Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 481/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 481/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090036

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. september 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi og maki kæranda gengu í hjúskap þann 30. maí 2018 á Íslandi. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 13. júní 2018.

Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2018, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 17. september 2018. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 20. september 2018 en kæru fylgdu athugasemdir kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hafi á síðustu fimm árum hlotið eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema synjun um dvalarleyfi myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu fjölskyldumeðlimum hans.

Maki kæranda hefði verið dæmdur í 60 daga fangelsi með dómi Hæstaréttar frá [...], fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en fullnustu refsingar verið frestað. Samkvæmt gögnum málsins hefði maki kæranda því á síðustu fimm árum einu sinni verið dæmdur fyrir brot á framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga.

Við mat á því hvort synjun á dvalarleyfi myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun vísaði Útlendingastofnun til þess að af gögnum málsins mætti ráða að kærandi hefði kynnst maka sínum árið 2017 og stofnað til hjúskapar þann 30. maí 2018 á Íslandi. Engin gögn hefðu hins vegar verið lögð fram sem staðfestu að kærandi og maki hennar hefðu haft fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Þá hefði kærandi, að undanskildum hjúskap við maka sinn, engin fjölskyldutengsl við landið og hefði aldrei haft lögheimili hér á landi. Af gögnum málsins væri einnig ljóst að maki kæranda glímdi við veikindi. Við mat á fyrrgreindu broti maka kæranda hefði Útlendingastofnun litið sérstaklega til þess hvenær hinn refsiverði atburður átti sér stað, hvers eðlis brotið var og hver brotaþoli var. Enn fremur hefði stofnunin haft til hliðsjónar að brot maka kæranda væru ekki ítrekuð. Vék stofnunin næst að dómi[...], þar sem maki kæranda var dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa veist að [...]Væri það mat stofnunarinnar að þeir hagsmunir kæranda að lenda ekki í hættu á að verða fyrir ofbeldi vægju þyngra en hagsmunir maka kæranda af því að fá kæranda til landsins og væru veikindi maka kæranda ekki talin breyta þeirri niðurstöðu. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fæli almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn erlends maka um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu. Ekki væri séð að tilgangur 71. gr. stjórnarskrárinnar hefði verið að útvíkka gildissvið friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu umfram inntak 8. gr. sáttmálans. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Þar sem Útlendingastofnun synjaði kæranda um dvalarleyfi á grundvelli síðastnefnds ákvæðis tók stofnunin ekki til skoðunar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum VIII. kafla laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji umsókn sína uppfylla öll skilyrði laga um útlendinga um dvalarleyfi og að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart maka kæranda í skilningi 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga og vísar til lögskýringargagna með ákvæðinu máli sínu til stuðnings. Kærandi bendir á að maki hennar hafi verið sakfelldur fyrir minniháttar líkamsárás og hafi refsingin í málinu verið með minnsta móti og tekið mið af framgöngu hans. Þá beri að líta til þess að ekki hafi verið um alvarlegt ofbeldisbrot að ræða sem beinst hafi að fjölskyldumeðlim eða öðrum sem tengist maka kæranda fjölskylduböndum. Ennfremur vísar kærandi til þess að maki hennar hafi ekki gerst sekur áður um ofbeldisbrot og eigi hann engan brotaferil að baki. Því sé ekki um ítrekuð brot að ræða. Að framansögðu feli synjun á dvalarleyfi á þessum grundvelli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda og maka hennar og sé gríðarlega íþyngjandi. Bendir kærandi á að ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga sé fyrst og fremst ætlað að veita vernd gegn heimilisofbeldi og mansali en þessa hagsmuni verði að vega og meta gagnvart þeim hagsmunum sem kærandi hafi af því að fá umbeðið dvalarleyfi. Tekur kærandi fram að tilgangur ákvæðisins sé að veita óupplýstum einstaklingum vernd en ekki refsa þeim einstaklingum sem maki hafi upplýst um fortíð sína.

Þá bendir kærandi á að með ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga sé einstaklingum veitt vernd gegn því að vera blekkt inn í mögulegt ofbeldissamband. Tilgangur ákvæðisins sé ekki sá að hafa vit fyrir upplýstum einstaklingi, girða fyrir sambönd fólks eða kljúfa í sundur fjölskyldur enda segi í síðari hluta ákvæðisins að ef synjun dvalarleyfis feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart umsóknaraðila þá skuli ekki beita því. Vandséð sé hvernig nokkur ráðstöfun geti verið ósanngjarnari en sú að slíta sundur hjúskap þannig að maka sé vísað úr landi. Fyrir liggi að kærandi sé upplýst um stöðu mála og maki hennar hafi ekki leynt hana um fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Þá mótmælir kærandi þeirri röksemdarfærslu Útlendingastofnunar að hún hafi engin fjölskyldutengsl við landið. Þá reifar kærandi gildissvið 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að hún hafi verulega hagsmuni af því að fá hér dvalarleyfi þannig að hún geti notið þeirra réttinda sem tryggð séu með þeim ákvæðum. Vísar kærandi einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. mars 2011 í máli nr. E-2693/2010 máli sínu til stuðnings.

