Umferðarupplýsingar beint í snjalltæki vegfarenda
Vegfarendur geta brátt fengið upplýsingar um færð og ástand vega beint í leiðsögukerfi í snjalltækjum sínum. Vegagerðin hefur hafið útgáfu þessara upplýsinga á samevrópskum DATEXII (Datex2) staðli og verða þar með gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í morgun þátt í opnum veffundi Vegagerðarinnar þar sem þessar nýjungar voru kynntar.
„Mikilvægi góðra og réttra upplýsinga verður seint vanmetið. Markmiðið er að samræma opinberar ferðaupplýsingar og upplýsinga- og leiðsögukerfi erlendra tæknifyrirtækja. Við gerum það best með því að gera opinber gögn aðgengileg þeim sem geta nýtt þau. Þetta er mikið framfaraskref sem bætir þjónustu og eykur öryggi allra þeirra sem nýta vegakerfið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
DATEXII staðallinn gerir erlendum leiðsöguþjónustum kleift að sækja þær upplýsingar sem Vegagerðin birtir um vegakerfið, svo sem veður og færð, í rauntíma í leiðsögukerfum sínum hvort heldur er í farsímum eða í leiðsögukerfum bifreiða. Dæmi um umferðarupplýsingar eru lokanir á vegum vegna framkvæmda, slysa eða ófærðar. Fyrirtæki eins og Here og TomTom, sem útbúa ferðaupplýsingar ofan á kortin hjá Google og eða Apple, geta með þessu móti varpað upplýsingum til notenda sinna í rauntíma.
„Með innleiðingu staðalsins vonast Vegagerðin til að nauðsynlegar upplýsingar rati til vegfarenda í rauntíma og berist þeim á meðan á ferðalaginu stendur og þetta er líka öryggismál,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Verkefnið var unnið með fjárveitingu sem til kom af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna óveðursins í desember 2019. Sama fjárveiting hefur einnig verið nýtt til að þróa vef um veður og sjólag, sem kynntur verður á næstunni.