849/2019. Úrskurður frá 15. nóvember 2019
Úrskurður
Hinn 15. nóvember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 849/2019 í máli ÚNU 19040008.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 4. apríl 2019, kærði A, f.h. Kærleikssamtakanna, ákvörðun þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness sem starfrækt er af Reykjavíkurborg um synjun beiðni um aðgang að gögnum um B. Málavextir eru þeir að með erindi, dags. 14. desember 2018, óskaði kærandi eftir afritum af öllum gögnum um B í umboði hans. Með bréfi, dags. 22. mars 2019, svaraði þjónustumiðstöðin því að gögnin væru tilbúin til afhendingar fyrir B. Kæranda var hins vegar synjað um aðgang að gögnunum með bréfi, dags. 27. mars 2019, með þeim rökum að þjónustumiðstöðin væri með skriflega beiðni frá B um að gögnin yrðu ekki afhent Kærleikssamtökunum og að afritunum yrði eytt.Í kæru segir m.a. að Kærleikssamtökin séu með samkomulag við B um að afla gagna um hann fyrir hans hönd. Séu samtökin með skriflegt umboð þess efnis. Þjónustumiðstöðin hafi ekki rétt til þess að skipta sér að samkomulagi kæranda og B.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, dags. 15. apríl 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn þjónustumiðstöðvarinnar, dags. 29. apríl 2019, segir að B hafi óskað eftir afritum af öllum gögnum um sig með bréfi, dags. 14. desember 2018 og stöðluðu eyðublaði 19. desember 2019. Hafi þjónustumiðstöðin í kjölfarið tekið saman öll gögn um B. Hafi Kærleikssamtökin verið látin vita að samantektinni væri lokið þann 13. mars 2019 og þau beðin um að koma gögnunum til B. Um miðjan mars hafi A komið í móttöku þjónustumiðstöðvarinnar með undirritað umboð til að fá gögnin afhent. Hafi starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar sagst þurfa að kanna réttmæti umboðsins. Þann 26. mars 2019 hafi vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar náð tali af B þar sem hann óskaði skriflega eftir því að afritum af gögnunum yrði fargað. Hann hafi því hvorki óskað eftir því að fá gögnin sjálfur né að þau yrðu afhent Kærleikssamtökunum. Því hafi gögnin ekki verið afhent samtökunum. Meðfylgjandi er bréf, dags. 26. mars 2019, þar sem B skrifar undir yfirlýsingu um að hann óski þess að gögnunum verði fargað. Þá fylgir yfirlit yfir afrit af gögnum frá þjónustumiðstöðinni er varða B.
Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. apríl 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 15. maí 2019, kemur m.a. fram að kærandi telji upplýsingar í umsögninni vera villandi. Bent er á að í yfirlýsingu B um að gögnum verði fargað komi ekki fram til hvaða gagna yfirlýsingin nái. Geti verið um að ræða önnur gögn en þau sem umboðið nái til. Þá sé ekki hægt að sjá hverjir votti undirskrift B. Auk þess telur kærandi að undirskrift B hafi verið fölsuð.
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslum þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness um B. Kærandi segist hafa beiðst gagnanna í umboði B og liggur fyrir beiðni, dags. 14. desember 2018, um afrit af öllum gögnum varðandi B sem undirrituð er af honum. Er kærandi tilgreindur sem tengiliður. Í málinu liggur einnig fyrir yfirlýsing, dags. 26. mars 2019, undirrituð með nafni B, þess efnis að hann óski þess að þjónustumiðstöðin fargi afritum af umbeðnum gögnum Yfirlýsingin er vottuð með undirskrift tveggja einstaklinga.Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að líta svo á að kærandi hafi ekki fullgilt umboð til að afla gagnanna fyrir hönd B og fyrir liggur að hann hefur skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að hann óski eftir því að þjónustumiðstöðin fargi afritum af umbeðnum gögnum. Samkvæmt þessu verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.
Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.
Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:
„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“
Þá segir:
„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“
Enn fremur er tiltekið í greinargerðinni:
„Undir 9. gr. geta fallið upplýsingar um hvort tiltekið mál er snertir ákveðinn einstakling sé eða hafi verið til meðferðar. Dæmi um slík tilvik væru t.d. upplýsingar um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi lagt fram umsókn um leyfi til að ættleiða barn, umsókn um fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun eða umsókn um fóstureyðingu.“
Eins og fyrr segir verður við það miðað að kærandi hafi ekki samþykki þess sem upplýsingarnar varða til þess að veittur verði aðgangur að þeim. Verður því að taka afstöðu til þess hvort í þeim séu upplýsingar um einkahagsmuni sem óheimilt er að veita aðgang að. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þau gögn sem afhent voru nefndinni. Í þeim koma fram upplýsingar sem ótvírætt teljast viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga nr. 90/2018 og sem óheimilt er að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Vegna eðlis gagnanna er heldur ekki unnt að veita aðgang að gögnunum að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þar af leiðandi verður staðfest sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða B.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags 27. mars 2019, um að synja beiðni kæranda A, f.h. Kærleikssamtakanna, um aðgang að gögnum í vörslum þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness er varða B.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson