Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna stríðsins í Úkraínu sló öll fyrri met
Í þessari viku er ár liðið frá innrásinni í Úkraínu og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vekur athygli á því á þessum tímamótum að milljónir barna lifa enn við stríð og afleiðingar þess. Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna stríðsins í Úkraínu sló öll fyrri met.
„Stuðningur Heimsforeldra á Íslandi, almennings, fyrirtækja og stjórnvalda við verkefni UNICEF sló öll met í fyrra – en því miður er stríðið hvergi nærri búið og neyðin ennþá gríðarleg. Við treystum því að Íslendingar haldi áfram að styðja við lífsbjargandi starf UNICEF í Úkraínu svo um muni,“ segir Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Eitt ár af stríði hefur rænt börn Úkraínu nánast öllu: heimili, ástvinum, skólum, leikvöllum, vinum, sálarró, lífi og limum. Von og þrautseigja verða þó aldrei af þeim tekin og UNICEF hefur staðið sleitulausa vakt við að tryggja þrautseigjuna og halda í vonina,“ segir hún.
Í frétt UNICEF segir að líf úkraínskra barna hafi umturnast og þau upplifað ólýsanlegan hrylling. Hundruð barna hafi látið lífið og enn fleiri særst, börn og fjölskyldur hafi neyðst til að flýja heimili sín og óvissan og óttinn heltekið líf allra Úkraínumanna.
„En í gegnum þetta allt hafa úkraínsk börn líka sýnt ótrúlegan styrk og þrautseigju. Með stuðningi Heimsforeldra og allra þeirra þúsunda einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi sem lagt hafa neyðarsöfnun okkar lið á árinu hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, getað sinnt lífsnauðsynlegu hjálparstarfi í þágu milljóna barna og fjölskyldna þeirra. En stríðinu er því miður langt í frá lokið og áframhaldandi stuðningur við börn Úkraínu nauðsynlegur.