Tíu ára afmæli lögfestingar Barnasáttmálans á Íslandi
Í dag eru tíu ár liðin frá lögfestingu Barnasáttmálans á Íslandi. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti Vesturbæjarskóla í tilefni dagsins þar sem myndband KrakkaRÚV og mennta- og barnamálaráðuneytisins um Barnasáttmálann var frumsýnt og skólabörn sungu frumsamið réttindalag byggt á sáttmálanum.
Myndband KrakkaRÚV:
Ísland var í hópi fyrstu landa til að lögfesta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hinn 20. febrúar 2013. Umfangsmikil aðgerðaáætlun um innleiðingu sáttmálans hér á landi hefur verið mótuð í stefnu um Barnvænt Ísland. Stefnan uppfyllir ýtrustu kröfur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, skyldur stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum og felur í sér innleiðingu verklags og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar.
Skólabörn deila með ráðherra skoðunum sínum um hvað betur megi fara í skólastarfi
„Það var ánægjulegt að fá að heimsækja börnin í Vesturbæjarskóla og svara spurningum þeirra um Barnasáttmálann, réttindi þeirra og margt fleira. Ég vil þakka skólanum fyrir blíðar móttökur og hrósa honum fyrir réttindamiðaða nálgun á skólastarfið í samræmi við Barnasáttmálann. Mikilvægt er að lyfta stefnunni um Barnvænt Ísland og kynna hana með markvissum hætti fyrir börnum og almenningi í landinu til að hún nái fram að ganga. Slík kynning á stefnunni er ein af meginaðgerðum hennar jafnt sem lykilþáttur í innleiðingu aðgerðaáætlun menntastefnu og aðalnámskrár. Samstarf ráðuneytisins við KrakkaRÚV er liður í því kynningarstarfi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Mennta- og barnamálaráðherra heimsækir skólastofur
Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.
Réttindaráð Vesturbæjarskóla afhendir mennta- og barnamálaráðherra Barnaréttindabingó sem þau hönnuðu og verður sent nemendum skólans í tilefni dagsins