Hoppa yfir valmynd
12. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýr stefna í málefnum fatlaðs fólks

Harpa
Harpa

Með undirritun sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gáfu stjórnvöld út afdráttarlausa yfirlýsingu um hvert skuli stefna í margvíslegum réttindamálum fatlaðs fólks sem snerta flest eða öll svið samfélagsins, sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra á málþingi í Hörpu þar sem rætt var um innleiðingu sáttmálans hér á landi.

Ráðherra sagði þessa stefnu hafa verið innsiglaða á afgerandi hátt þegar Alþingi fól velferðarráðherra með lögum að vinna að gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks þar sem fram kæmu meðal annars tímasettar aðgerðir til fullgildingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin var staðfest sem þingsályktun frá Alþingi í júní á þessu ári og þar með var jafnframt innanríkisráðuneytinu falið að leiða vinnuna við innleiðingu sáttmálans.

Ráðherra lagði áherslu á þær skuldbindingar sem sáttmálinn felur í sér og felist í því að innleiða viðhorf og vinnubrögð, verklag og framkvæmd, aðhald og eftirlit á fjölmörgum sviðum sem varði réttindi, stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Grundvöllur sáttmálans byggist á virðingu fyrir persónufrelsi, banni við mismunun, þátttöku, aðgengi, virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins og jafnrétti kynja. Í fimmtíu greinum samningsins er kveðið á um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, aðgengismál, samfélagsþátttöku, rétt til menntunar, heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu, réttinn til atvinnu og svo mætti áfram telja.

„Í þessu felast mörg og viðamikil verkefni sem krefjast mikillar vinnu, undirbúnings og samhæfingar milli stjórnsýslustiga og fjölmargra stofnana samfélagsins með þátttöku hagsmunasamtaka og raunar alls almennings. Allt þetta og meira þarf til að sá árangur náist sem að er stefnt og fullgilding sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér,“ sagði velferðarráðherra meðal annars.

Ríkisstjórn Íslands ákvað í vikunni að veita tíu milljónir króna til vinnu vegna undirbúnings að fullgildingu sáttmálans. Þetta kom fram í ávarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á málþinginu. Skipuð verður samstarfsnefnd ráðuneyta til að undirbúa fullgildinguna og munu öll ráðuneyti yfirfara löggjöf á sínum málefnasviðum og leggja til nauðsynlegar breytingar til samræmis við sáttmálann. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta