Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 12. apríl 2024

Heil og sæl, 

Upp er runninn föstudagur, ákaflega skýr og fagur að þessu sinni.

Þótt ríkisstjórnin hafi staðið í stólaskiptum og stússi í vikunni hafði það ekki áhrif á gang mála í utanríkisþjónustunni, síður en svo. Við óskum Bjarna Benediktssyni velfarnaðar í forsætisráðherrastól og þökkum kærlega fyrir samstarfið um leið og við tökum hjartanlega vel á móti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur aftur í stöðu utnaríkisráðherra. Hún kann vel að stýra þessu skipi og fer létt með að lenda hlaupandi. 

Þórdís Kolbrún og Bjarni fengu bæði góðar kveðjur á X, meðal annars frá Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu.

Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna fór fram í Svíþjóð í vikunni. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna tók þátt í fundinum fyrir hönd ráðherra. Stuðningur við Úkraínu var þar efst á baugi, auk málefna Belarús.

Um 200 sérfræðingar í netöryggismálum frá bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins tóku þátt í ráðstefnu sem fram fór í Reykjavík dagana 9.-11. apríl. Þar voru til umræðu helstu áskoranir og ógnir sem stafa að netöryggi ríkjanna, en viðburðurinn var haldinn á vegum Atlantshafsbandalagsins í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, CERT-IS. 

Í gær fór fram skrifstofustjórafundur samstarfshóps líkt þenkjandi ríkja í þróunarsamvinnu, Nordic+. Ísland er í formennsku í samstarfshópnum og er fundurinn síðasti liðurinn í fundadagatali formennskunnar áður en Bretar taka við keflinu í maí.

Í dag sögðum við einmitt frábráðabirgðatölum Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD-DAC) þar sem fram kemur að samanlögð framlög DAC-ríkja hafa aldrei verið hærri, en þau jukust um 1,8 prósent að raunvirði á árinu 2023 miðað við árið á undan. Framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2023 námu 0,36 prósentum af vergum þjóðartekjum (VÞT) samanborið við 0,34 prósent árið á undan. Að meðaltali veita aðildarríki DAC 0,37 prósentum af VÞT til málaflokksins.

Og þá að sendiskrifstofunum.

Árlegt efnahagssamráð Íslands og Bandaríkjanna fór fram í bandaríska utanríkisráðuneytinu á fimmtudag. Fyrir íslensku sendinefndinni fór Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu, en af hálfu Bandaríkjanna Amy E. Holman aðstoðarutanríkisráðherra á sviði efnahags- og viðskiptamála. Rætt var um tvíhliða viðskiptasamband ríkjanna í breiðu samhengi, sem og samstarf á fjölþjóðlegum vettvangi. Þá var rætt sérstaklega um nýtt samstarf á sviði orku- og loftlagsmála, sem komið var á fót í heimsókn orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Jennifer Granholm, til Íslands í febrúar síðastliðnum.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra sótti undir lok vikunnar Arctic Encounter-ráðstefnuna, helstu ráðstefnuna um norðurslóðamál sem haldin er í Bandaríkjunum ár hvert en hún fer fram í Anchorage í Alaska. Fjöldi fólks er þar samankominn en meðal annars urðu fagnaðarfundir með sendiherra og Jónu Sólveigu Elínardóttur, sem er pólitískur ráðgjafi á skrifstofu Atlantshafsbandalagsins í Norfolk í Bandaríkjunum. 

Staðgengill sendiherra, Davíð Logi Sigurðsson, tók á miðvikudag fyrir hönd sendiráðsins þátt í viðburði sem Viðskiptaráð Bandaríkjanna hélt með sendiherrum (og varamönnum sendiherra) allra norrænu landanna fimm. Fór þar fram gott samtal um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna og allt það sem Norðurlöndin hafa upp á að bjóða og sem gerir þau að einstökum samstarfsaðila fyrir Bandaríkin, á sviði viðskipta en líka öryggis- og varnarmála á víðsjárverðum tímum o.fl. 

Davíð Logi fór einnig ásamt Garðari Forberg varnarmálafulltrúa í sendiráðinu til fundar við yfirmann alþjóðamála hjá bandarísku landhelgisgæslunni en gott samstarf hefur um árabil verið milli Íslands og Bandaríkjanna á því sviði.

Svo þarf auðvitað ekki að taka fram að starfsfólk sendiráðsins fór upp á þak sendiráðsins, sem staðsett er í House of Sweden í Georgetown-hverfinu, til að fylgjast með sólmyrkvanum margumtalaða á mánudag.

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York fékk að munda fundarhamarinn góða sem Ísland færði Sameinuðu þjóðunum að gjöf og er notaður til að stýra fundum í allsherjaþingsalnum.

Hraun verður til umfjöllunar á málþingi í Berlínarborg með stuðningi íslenskra stjórnvalda, enda höfum við Íslendingar eitt og annað um málið að segja.

Gluggar fyrir ljós á hreyfinu, er nýtt verk eftir Ólaf Elíasson sem sendiráðsstarfsfólk okkar í Berlín segir frá á sínum samfélagsmiðlum. Verkið er staðsett í þar í borg.

Landsliðsleikur í kvennafótbolta fór fram í vikunni milli Íslands og Þýskalands. Sendiráðsstarfsfólk okkar í Berlín fylgdist spennt með leiknum og hvatti fólk til að horfa.

Og það er ekki bara í fótbolti heldur líka í jazz-senunni þar sem Íslendingar láta að sér kveða en Bremenborgarbúar fá að njóta hæfileika fjöldamargra íslenskra tónlistarmanna þessa dagana.

Smásagnasafn Maríu Elísabetar Bragadóttur, Sápufuglinn, var á dögunum tilnefnt til Bókmenntaverðlauna ESB. 13 bækur eru tilnefndar hverju sinni og var verk Maríu Elísabetar eitt fimm verka sem hlaut sérstaka viðurkenningu (e. special mention) á verðlaunaafhendingunni sem fór fram í Brussel í vikunni.

Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi mætti á tónleika hjá hinum alíslensku Stöllum en kórinn hélt tónleika í Temppeliaukio kirkju í Helsinki í vikunni.

 

Sýningaropnun á sýningu Þórdísar Erlu Zoëga, Sunup, fór fram í sendiráðsbústaðnum í Helsinki, Sunup. 

 

 

Í tengslum við sýninguna buðu sendiherra og sýningarstjóri, Dr. Ásthildur Jónsdóttir hópum að koma og sjá sýninguna og eiga spjall um listina við listamanninn. Hóparnir voru annarsvegar frá hollvinum Listaháskóla Helsinkiborgar

og hinsvegar frá listamenntaskólanum TORKKELI.

Ísland og Eistland leiddu saman góða grínhesta í Helsinki.

Harald Aspelund sendiherra tók jafnframt á móti Guðmundi Inga Þóroddsyni og Bjarka Magnússyni frá Afstöðu - félagi fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun en þeir eru staddir í Finnlandi á vegum samtakana til að kynna sér málefni fanga þar í landi.

Sendiherra Íslands, Árni Þór Sigurðsson, var gestur í pallborðsumræðum sem sendiráð Svíþjóðar skipulagði um öryggis- og varnarmál í Evrópu í ljósi árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu og aðildar Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu.

Árni Þór heimsótti svo í gær Den Arnamagnæanske Samling og átti þar fund með Annette Lassen lektor hjá stofnuninni. Árni fékk þar að skoða nokkur gömul handrit frá 13. öld, þar á meðal Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd Snorrason munk og Jarteinabók Þorláks helga og postulasögur.

 

Þá opnaði hann jafnframt formlega sýningu Steinunnar Þórarinsdóttur HUMAN í Augustenborg á laugardaginn. Sýningin sem er einkar glæsileg og er hvoru tveggja innan og utandyra er sett upp af Augustenborg Project, í samstarfi við Galleri Christoffer Egelund og mun standa til 25. október 2025.

Í vikunni hitti Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Varsjá, Piotr Grzenkowicz, framkvæmdastjóra hjá Eimskipafélaginu í Gdynia. Starfsemi Eimskipafélagsins er umtalsverð í Póllandi og í Eystrasaltsríkjunum.

Þá birti sendiráðið í Varsjá einnig færslu um tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu sem hófst á mánudag undir yfirskriftinni Photo Album. Practice, Metaphor, Contex. Fulltrúar Þjóðminjasafns Íslands tóku þátt og heimsóttu sendiráðið.

Fleira var það ekki að sinni. 

Við óskum ykkur góðrar hvíldar um helgina. 

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta