Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 153/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. nóvember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 153/2011.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. nóvember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem kærandi hafi verið staðinn að vinnu hjá B. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 31. ágúst til 19. október 2011 samtals að fjárhæð 234.570 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag, sem verður innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 18. júní 2008.

 

Í eftirlitsferð fulltrúa aðila vinnumarkaðarins 31. ágúst 2011 var komið að kæranda við störf hjá fyrirtækinu B. Eftirlitsferðir eru farnar samkvæmt heimild í 4. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, og er þeim meðal annars ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta.

 

Kæranda var með bréfi, dags. 14. september 2011, tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði verið í vinnu hjá fyrirtækinu B. samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfi þessu var kæranda einnig veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessa.

 

Með tölvupósti, dags. 18. október 2011, skilaði kærandi inn skýringum til Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að hann hafi fengið tilfallandi vinnu samtals 12 klukkustundir í ágúst og 12 klukkustundir í september 2011. Greiðsla hafi numið 36.000 kr. fyrir skatta í hvort skipti. Ekki liggi fyrir hvort framhald verði á þessu. Kærandi segir að sér hafi ekki verið kunnugt um þessar reglur og hafi talið að tekjur innan við 50.000 kr. á mánuði væru ekki tilkynningarskyldar.

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar var birt kæranda með bréfi, dags. 2. nóvember 2011.

 

Í kæru kæranda, dags. 7. nóvember 2011, vísar hann til og ítrekar það sem kemur fram í fyrrgreindum tölvupósti frá honum, dags. 18. október 2011. Auk þess bendir hann á að bótaþegi atvinnuleysisbóta eigi rétt á að vinna sér inn allt að 50.000 kr. á mánuði án skerðingar. Hann eigi að vísu að tilkynna það fyrirfram til Vinnumálastofnunar en kæranda hafi ekki verið kunnugt um þessar reglur. Vinnumálastofnun beri skylda til að upplýsa um þær en það sé ekki gert. Þá standist krafan um endurgreiðslu ekki.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2012, er vísað til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laganna og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.

 

Samkvæmt eftirlitsfulltrúum aðila vinnumarkaðarins hafi kærandi verið við störf hjá B. 27. júlí 2011 samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga og án þess að tilkynna fyrirfram til Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða vinnu. Það sé óumdeilt að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu en kærandi segi í erindi sínu til stofnunarinnar sem og í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að þar sem bótaþegi eigi rétt á að vinna sér inn 50.000 kr. á mánuði án skerðingar hafi hann ekki talið nauðsynlegt að tilkynna störf sín til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi því ekki tilkynnt um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar.

 

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Beri því að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans og skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Í samræmi við fyrirmæli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli þeim sem sæti viðurlögum á grundvelli ákvæðisins jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna. Kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið við störf 31. ágúst 2011. Beri honum því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 31. ágúst til 19. október 2011 að fjárhæð 234.570 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. febrúar 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Vinnumálastofnun sendi viðbótargreinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2012, í tilefni af úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 140/2011 og 135/2011. Fram kemur í greinargerðinni að þeirra gagna sem nýtt eru við töku ákvarðana stjórnvalda sé aflað með mismunandi hætti. Hafi Vinnumálastofnun litið til áreiðanleika gagna við mat á því hvort hefja skuli rannsókn máls eða byggja skuli stjórnvaldsákvörðun á þeim upplýsingum er fram komi. Bent er á að í tilvitnuðum úrskurðum séu gögn sem nýtt hafi verið við rannsókn máls og töku ákvörðunar hjá Vinnumálastofnun virt að vettugi sökum þess að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að eftirlitsferðir fulltrúa aðila vinnumarkaðarins sem farnar hafi verið á grundvelli laga nr. 42/2010, hafi verið í andstöðu við lög. Úrskurðarnefndin virðist ekki telja ástæðu til að kanna gögn sem stafi frá eftirliti aðila vinnumarkaðarins, hafi upplýsingar komið úr eftirlitsferðum sem farnar hafi verið fyrir 21. desember 2011. Verði ekki fallist á með úrskurðarnefndinni að þau gögn sem berist stofnuninni séu sjálfkrafa talin óáreiðanleg eða ónothæf við töku stjórnvaldsákvörðunar hafi ekki legið fyrir afgerandi lagaheimild fyrir öflun þeirra. Bendir Vinnumálastofnun á að stofnuninni berist fjöldi ábendinga frá einstaklingum og lögaðilum. Hafi fæstum þeirra verið veitt sérstök heimild til eftirlits á grundvelli lagaheimildar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að við meðferð opinberra mála hafi íslenskir dómstólar tekið til athugunar sönnunargögn jafnvel þótt þeirra hefði verið aflað með öðrum hætti en lög geri ráð fyrir. Á grundvelli meginreglunnar um frjálst sönnunarmat sé dómara gert að meta það sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig, hvort og þá hvert gildi slíkra gagna sé. Verði ekki fallist á að frekari kröfur séu gerðar til sönnunarfærslu og uppruna þeirra gagna er berist Vinnumálastofnun í tengslum við stjórnsýslumál heldur en gerðar séu til dómstóla í opinberum málum.

 

Vinnumálastofnun telur að leggja skuli sjálfstætt mat á sönnunargildi gagna, hvaðan sem slík gögn berist. Telur stofnunin því að henni hafi verið heimilt að byggja ákvörðun sína á upplýsingum úr eftirlitsferð aðila vinnumarkaðarins í máli kæranda.

 

Viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar var send kæranda með bréfi, dags. 25. september 2012, og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri fyrir 9. október 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og hún hljóðaði til 2. september 2011:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði a innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Má þar sérstaklega nefna 60. gr. og 35. gr. a laganna. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.

 

Þá segir í 35. gr. a:

 

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi varð uppvís að því að hafa, án þess að tilkynna Vinnumálastofnun, starfað hjá fyrirtækinu B. á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er þeim sem telst tryggður skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Kærandi tilkynnti hvorki um tilfallandi vinnu né að virkri atvinnuleit væri hætt. Eftir að kæranda hafði verið tilkynnt um könnun á máli hans tilkynnti hann að hann hefði fengið tilfallandi vinnu samtals 12 tíma í ágúst 2011 og 12 tíma í september 2011 eins og rakið hefur verið. Kærandi kveður sér ekki hafa verið kunnugt um viðkomandi reglur og hafi talið að hann mætti vinna sér inn tekjur að 50.000 kr. á mánuði.

 

Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum þar sem víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna.

 

Kærandi vísar til þess að hann hafi talið sig mega hafa tekjur að fjárhæð 50.000 kr. á mánuði án þess að það hefði áhrif á rétt hans til bóta. Líklegt er að kærandi sér hér að vísa til reglna 36. gr. laga um atvinnuleysisbætur sem fjalla um frádrátt vegna tekna bótaþega, meðal annars vegna tilfallandi vinnu. Í reglunum segir að ekki komi til skerðingar bóta nema tekjur fari yfir 52.000 kr. á mánuði. Reglur þessar hafa engin áhrif á þær reglur er gilda um tilfallandi vinnu, sbr. einkum þá reglu að tilkynna skuli um slíka vinnu í síðasta lagi samdægurs. Ekki er því unnt að túlka reglur um frítekjumark á þann veg að ekki þurfi að tilkynna um tilfallandi vinnu nema laun fyrir hana fara upp fyrir áðurnefnt frítekjumark.

 

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda, sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 31. ágúst til 19. október 2011 að fjárhæð 234.570 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. nóvember 2011 í máli A þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 234.570 kr., er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta