Hoppa yfir valmynd
26. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 67/2015

Fimmtudaginn 26. maí 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 30. október 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2015, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar til hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 42.838 kr. að meðtöldu 15% álagi.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun í byrjun árs 2015. Var umsókn hennar samþykkt. Með bréfi, dags. 1. september 2015, var kæranda tilkynnt um að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi haft tekjur frá B að fjárhæð 541.486 kr. í júní 2015, án þess að gera grein fyrir þeim á sama tíma og hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Þá óskaði stofnunin eftir skýringum kæranda á framangreindum tekjum.

Þann 2. september 2015 skilaði kærandi inn tilkynningu um tekjur þar sem fram kemur að umrædd fjárhæð sé laun vegna janúar til júní 2015 og að kærandi hafi verið [...] hjá B. Laun væru aðeins greidd tvisvar á ári, annars vegar í X og hins vegar í X. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar frá 2. september 2015 er haft eftir kæranda að hún hafi látið vita af vinnunni þegar hún hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Með bréfi, dags. 25. september 2015, var kæranda tilkynnt um að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði þar sem hún hafi verið að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um vinnuna. Þá var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, samtals að fjárhæð 42.838 kr. með 15% álagi á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. október 2015. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2015, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 14. desember 2015. Athugasemdirnar voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi, dags. 15. desember 2015.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru gerir kærandi þær kröfur að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, hún fái áfram greiddar atvinnuleysisbætur og að sér verði ekki gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi segir að þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi hún greint Vinnumálastofnun frá þeim tekjum sem hún hafi haft meðal annars hjá B en stofnunin hafi ekki viljað taka við þeim gögnum sem hún hafi haft fram að færa. Tekjurnar frá B séu vegna vinnu hennar við [...]. Þau gögn sem hún hafi um þessar tekjur sé launamiði. Hún hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 1. september 2015, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur frá B og hún hafi sama dag farið á skrifstofu Vinnumálastofnunar til að gera aftur grein fyrir þessum tekjum en stofnunin hafi enn ekki viljað taka við launamiðanum. Hún hafi því gert allt sem hún hafi getað til þess að upplýsa um tekjurnar hjá B, en tekjur þessari fái hún tvisvar á ári, í X og í X. Það sé því rangt að hún hafi ekki upplýst um neinar tekjur.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að það sé ekki rétt að hún hafi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar með útfyllta tilkynningu um tekjur. Hún hafi mætt á skrifstofu Vinnumálastofnunar eftir að henni hafi borist bréf frá stofnuninni, dags. 1. september 2015, og hafi þar verið gert að fylla út nefnda tilkynningu um tekjur hjá þjónustufulltrúa, þrátt fyrir að hún hafi þegar gert grein fyrir þessu tekjum þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur.

Með greinargerð Vinnumálastofnunar hafi fylgt ljósrit gagna frá stofnuninni þar sem meðal annars komi fram að stofnunin hafi ekki tekið við þeim gögnum sem hún hafi haft um nefndar tekjur og styðji það kæru kæranda. Þrátt fyrir það sé þess ekki getið í greinargerð stofnunarinnar.

Kærandi minnir á meðalhófsreglu í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að Vinnumálastofnun beri að velja vægasta úrræði sem í boði sé. Vinnumálastofnun byggi ekki á því að kærandi gæti haft á réttu að standa heldur sé eingöngu byggt á því að hún hafi ekki tilkynnt um umræddar tekjur.

Ef Vinnumálastofnun hafi hafnað að taka við þeim gögnum, sem hún hafi undir höndum um tekjurnar, hljóti að vera ljóst að stofnunin tilgreini tekjurnar ekki í sínu kerfi, þrátt fyrir að hún hafi tilkynnt um tekjurnar frá B frá upphafi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta lúti að ákvörðun stofnunarinnar um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Annar málsliður 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína samkvæmt 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Af ákvæðinu leiði að sá sem ekki tilkynni stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt samkvæmt 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu samkvæmt 35. gr. a skuli sæta viðurlögum á grundvelli þess.

Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Á þeim, sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun, hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi starfað sem [...] hjá B á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi sagst hafa tilkynnt um þessa vinnu sína þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Engar upplýsingar úr tölvukerfi stofnunarinnar eða gögn sem kærandi hafi fært fram í málinu bendi til þess að hún hafi tilkynnt um vinnu sína. Vinnumálastofnun hafi fyrst verið kunnugt um vinnu kæranda eftir samkeyrslu við gagnagrunn ríkisskattstjóra í september 2015. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn sinnt störfum á innlendum vinnumarkaði án þess að tilkynna um vinnu sína. Í ljósi þeirrar skyldu, sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar um tekjur og skýrrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þar sem kærandi hafi fengið greidd laun á meðan hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga sé ljóst að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Við mat á skerðingu á greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda hafi verið litið til þess að launagreiðsla til hennar í júnímánuði hafi verið fyrir vinnu hennar frá janúar til loka júní 2015. Hafi launagreiðslunni því verið deilt niður á sex mánuði. Samkvæmt því hafi kærandi verið með 90.247 kr. í laun þá mánuði sem hún hafi verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Að viðbættu frítekjumarki, sbr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi skerðing á greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda numið 37.250 kr. á tímabilinu 1. mars til 30. júní 2015. Að viðlögðu 15% álagi að upphæð 5.588 kr. beri kæranda að endurgreiða samtals 42.838 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt skýrum leiðbeiningum 39. gr. laganna beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kærandi ekki sýnt fram á það að fella beri niður álag á grundvelli ákvæðisins.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hún hefur starfað að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, hljóðar svo:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Af gögnum málsins verður ráðið að hin kærða ákvörðun sé byggð á 2. málsl. 60. gr. laganna. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 (E-2547/2015) var leyst úr ágreiningi sem varðaði ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laganna. Í dóminum var fjallað ítarlega um túlkun framangreinds ákvæðis. Í niðurstöðunni segir meðal annars svo:

„Samkvæmt framangreindu verður fallist á þá efnislegu niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, í fyrrgreindu áliti hans, að miða verði við að í verknaðarlýsingu 2. málsliðar 60. gr. laga nr. 54/2006 felist krafa um atvinnuleitandi hafi ætlað að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Af hálfu stefndu er því ómótmælt að mál stefnanda hafi ekki verið rannsakað sérstaklega með hliðsjón af huglægri afstöðu hans, enda byggir málatilbúnaður þeirra á því að slík afstaða hafi ekki haft þýðingu um meðferð og niðurstöðu stjórnsýslumálsins. Að virtri framagreindri niðurstöðu um skýringu 2. málsliðar 60. gr. laga nr. 54/2006 liggur þannig fyrir að verulegir annmarkar voru á málsmeðferð stefnda Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga svo og rökstuðningi ákvarðana. Er jafnframt ljóst að umræddir annmarkar voru til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Verður því að fallist á kröfu stefnanda um að umræddar stjórnvaldsákvarðanir stefndu Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga um sviptingu bótaréttar stefnanda verði felldar úr gildi.“ 

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir beitingu viðurlaga á grundvelli 2. málsl. 60. gr. að atvinnuleitandi hafi aflað sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af gögnum málsins verði ráðið að Vinnumálastofnun hafi beitt kæranda viðurlögum á grundvelli framangreinds ákvæðis þar sem hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt stofnuninni um vinnuna. Því virðist huglæg afstaða kæranda ekki hafa verið könnuð áður en ákvörðun um beitingu viðurlaga var tekin. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til baka til mats á því hvort kærandi hafi aflað sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga og innheimtu ofgreiddra bóta felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. september 2015, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 42.838 kr. að meðtöldu 15% álagi, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta