Áform um frumvarp um landshöfuðlén birt í samráðsgátt
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið áformar að semja frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is þar sem settar verði skýrar lágmarksreglur um skráningu léna undir landshöfuðléninu. Áformin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Í rökstuðningi með áformunum segir að líta verði á landshöfuðlénið .is sem mikilvægan innvið fyrir íslenskt samfélag og því verður að telja bæði tímabært og nauðsynlegt að sett verði lágmarks lagaumgjörð um skráningarstofu landshöfuðlénsins .is.
Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 20. júlí 2019.
Í dag er ekki að finna heildstæða löggjöf um landshöfuðlénið .is eða önnur höfuðlén (e. top level domain). Þá er hvergi minnst á lén í íslenskri löggjöf, hvorki í fjarskiptalögum nr. 81/2003 né öðrum sérlögum er varða netið með einhverjum hætti. Landshöfuðlénum er útdeilt til allra ríkja og vísa til landfræðilegs uppruna. Landshöfuðlén eru ávallt tveggja stafa og eru byggð á ISO 3166-1 staðlinum.
Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að samningu frumvarpa á þessu sviði og eitt þessara frumvarpa var jafnframt lagt fram á 139. og 140. löggjafarþingi. Frumvarpið sætti talsverðri gagnrýni og náði ekki fram að ganga.
+ Áform um frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is