Nr. 664/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 664/2021
í stjórnsýslumálum nr. KNU21110081 og KNU21110082
Beiðni um endurupptöku í
málum [...], [...] og barns þeirra
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í málum nr. KNU21040030 og KNU21040031, dags. 15. júlí 2021, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 29. mars og 12. apríl 2021, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir K) og [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir M) og barns þeirra, stúlku [...], fd. [...], ríkisborgara Sýrlands (hér eftir A), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.
Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 19. júlí 2021. Þann 26. júlí 2021 lögðu kærendur fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Þann 11. ágúst 2021 var beiðni kærenda hafnað. Þann 10. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku málsins. Þann 12. ágúst 2021 stefndu kærendur íslenska ríkinu fyrir dómi til ógildingar á úrskurði kærunefndar og ákvörðun Útlendingastofnunar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. E-3844/2021 dags. 6. desember 2021, var íslenska ríkið sýknað af kröfum kærenda.
Af greinargerð kærenda má ráða að beiðni þeirra um endurupptöku málsins byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kærenda
Með beiðni kærenda um endurupptöku fylgdi greinargerð þeirra til Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2021. Þar kemur fram að beiðni kærenda um endurupptöku málsins byggi á því að meira en 10 mánuðir séu nú liðnir síðan þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á þeirra ábyrgð. Með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, skuli umsóknir þeirra því teknar til efnismeðferðar hér á landi.
Kærendur telja að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2021, í máli A geti ekki staðið ein og sér. Þannig séu forsendur fyrir niðurstöðu í máli A byggðar á málsmeðferð í máli foreldra hennar, sem hófst þann 10. janúar 2021 og því hafi málsmeðferðin í máli A tekið 10 mánuði. Þá sé A jafnframt getið í ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2021, sem snúi að kærendum. Jafnframt hafi legið fyrir að K væri barnshafandi þegar kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 10. janúar 2021.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Samkvæmt 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 638/2019, er Útlendingastofnun heimilt að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs.
Kærunefnd telur ljóst að hið 10 mánaða tímabil samkvæmt 32. gr. c reglugerðar um útlendinga hefjist þegar umsækjandi með barn leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, fylgdarlaust barn leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi eða frá þeim degi þegar barn umsækjanda fæðist hér á landi. Þar sem barn öðlast réttarstöðu við fæðingu þess, telur kærunefnd ekki hægt að miða upphaf tímafrests ákvæðisins við umsóknardag foreldris þess, sbr. framangreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli kærenda og barns þeirra nr. E-3844/2021 frá 6. desember 2021.
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. janúar 2021 en barn kærenda er fætt hér á landi þann [...]. Kærunefnd telur því að umrætt 10 mánaða tímabil í skilningi ákvæðisins ljúki þann [...], að öðrum skilyrðum ákvæðisins uppfylltum.
Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kærenda á þann hátt að þau eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli þeirra er þar með hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda er hafnað.
The appellants’ request is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares