Mál nr. 8/2003
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
í málinu nr. 8/2003
Ákvörðunartaka: Salerni í sameiginlegu þvottahúsi.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 27. janúar 2003, mótteknu 29. janúar 2003, beindi A, X nr. 26, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, X nr. 26, hér eftir nefnd gagnaðili.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 16. febrúar 2003. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Greinargerð C f.h. gagnaðila, dags. 2. apríl 2003, ásamt frekari athugasemdum álitsbeiðanda, dags. 30. apríl 2003, voru lögð fram á fundi nefndarinnar 13. júní 2003 og málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 24-26, sem er byggt árið 1951 og samanstendur af kjallara, tveimur hæðum auk rislofts, alls fjórir eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi annarrar hæðar í X nr. 26, en gagnaðili er eigandi fyrstu hæðar að X nr. 26. Ágreiningur er um salerni í sameignlegu þvottahúsi.
Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:
Að salerni í sameignlegu þvottahúsi og þurrkherbergi verði fjarlægt.
Í álitsbeiðni kemur fram að íbúðirnar tvær í X nr. 26 séu með sameiginlegt þvottahús og þurrkherbergi í kjallara. Álitsbeiðandi segir að í einu horni rýmisins hafi verið komið fyrir salerni og vaski. Sé tréveggur opinn frá gólfi í kring um salernið og vaskinn. Þegar álitsbeiðandi keypti eignarhluta sinn fyrir þremur árum hafi hann verið ósáttur við umrætt salerni og talið það taka of mikið pláss og af því óþrifnaður. Hafi álitsbeiðandi rætt þetta við gagnaðila sem kvaðst hafa leyfi frá fyrri eigendum fyrir þessu. Álitsbeiðandi segist ítrekað hafa farið fram á það við gagnaðila að hann fjarlægði salernið, vaskinn og tréveggina, en því hafi hann neitað.
Álitsbeiðandi bendir á að ekki sé gert ráð fyrir umræddu salerni í eignaskiptayfirlýsingu né á samþykktum teikningum. Enginn vafi sé því á réttarstöðu álitsbeiðanda samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að umrætt salerni hafi verið byggt á árunum 1975-1977 af báðum eigendum hússins. Teljist salernið því í sameign eigenda X nr. 26.
III. Forsendur
Óumdeilt er í málinu að þvottahús og þurrkherbergi í kjallara X nr. 26 er í sameign. Af gögnum málsins verður ráðið að salernið sé í sameign málsaðila og ekki annað sýnt en að ákvörðun um byggingu þess hafi á sínum tíma verið tekin af eigendum beggja eignarhluta. Einnig liggur fyrir að þegar álitsbeiðandi keypti eignarhlut sinn í húsinu var umrætt salerni til staðar í sameigninni og hafði verið þar í áratugi.
Kærunefnd gengur út frá því að löglega hafi verið staðið að ákvörðunartöku um uppsetningu umrædds salernis þeim tíma þegar það var útbúið. Er því ekki unnt að fallast á kröfu álitsbeiðanda um að það verði fjarlægt.
Hins vegar telur kærunefnd rétt að benda á að í ljósi þess að hvorki er gert ráð fyrir umræddu salerni hvorki í eignaskiptayfirlýsingu né á samþykktum teikningum, sé eigendum heimilt að ákveða það með einföldum meirihluta á almennum húsfundi að salernið skuli fjarlægt og sameiginlegu þvottahúsi og þurrkherbergi komið í upprunalegt horf.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að salerni í sameignlegu þvottahúsi og þurrkherbergi verði fjarlægt.
Reykjavík, 13. júní 2003
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson