Mál nr. 5/2020
Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 5/2020:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmálsins nr. E-430/2016:
Valgeir Kristinsson
gegn
A
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
- Beiðni um endurupptöku
- Með erindi, dags. 10. ágúst 2020, fór A þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-430/2016, sem dæmt var í Héraðdómi Reykjaness 21. september 2016, verði endurupptekið.
- Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.
- Málsatvik
- Með dómi Héraðdóms Reykjaness í máli nr. E-430/2016, sem kveðinn var upp 21. september 2016, var endurupptökubeiðanda gert að greiða stefnanda, sem hafði gegnt lögmannsstörfum fyrir hann, 435.500 kr. auk dráttarvaxta frá 13. janúar 2016 til greiðsludags. Þá var endurupptökubeiðanda gert að greiða stefnanda 300.000 kr. í málskostnað.
- Endurupptökubeiðandi hefur áður óskað eftir því við endurupptökunefnd að það mál sem lauk með framangreindum dómi verði endurupptekið. Beiðni hans þar um var synjað með úrskurði nefndarinnar 15. ágúst 2019 í máli nr. 2/2019.
- Grundvöllur beiðni
- Eins og nánar er gerð grein fyrir í endurupptökubeiðni telur endurupptökubeiðandi að í dómi Héraðsdóms Reykjaness séu dregnar rangar ályktanir af gögnum málsins og aðila- og vitnaskýrslum. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála.
- Niðurstaða
- Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í héraðsdómi verði tekið til nýrrar meðferðar ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt.
- Í 2. mgr. 191. gr. laganna segir að aðili geti ekki sótt um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. nema einu sinni. Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur áður beðið um endurupptöku héraðsdómsmáls E-430/2016, sbr. mál endurupptökunefndar nr. 2/2019. Endurupptökunefnd synjaði þeirri beiðni 15. ágúst 2019 eins og áður greinir. Skortir því lagaskilyrði til að endurupptökunefnd fjalli um endurupptökubeiðni þessa. Með vísan til þessa er beiðninni vísað frá endurupptökunefnd.
Úrskurðarorð
Beiðni A um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. E-430/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 21. september 2016, er vísað frá endurupptökunefnd.
Haukur Örn Birgisson formaður
Gizur Bergsteinsson
Hrefna Friðriksdóttir