Umhverfisráðherrar hvetja til sjálfbærrar nýtingar á plasti
Framvegis ber að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaðar hvorki heilsu manna eða umhverfið. Þannig hljómar framtíðarsýn nýrrar plastáætlunar norrænu umhverfisráðherranna sem þeir samþykktu á fundi sínum í Osló í Noregi í dag.
Áætlunin byggir á fyrri samnorrænum aðgerðum í plastmálum og er henni ætlað að efla samlegðaráhrif í norrænu samstarfi og auka enn frekar þá þekkingu og vitund um plast sem er fyrir hendi á Norðurlöndum. Benda ráðherrarnir sérstaklega á viðfangsefni vegna úrgangs í hafinu og hlutverk plastsins í hringrásarhagkerfinu.
Á fundinum gerði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, að umtalsefni þá staðreynd að landamæri Íslands eru sjórinn. „Því þurfum við að vera í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn plastmengun í hafi. Lifibrauð okkar er að miklu leyti háð hafinu og þeim ríkulegu gjöfum sem það færir okkur. Við viljum ekki taka á móti þeim gjöfum innpökkuðum í plast og því vil ég beita mér fyrir því að gripið verði til markvissra aðgerða til að hindra slíka mengun.”
Samhliða kynningu á plastáætluninni var hrint úr vör samnorrænu átaki gegn plasti í höfum. Átakið er framlag Norðurlandanna til átaks Umhverfisstofnunar SÞ (UNEP) gegn úrgangi í hafi, sem fengið hefur yfirskriftina #CleanSeas. Má lesa nánar um norræna átakið á sérstöku vefsvæði á slóðinni http://www.norden.org/is/thema/cleanseas
Framkvæmdastjórn ESB vinnur að undirbúningi áætlunar um plast í hringrásarhagkerfi. Í bréfi umhverfisráðherra Norðurlanda er undirstrikað mikilvægi þess að skapaður verði góður eftirmarkaður fyrir plast, hvatt verði til hönnunar sem ýti undir endurvinnslu og ráðist verði í aðgerðir gegn örplasti í neysluvörum.