Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 552/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 552/2020

Þriðjudaginn 16. febrúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. október 2020 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. febrúar 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 23. september 2020, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra frá 1. febrúar 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. október 2020, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsmóður sinnar frá 1. febrúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2020. Með bréfi, dags. 29. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru verður ráðið að kærandi geri kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður hans verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlagsgreiðslna og að kærandi hafi ekki fengið færi á að andmæla ákvörðuninni. Dóttir kæranda búi til jafns hjá honum og barnsmóður hans og hann þurfi að greiða fyrir allt sem hún þurfi. Að auki hafi kærandi nýlega misst vinnuna og sé í fullu námi við Háskóla Íslands.

Það sé ósanngjarnt að kærandi þurfi að greiða meðlag, sérstaklega vegna þess að hann leigi stærri íbúð vegna búsetu dóttur sinnar hjá honum. Þá hafi hann og barnsmóðir hans ákveðið í byrjun árs að þau myndu einfaldlega sjá um að allur kostnaður myndi skiptast á milli þeirra þar sem dóttir þeirra búi til jafns hjá þeim.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með dóttur þeirra frá 1. febrúar 2020.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 23. október 2020, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2020 með dóttur þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 23. september 2020 um meðlagsgreiðslur frá 1. febrúar 2020, ásamt úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. september 2020, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. febrúar 2020 til 18 ára aldurs.

Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. september 2020, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður sinnar. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag.

Með vísan til ofangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun, sé þess farið á leit við stofnunina, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2020 eins hún hafi óskað eftir og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði í málum nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019 og 59/2020.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. október 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2020.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra með rafrænni umsókn þann 23. september 2020 frá 1. febrúar 2020. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli úrskurðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um meðlag, dags. 16. september 2020. Samkvæmt úrskurðinum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. febrúar 2020 til 18 ára aldurs barnsins.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir.

Í kæru kemur fram að barnið búi til jafns hjá kæranda og barnsmóður hans og þá má ráða af kæru að kærandi hafi ekki fjármagn til þess að standa straum af meðlagsgreiðslum þar sem hann hafi nýlega missti vinnuna, hann sé í námi og þurfi að greiða húsaleigu. Með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna vegna jafnrar búsetu barns hjá báðum foreldrum eða fjárhagserfiðleika meðlagsgreiðanda, ef fyrir liggur löggild meðlagsákvörðun sem kveður á um greiðsluskyldu meðlagsgreiðanda. Að því virtu að fyrir liggur löggild meðlagsákvörðun í máli þessu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi með vísan til jafnrar búsetu barnsins hjá báðum foreldrum þess eða þess að kærandi geti ekki staðið straum af meðlagsgreiðslum til barnsmóður sinnar. Kæranda er bent á að samkvæmt lögum nr. 54/1971 fer Innheimtustofnun sveitarfélaga með innheimtu meðlags. Telji kærandi sig ekki geta staðið í skilum vegna greiðsluerfiðleika getur hann leitað til Innheimtustofnunar með sérstakt erindi þar að lútandi.

Kærandi gerir athugasemd við málsmeðferð Tryggingastofnunar þar sem honum hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðun var tekin í málinu. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggur ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi ekki farið í bága við framangreint ákvæði stjórnsýslulaga þar sem samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að veita einstaklingi andmælarétt, sé slíkt augljóslega óþarft. Eins og greint hefur verið frá hér að framan liggur fyrir lögmæt meðlagsákvörðun og samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina í slíkum tilvikum. Að mati úrskurðarnefndarinnar lágu því fyrir fullnægjandi gögn til þess að taka ákvörðun í málinu og því var ekki þörf á að afla sjónarmiða kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. október 2020 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. febrúar 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta