Heilbrigðisþjónustan í viðbragðsstöðu
Heilbrigðisráðherra hefur sett heilbrigðisþjónustuna í viðbragðsstöðu til að þjóna einstaklingum sem þurfa aðstoð vegna erfiðleikanna á fjármálamarkaði.
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, fól í gærkvöld forstjóra Landspítala að hefja undirbúning að því að styrkja og undirbúa geðsvið spítalans þannig að það geti sem best þjónað þeim einstaklingum sem þurfa aðstoð til að takast á við erfiðleika sem upp koma vegna núverandi aðstæðna á fjármálamarkaði.
Undirbúingur af hálfu forstjóra er þegar hafinn.
Þá hefur heilbrigðisráðherra falið forstjóra og lækningaforstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að koma á fót bráðaþjónustu, eða samsvarandi úrræðum, sem aðstoðar fólk sem á í tímabundnum erfiðleikum vegna umrótsins sem nú ríður yfir.
„Það er ljóst að mjög mun reyna á heilbrigðisþjónustuna, sem eina veigamestu grunneiningu samfélagsins, á næstunni“, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og bætir við: „Heilbrigðistarfsmenn eru þrautþjálfaðir og afar færir til að leiðbeina og hjálpa þeim einstaklingum sem eru hjálpar þurfi og ég veit að þeir eru við öllu búnir. Ég hef haft samband við Landspítalann, Heilsugæsluna og allar heilbrigðisstofnanir og þar verður fólk í viðbragðstöðu“.