Loks vísar kærandi til vottorðs sérfræðilæknis, dags. 13. júlí 2018, þar sem fram komi að maki kæranda hafi greinst fyrr á árinu með [...]sem valdi honum miklum vandkvæðum og hafi hann þurft að leita á bráðamóttöku vegna veikindanna[...]. Þá hafi maki kæranda byrjað í erfiðri lyfjameðferð í [...]. sem hafi í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Í niðurlagi fyrrgreinds læknisvottorðs komi jafnframt fram að mikilvægt sé að maki kæranda hafi góðan stuðning heima fyrir í þessum alvarlegu veikindum. Af þessum sökum leggi kærandi áherslu á að hún hafi verulega hagsmuni af því að fá dvalarleyfi hér á landi til þess að geta stutt maka sinn í baráttu sinni við veikindin.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Í 70. gr. laganna er fjallað sérstaklega um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga eru dvalarleyfi skv. 70.-72. gr. ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur á síðustu fimm árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nema synjun um dvalarleyfi muni fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu fjölskyldumeðlimum hans. Í athugasemdum við 69. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali, heimilisofbeldi og öðrum alvarlegum brotum og á sér fyrirmynd m.a. í dönskum og norskum lögum. [...] Reynslan hefur sýnt að öðru hverju koma upp tilvik þar sem aðalhvati umsækjanda fyrir að ganga í hjúskap með aðila búsettum hér á landi er að eignast möguleika á bættum lífskjörum fyrir sig og ef til vill börn sín. Í sumum tilvikum verða hinir sömu einstaklingar fórnarlömb ofbeldis og sæta misnotkun á heimilinu. Oftast er þá um að ræða tilvik þar sem umsækjandi er kona en karlkyns maki er búsettur hér á landi. Þegar fyrir liggur vitneskja um að nánasti aðstandandi hér á landi hefur verið dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum þykir ástæða til að ætla að umsækjandi geti vegna þeirra brota verið í sérstakri hættu á að verða sjálfur fyrir ofbeldi eða sæta misnotkun af hálfu aðstandandans. Á hinn bóginn er ljóst að slíkt getur í einstökum tilvikum verið íþyngjandi. Er því lagt til að ákvæðið feli jafnframt í sér þann varnagla að ekki skuli synja umsóknir um dvalarleyfi ef synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim sem brotið framdi eða nánustu ættingjum hans. Við matið verður m.a. að taka mið af því hvers eðlis og hversu alvarlegt brotið er, gegn hverjum það beindist og hvort um ítrekuð brot sé að ræða. Ef brot var ekki alvarlegt, beindist ekki gegn heimilisfólki og hefur ekki verið ítrekað yrði litið svo á að synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu ættingjum hans.“

Kærandi byggir umsókn sína um dvalarleyfi á tengslum við maka sem er íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt gögnum málsins var maki kæranda dæmdur til refsingar með dómi Hæstaréttar [...], fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Maki kæranda hefur því gerst brotlegur gegn ákvæði í XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum.

Kemur þá til skoðunar hvort synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var maki kæranda dæmdur fyrir minni háttar líkamsárás. Brotið beindist gegn [...]og tengdist [...]. Ljóst er að brot maka kæranda beindist ekki að fjölskyldumeðlim og samkvæmt gögnum málsins hefur maki kærandi ekki gerst áður sekur um brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Með dóminum var maki kæranda dæmdur í fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Af dóminum má leiða að brot maka kæranda hafi ekki verið alvarlegt en brot gegn 1. mgr. 217 almennra hegningarlaga getur varðað við fangelsi í eitt ár. Brot gegn ákvæðum XXI. til XXIV. almennra hegningarlaga geta varðað allt frá sektargreiðslum til ævilangs fangelsis.

Af lögskýringargögnum með ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga má leiða að tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst sá að sporna gegn mansali, heimilisofbeldi og öðrum alvarlegum brotum. Þá kemur fram í fyrrgreindum lögskýringargögnum að hafi brot ekki verið alvarlegt, beinst að fjölskyldumeðlimi eða verið ítrekað skuli litið svo á að synjun myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að hagsmunir kæranda af því að fá dvalarleyfi og þar með njóta fjölskyldulífs hér á landi vegi þyngra en þeir verndarhagsmunir sem ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er ætlað að ná til. Við það mat leggur nefndin til grundvallar að brot maka kæranda var ekki alvarlegt, beindist ekki að fjölskyldumeðlim og að maki kæranda hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga.

Að framansögðu er það mat kærunefndar að synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda á grundvelli 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga feli í sér ósanngjarna ráðstöfnun gagnvart kæranda og maka hennar í skilningi ákvæðisins. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 70. gr. laga um útlendinga. Verður því lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                          Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta