. og 15. janúar 2025.
3 Greinargerð til kærunefndar
Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og mat lagt á öll sjónarmið er þar koma fram. Verða aðeins reifuð hér helstu atriði greinargerðarinnar.
Í greinargerð er aðstæðum kæranda lýst. Fram kemur að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Litháen sem hafi verið synjað. Kæranda verði vísað úr landi til heimaríkis verði honum snúið aftur til Litháen. Yfirgnæfandi líkur séu á að hann verði handtekinn við komuna til heimaríkis vegna þátttöku hans í mótmælum. Kærandi hafi einungis lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd og mætt til viðtals af þeim sökum í Litháen, en þekki ekki til verndarkerfisins að öðru leyti. Hann hafi haft aðgang að húsnæði fyrstu tvo mánuðina, eftir þann tíma hafi hann fengið sér vinnu og leigt húsnæði. Kæranda hafi verið tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu í gegnum vinnuveitanda sinn. Þá hafi kærandi búið við mikla fordóma í Litháen.
Í greinargerð er vísað til landaskýrslna og mati Útlendingastofnunar á aðstæðum í Litháen mótmælt.
Í greinargerð eru færð rök fyrir því að aðstæður kæranda falli undir 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi vísar til þess að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun lýst þeim brotalömum sem séu á málsmeðferð litháískra stjórnvalda við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Kærandi telji að útlendingastofnun í Litháen leki upplýsingum um umsækjendur um alþjóðlega vernd þar í landi. Kæranda muni vera brottvísað frá Litháen við komuna þangað og hún muni vera framkvæmd með þeim hætti að hann verði fluttur á fríverslunarsvæði á landamærum Litháen og Belarús þar sem hann hafi einungis þann kost að fara yfir landamæri til Belarús. Þar muni hann vera handtekinn vegna neitunar hans á að sinna herþjónustu. Kærandi telur að þessi meðferð stangist á við regluna um bann við endursendingu (non-refoulement).
4 Umsókn um alþjóðlega vernd
4.1 Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er varða landamæraeftirlit og umsóknir um alþjóðlega vernd eftir því sem tilefni er til.
Ákvæði laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga sem og önnur ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem máli skipta við úrlausn umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd verða reifuð í viðeigandi köflum hér að neðan.
4.2 Aðstæður kæranda
Kærandi er karlmaður á […]. Kærandi kvaðst við meðferð málsins hafa yfirgefið heimaríki í mars 2022 og farið til Rússlands. Þaðan hafi hann farið til Georgíu, þaðan til Tyrklands og síðar Ísrael þar sem hann hafi dvalið í eitt ár. Þaðan hafi hann farið til Litháen þar sem hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 10. maí 2023 en umsókn hans var synjað. Kærandi hafi jafnframt látið reyna á niðurstöðuna fyrir dómstólum. Kærandi hafi dvalið í Litháen í rúmt ár og svo komið hingað til lands 27. júlí 2024 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd tveimur dögum síðar. Kærandi vilji ekki snúa aftur til Litháen vegna þess að hann óttist að vera sendur aftur til heimaríkis eða á lokað svæði á landamærum Litháen og Belarús. Kærandi greindi frá því að hafa verið útvegað húsnæði fyrstu tvo mánuði sína í Litháen en hafi svo útvegað sér atvinnu og húsnæði á eigin vegum. Kærandi hafi verið með aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna sjúkratryggingar sinnar. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir fordómum í Litháen vegna uppruna síns. Kærandi greindi frá því að hafa fengið neikvæð skilaboð í gegnum síma sinn frá ótilgreindu fólki. Kærandi hafi leitað til lögreglunnar en ekki fengið aðstoð. Þá kvaðst hann vera andlega þreyttur og glíma við þunglyndi.
4.3 Niðurstaða um 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:
c. heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Litháen á umsókn kæranda er byggt á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Af þeim sökum skal kærandi endursendur til Litháen enda bera litháísk yfirvöld ábyrgð á umsókn hans samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.
Kærandi gerir athugasemd við að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með lögum um breytingu á lögum um útlendinga nr. 68/2024 var þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga felld brott samkvæmt 5. gr. breytingarlaganna. Samkvæmt lagaskilum 14. gr. breytingarlaganna gildir umrædd breyting um meðferð umsókna sem bárust eftir gildistöku laganna. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum 3. júlí 2024 og tóku gildi 4. júlí 2024. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 29. júlí 2024 eða eftir gildistöku breytingarlaganna og gildir því 2. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga ekki um umsókn kæranda. Hið sama á við um 32. gr., 32. gr. a, 32. gr. b, 32. gr. c og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga sem felld voru úr gildi með breytingarreglugerð nr. 1069/2024.
4.4 Landaupplýsingar
Lagt hefur verið mat á aðstæður í Litháen, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum. Nefndin hefur jafnframt lagt mat á heimildir sem kærandi hefur lagt fram til stuðnings kæru sinni.
- 2023 Country Reports on Human Rights Practices – Lithuania (United States Department of State, 22. apríl 2024);
- Amnesty International Report 2023/24 – Lithuania (23. apríl 2024);
· Freedom in the World 2024 – Lithuania (Freedom House, 2024);
· Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar (https://help.unhcr.org/lithuania/how-to-apply-for-asylum-in-lithuania/);
· Upplýsingar af vefsíðu útlendingastofnunar Litháen, (www.migracija.lt) og
· Upplýsingar af vefsíðu innanríkisráðuneytis Litháen, (www.vrm.lrv.lt).
Litháen er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Litháen er jafnframt aðildarríki Evrópuráðsins og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans. Litháen er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og hefur fullgilt samninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og barnasáttmálann. Þá er ríkið aðili að Flóttamannasamningnum.
Á vefsíðu Flóttamannastofnunar og útlendingayfirvalda í Litháen kemur fram að hægt sé að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Litháen á flugvöllum og hjá landamæravörðum við komuna til landsins. Jafnframt sé hægt að leggja fram umsókn hjá starfsstöðvum útlendingastofnunar víðsvegar um landið. Ákvörðun í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd sé tekin af litháísku útlendingastofnuninni (l. Migracijos departamentas). Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á aðstoð túlks og gjaldfrjálsri lögfræðiþjónustu í viðtali sínu hjá útlendingastofnuninni. Þá bjóði Rauði krossinn upp á gjaldfrjálsa lögfræðiþjónustu. Umsóknir séu skoðaðar innan sex mánaða frá umsóknardegi. Komi til synjunar eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd þess kost að bera hana undir svæðisdómstólinn í Vilnius innan tveggja vikna. Ef svæðisdómstóllinn staðfesti ákvörðun útlendingastofnunarinnar geti umsækjandi áfrýjað málinu til stjórnsýsludómstóls sem taki endanlega ákvörðun á dómstigi.
Á vefsíðu útlendingayfirvalda í Litháen kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á búsetu í móttökumiðstöð auk réttar til fæðis og klæða. Umsækjendur eigi jafnframt rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu auk sálfræði- og félagsþjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á atvinnuleyfi hafi ekki verið tekin ákvörðun í máli þeirra innan sex mánaða frá því að umsókn var lögð fram og tafir séu ekki af völdum umsækjanda sjálfs.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2023 kemur fram að löggæsluyfirvöld heyri undir innanríkisráðuneytið og að einstaklingar geti leitað til lögreglu óttist þeir að brotið verði á þeim. Litháísk lög veiti vernd gegn mismunun m.a. á grundvelli þjóðernis, kynhneigðar og kynvitundar en yfirvöld hafi almennt framfylgt lögunum. Samkvæmt skýrslu Amnesty International frá apríl 2024 hafi yfirvöld í Litháen viðhaft svokallaðar push back aðgerðir gagnvart flóttafólki og innflytjendum, sem hafi komið ólöglega til landsins, frá Belarús.
4.5 Niðurstaða um 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:
Ef beiting 1. mgr. mundi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skal taka umsókn til efnismeðferðar.
Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga segir að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga er rétt að líta til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun, sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá skal hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim, með þeim skýra fyrirvara að dómar Evrópudómstólsins á þessu réttarsviði eru ekki bindandi fyrir íslenska ríkið. Í 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er að finna sambærilegt ákvæði og í 3. gr. mannréttindasáttmálans.
Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Evrópudómstólsins leiðir að þrátt fyrir að ríki hafi rétt til að stjórna hverjir dvelji á landsvæði þeirra geti flutningur einstaklings til annars ríkis falið í sér brot á banni við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þetta á við ef veruleg ástæða er til að ætla að viðkomandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð ákvæðinu.
Meðferð og aðbúnaður umsækjenda um alþjóðlega vernd í endursendingarríki þurfa að ná tilteknu alvarleikastigi til að fela í sér brot gegn banninu. Því alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda ríkisins hefur þær afleiðingar að einstaklingur, sem að öllu leyti er háður stuðningi þess, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann getur ekki mætt grundvallarþörfum sínum og grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn. Það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni verulega við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki telst ekki nægjanlegt til að teljast vanvirðandi meðferð. Þá er ríkjum ekki skylt að sjá þeim sem njóta alþjóðlegrar verndar eða dvalarleyfis fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum.
Samkvæmt dómum Evrópudómstólsins skal framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar vera í samræmi við 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Lög Evrópusambandsins eru byggð á grundvallarforsendunni um gagnkvæmt traust, þ.e. að gildi og lög sambandsins séu viðurkennd og virt í hverju aðildarríki og að réttarkerfi aðildarríkjanna veiti sambærilega og virka vernd þeirra grundvallarréttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins mælir fyrir um. Dyflinnarreglugerðin er byggð á gagnkvæmu trausti og markmið hennar er að afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd sé skilvirk til hagsbóta fyrir umsækjendur og aðildarríki samstarfsins. Samkvæmt framangreindu samrýmist meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins þeim kröfum sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmáli Evrópu gera.
Litið hefur verið til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í endursendingarríki með hliðsjón af aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi, sbr. gögn málsins og framangreindar landaupplýsingar. Ekkert bendir til að endursending kæranda til ríkisins sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Litháen, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Kærandi vísar til þess í greinargerð að hann eigi á hættu að vera brottvísað frá Litháen verði hann endursendur þangað og hefur lagt fram skýrslur, fréttaskýringar og aðrar heimildir til stuðnings þeirri málsástæðu. Kærandi verði að sögn færður á lokað landsvæði á landamærunum þar sem eini kostur hans sé að fara til heimaríkis en þar eigi hann á hættu að sæta fangelsisvistun. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu en gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um hana í ákvörðun sinni. Líkt og fram hefur komið eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.
Þá lagði kærandi fram skýrslur, fréttaskýringar og aðrar heimildir til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að hann muni verða fyrir fordómum í endursendingaríki og um aðstæður í heimaríki hans. Þrátt fyrir að fallast megi á með kæranda að fordómar í garð ríkisborgara Belarús hafi aukist í endursendingarríki á undanförnum árum verður ekki talið að slíkar aðstæður nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir eða ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð þannig að til skoðunar komi að beita 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hefur umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hlotið málsmeðferð í endursendingarríki samkvæmt framangreindum reglum og viðmiðum Evrópusambandsins um málsmeðferðir umsókna um alþjóðlega vernd, henni verið synjað og ber kæranda af þeim sökum að fara aftur til heimaríkis. Tekið skal fram að aðstæður í heimaríki kæranda koma ekki til skoðunar þar sem umsókn hans sætir málsmeðferð samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði í Litháen og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, hefur ekki verið sýnt fram á að hann eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hans til endursendingarríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt framansögðu verður umsókn kæranda ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
5 Frávísun
Kærandi kom hingað til lands 27. júlí 2024 og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 29. júlí 2024. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi skal fluttur til Litháen innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
6 Athugasemdir, samantekt og leiðbeiningar
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur nefndin þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur nefndin tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir Jóna A. Pálmadóttir