Hoppa yfir valmynd
24. júní 2014 Innviðaráðuneytið

Ráðherrar báru saman bækur um húsnæðismál

Eygló Harðardóttir og Carsten Hansen
Eygló Harðardóttir og Carsten Hansen

Carsten Hansen, ráðherra húsnæðis-, bæja- og byggðamála í Danmörku og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, áttu fund saman í Reykjavík í dag þar sem húsnæðismál landanna beggja voru til umræðu. Ráðherrarnir sammæltust um að skiptast á upplýsingum um húsnæðismál á komandi misserum.

Í maí síðastliðnum voru kynntar tillögur nefndar sem starfaði á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra um breytta skipan húsnæðismála hér á landi: „Áform um breytingar á íslenska húsnæðiskerfinu fela í sér ákveðna þætti sem eiga sitthvað sameiginlegt með danska kerfinu og því er mjög gagnlegt að fá tækifæri til að ræða hvernig mál hafa þróast í Danmörku,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Ráðherrarnir ræddu meðal annars um fjármögnun húsnæðislána, uppbyggingu félagslegs húsnæðis og húsnæðisstuðing, mismunandi áhrif byggðaþróunar á húsnæðismarkaðinn og ýmsar lausnir sem ræddar hafa verið varðandi þessi mál.

„Það er umhugsunarefni, jafnt hér á landi og í Danmörku hvernig húsnæðisverð hefur þróast síðustu mánuðina,“ segir Eygló. „Áríðandi er að vera vakandi yfir þessari þróun. Á fundinum sammæltumst við um að skiptast á upplýsingum um  húsnæðismál og hvernig þessi mál þróast, enda gagnlegt fyrir grannþjóðir að deila með sér reynslu í málaflokkum sem eiga margt sameiginlegt.“

Carsten Hansen er samstarfsráðherra Dana í norrænu samstarfi. Hann og Eygló ræddu einnig á fundinum um samstarf Norðurlandaþjóðanna á næsta ári en Danir munu þá taka við formennskunni af Íslendingum. Norðurlandasamstarfið verður til umfjöllunar á fundi norrænna samstarfsráðherra sem haldinn verður hér á landi dagana 25. og 26. júní.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta