Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðstefna um farsæla skólagöngu allra barna – upptaka og áframhaldandi samráð

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt upptöku af öllum erindum og pallborðsumræðum á ráðstefnu um farsæla skólagöngu allra barna sem haldin var á mánudag, 14. nóvember 2022. Ráðstefnan var vel sótt með 260 ráðstefnugestum og 1.827 í streymi. 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti nýlega áform um ný heildarlög um skólaþjónustu og í þeirri vinnu gegnir samráð við hlutaðeigandi lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa.

Þeim 500 sem skráðu sig á ráðstefnuna, á staðnum og í streymi, hefur verið boðið að taka þátt í samráðshópum um mótun skólaþjónustu til framtíðar sem munu funda á næstu vikum. Áður höfðu 500 einstaklingar brugðist við auglýsingu ráðuneytisins um samráð og lýst yfir áhuga á þátttöku í samráðshópunum.

Lokaorð Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, með orðaskýi frá ráðstefnugestum í baksýn yfir þau orð sem koma í huga þegar hugsað er um farsæla skólagöngu barna

 „Menntun er algjört lykilatriði til að vera farsæll einstaklingur, alveg eins og það er mikilvægt að búa við góða velferð og fjárhagslegt öryggi,“ sagði Ásmundur í lokaorðum. „Það er það sem við erum að reyna að kalla fram með farsældarlöggjöfinni: Þú getur ekki slitið eitt frá öðru, þetta hangir allt saman á sömu spýtunni.“

Snærós Sindradóttir ráðstefnustjóri tekur við spurningum þátttakenda á Slido og beinir til pallborðs. Í því sátu frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs Árborgar og nýráðinn skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta