Drög að reglugerð um girðingar meðfram vegum til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um girðingar með vegum. Umsagnafrestur um drögin er til 29. maí næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].
Með reglugerð um girðingar með vegum verður felld úr gildi eldri reglugerð með sama heiti nr. 325/1995. Í reglugerðardrögunum er meðal annars kveðið nánar á um uppsetningu girðinga, stofnkostnað, kostnaðarhlutdeild Vegagerðarinnar, viðhald, viðhaldskostnað og hlið yfir vegi. Eftirfarandi tvær breytingar frá núverandi fyrirkomulagi eru helstar.
Samkvæmt 3. gr. gildandi reglugerðar um girðingar meðfram vegum skal stofnkostnaður girðinga ákveðinn árlega með sérstöku samkomulagi Bændasamtaka Íslands og Vegagerðarinnar. Þykir slíkt fyrirkomulag úrelt í dag. Í hinni nýju reglugerð er því séstaklega kveðið á um áætlaðar kostnaðartölur í viðauka við reglugerðina.
Samkvæmt 3. gr. gildandi reglugerðar er einnig kveðið á um það að greiðsla Vegagerðarinnar sé ekki innt af hendi fyrr en landeigandi hefur tilkynnt viðkomandi sveitarstjórn sem sannreynir ásamt Vegagerðinni að viðhald sé fullnægjandi. Þykir þetta fyrirkomulag vera nokkuð þungt í framkvæmd og af þeirri ástæðu er í hinni nýju reglugerð fyrirkomulaginu breytt þannig að nægjanlegt er að landeigandi tilkynni sveitarstjórn og viðkomandi þjónustustöð Vegagerðarinnar að árlegu viðhaldi sé lokið. Vegagerðinni er þó heimilt að synja um greiðslu komi í ljós að viðhaldi hefur ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti að mati stofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 5. gr.