Hoppa yfir valmynd
24. október 2018 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2018 - Úrskurður

Mál nr. 5/2018

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Launakjör, málskostnaður                                                                                                              

Kærandi, A, kærði fyrir hönd fimm kvenkyns félagsmanna sinna sem starfa sem svæðisstjórar hjá kærða, B, launamun milli þeirra og þriggja karlkyns lækna sem einnig starfa sem svæðisstjórar. Í ljósi upplýsinga um að fimm kvenkyns læknar sem einnig ynnu sem svæðisstjórar hjá kærða, nytu sömu eða betri kjara en karlarnir var talið að það ætti ekki við rök að styðjast að kynbundinn launamunur væri milli karlanna og kvenkyns félagsmanna kæranda. Þá var talið að fyrirliggjandi launamunur milli læknanna og hjúkrunarfræðinganna styddist við málefnaleg rök vegna ólíkra klínískra starfa sem hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir sinntu og á grundvelli mismunandi menntunar. Kveðið var á um að kærandi skyldi greiða kærða málskostnað með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 24. október 2018 er tekið fyrir mál nr. 5/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 13. apríl 2018, kærði A fyrir hönd fimm nafngreindra félagsmanna sem allt eru konur og eru hjúkrunarfræðingar ætlaðan launamun milli þeirra og þriggja karlkyns lækna sem gegna stöðu svæðisstjóra eins og hjúkrunarfræðingarnir hjá B. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi gerir að auki málskostnaðarkröfu með vísan til 5. mgr. 5. gr. laganna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 24. apríl 2018. Að veittum viðbótarfresti barst greinargerð kærða 8. júní 2018 með bréfi dagsettu sama dag. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. júní 2018, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda dagsett 16. júlí 2018 með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. ágúst 2018, og honum gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri sem bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 12. september 2018. Athugasemdirnar voru kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 13. september 2018.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  6. Kærandi kærir fyrir hönd fimm nafngreindra kvenkyns félagsmanna sinna sem eru hjúkrunarfræðingar og starfa sem svæðisstjórar hjá kærða. Tilefni kærunnar er munur á launakjörum þeirra og þriggja karlkyns lækna og gegna einnig starfi svæðisstjóra hjá kærða.
  7. Með bréfi, dagsettu 25. nóvember 2016, kom kærandi því sjónarmiði á framfæri við kærða að hann teldi að svæðisstjórar í starfi hjá kærða og sem jafnframt séu hjúkrunarfræðingar ættu rétt á sömu launum og svæðisstjórar sem jafnframt væru læknar. Samhliða var gerð krafa um leiðréttingu á launum umræddra hjúkrunarfræðinga. Engin viðbrögð bárust frá kærða. Af þessu tilefni lagði kærandi fram kæru hjá kærunefnd jafnréttismála en þeirri kærun vísað frá vegna galla á málatilbúnaði kæranda með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 5/2016, uppkveðnum 18. maí 2017.
  8. Þann 28. nóvember 2017 fékk kærandi, á grundvelli heimildar 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, afhentar sundurliðaðar upplýsingar um föst launakjör allra svæðisstjóra kærða. Þar kom meðal annars fram að laun þriggja karlkyns svæðisstjóra sem jafnframt eru læknar voru hærri en laun þeirra fimm kvenna sem eru hjúkrunarfræðingar og sinna starfi svæðisstjóra.
  9. Kærandi byggir á að starf svæðisstjóra hjá kærða sé eitt og sama starfið og því sé um kynbundinn launamun að ræða í andstöðu við ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærði hafnar þessari fullyrðingu kæranda og segir að ekki sé um að ræða mismunun á grundvelli kyns heldur liggi að baki önnur atriði sem með málefnalegum hætti réttilæti þann launamismun sem sé til staðar.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  10. Kærandi segir að starf svæðisstjóra hjá kærða sé eitt og sama starfið, hvort sem svæðisstjórinn sé hjúkrunarfræðingur eða læknir, og um svæðisstjóra gildi ein starfslýsing. Næsti yfirmaður svæðisstjóra sé forstjóri kærða. Ljóst megi vera af starfslýsingunni að starfið sé stjórnunarstarf. Svæðisstjóri beri meðal annars ábyrgð á rekstri og þjónustu heilsugæslustöðvar. Ekki sé gerð ein menntunarkrafa til starfsins, en þess í stað tekið fram í starfslýsingu að svæðisstjóri skuli vera hjúkrunarfræðingur eða læknir. Reyndin sé sú að störfum svæðisstjóra gegni jafnt hjúkrunarfræðingar sem læknar. Þá sé sú krafa gerð í starfslýsingu að sá sem starfinu gegni hafi þekkingu, reynslu og hæfni á sviði stjórnunar auk reynslu af þróunarstarfi, breytingarstjórnun sé æskileg, sem og nám í stjórnun.
  11. Ábyrgð svæðisstjóra sé því sú sama hvort sem viðkomandi starfsmaður sé hjúkrunarfræðingur eða læknir. Megi þar meðal annars vísa til eftirfarandi starfslýsingar svæðisstjóra:
    • Ábyrgð á að veita heilsugæsluþjónustu í samræmi við lög og reglugerðir og bestu starfshætti á hverjum tíma.
    • Ábyrgð á að framfylgja stefnu B og ákvörðunum framkvæmdastjórnar.
    • Ábyrgð á daglegum rekstri stöðvar og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma hennar sé í samræmi við fjárhagsáætlun og fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
    • Ábyrgð á mannauðsmálum stöðvar, samsetningu mannafla og ráðningu starfsmanna.
    • Ábyrgð á gæðum og öryggi þjónustu stöðvar.
    • Annast skipulag og samhæfingu innan heilsugæslustöðvar í samræmi við stefnu og markmið B.
    • Þróar nýjungar og vinnur að breytingum í starfsemi til hagsbóta fyrir skjólstæðinga og starfsmenn.
    • Mótar, innleiðir og endurskoðar verkferla.
    • Tryggir og styður við teymisvinnu og þverfaglegt samstarf til hagsbóta fyrir skjólstæðinga og starfsmenn.
    • Stuðlar að góðri vinnustaðamenningu, jákvæðum starfsanda og vellíðan í samvinnu við starfsmenn.
    • Stuðlar að gæðaþróun og árangursmati í starfi stöðvar í samstarfi við þróunarsvið og framkvæmdastjórn.
    • Gerir áætlanir varðandi rekstur, þjónustu og áherslur í starfsemi stöðvar.
    • Er faglegur yfirmaður á sínu sviði og sinnir klínísku starfi eins og aðstæður leyfa.
    • Vinnur önnur verkefni sem svæðisstjóra eru falin af forstjóra og/eða framkvæmdastjórn.
  12. Þrátt fyrir framangreindan sambærileika hafi komið í ljós að verulegur munur sé á launum svæðisstjóra sem sé hjúkrunarfræðingur og svæðisstjóra sem sé læknir. Þá sé einnig rétt að taka fram að launamunur skýrist ekki af klínískri vinnu svæðisstjóra, enda ekki tiltekið að klínískt starf sé hluti af þeim störfum hjá kærða. Klínísk vinna mæti algjörum afgangi og sé orðuð sem heimild samkvæmt því sem fram komi í starfslýsingum, enda stjórnunarþáttur megininntak beggja starfanna. Með framangreindum launamun sé í raun verið að halda því fram að læknisfræði sé mun mikilvægari en hjúkrunarfræði, enda þótt hjúkrunarfræðingar sinni sambærilegu starfi. Hvað varði framangreindan launamun virðist vera sem svo að klínískt starf hafi meira vægi en stjórnunarþátturinn í störfunum, ólíkt því sem virðist gilda í öðrum stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera.
  13. Ekki sé gerð krafa um eina menntun í starfslýsingu heldur tekið fram að svæðisstjóri skuli vera læknir eða hjúkrunarfræðingur, þ.e. menntun þeirra sé metin að jöfnu. Samkvæmt þessu væri ekki hægt að halda því fram að menntun réttlæti launamun á milli hjúkrunarfræðinga og lækna sem gegni sama starfinu enda ekkert í kröfum til starfanna sem útlisti sjónarmið um tiltekna menntun. Það geti vart talist réttlætanlegt að greidd séu mun hærri laun til starfsmanns sem nýti sér þann aukalega þátt sem greini í starfslýsingu, til að sinna klínískri vinnu.
  14. Í þessu sambandi sé vísað til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 11/2000. Þar hafi sú niðurstaða kærunefndar jafnréttismála verið staðfest, að við úrlausn þess hvort störf teljist jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga verði að byggja á heildstæðu mati og geti þannig verið um slík störf að ræða þótt einstakir þættir þeirra kunni að vera ólíkir og störfin krefjist til dæmis ólíkrar menntunar. Markmiði jafnréttislaga um sömu laun kvenna og karla fyrir jafn verðmæt störf yrði ekki náð tæki launajöfnuðurinn einungis til fólks innan sömu starfsstéttar, sbr. forsendur dómsins. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 258/2004 hafi niðurstaðan verið sú að þau störf sem borin hafi verið saman væru svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að launamunur milli starfanna bryti í bága við jafnréttislög. Dómurinn hafi hafnað þeim málatilbúnaði vinnuveitanda, að markaðssjónarmið hefðu átt að leiða til svo mismunandi kjara, þegar litið væri til stöðu starfanna í stjórnkerfi bæjarins. Þá vísi kærandi einnig til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála frá 21. október 2014, þar sem niðurstaðan hafi verið byggð á heildstæðu mati á því hvort störfin teldust jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Talið hafi verið að um slík störf gæti verið að ræða þótt einstaka þættir þeirra kynnu að vera ólíkir og að þau krefðust mismunandi menntunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að samkvæmt gögnum málsins væru störfin sambærileg og að lýsing á starfi kæranda við starf karlmannsins sem hún hafi borið sig saman við væru keimlík og staða þeirra innan stjórnskipulags kærða væri einnig hin sama. Einnig vísi kærandi til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála frá 19. desember 2016, þar sem fastar yfirvinnugreiðslur sviðsstjóra skjalasviðs og sviðsstjóra upplýsingasviðs hafi ekki verið þær sömu. Kærunefnd hafi talið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 og lagt áherslu á starfslýsingar sviðsstjóra beggja sviða, auk þess sem sviðin tvö hafi verið algjörlega hliðsett í skipuriti.
  15. Kærandi telji einnig að ábyrgð starfs svæðisstjóra hafi mikið vægi en auk þess megi nefna inntak starfsins og þar beri að hafa í huga að hjúkrunarfræðingar séu lykilaðilar í ung- og smábarnavernd, skólahjúkrun, heimahjúkrun og hjúkrunarmóttöku. Þótt læknar séu mikilvægir dragi það ekki úr mikilvægi annarra innan heilsugæslunnar. Auk framanritaðs sé vísað til þess að hvort sem svæðisstjórar séu læknar eða hjúkrunarfræðingar, sé fjárhagsleg ábyrgð þeirra og starfsmannaábyrgð mjög sambærileg. Samt sem áður virðist sú staðreynd engin áhrif hafa við launasetningu svæðisstjóra innan heilsugæslunnar.
  16. Kærandi fái ekki séð að nein réttlætingarrök séu að baki launamuninum, að teknu tilliti til framangreindra staðreynda um sambærileika starfanna. Þá telji kærandi að umræddur launamunur brjóti í bága við lög, meðal annars gegn jafnræðissreglu 65. gr. stjórnarskrár, jafnræðisreglu launafólks sem sé að finna í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
  17. Allir þeir svæðisstjórar sem séu hjúkrunarfræðingar séu konur og verulegur hluti lækna sem séu svæðisstjórar séu karlar. Að því virtu telji kærandi að hinn verulegi launamunur sem að framan sé lýst sé kynbundinn og með því hafi framangreind meginregla stjórnarskrár og laga verið brotin, þ.e. að konu og karli sem starfi hjá sama vinnuveitanda séu ekki greidd jöfn laun og njóti ekki sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf, sem störfin óumdeilanlega séu. Með kjörum sé, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt, og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verði til fjár. Með jöfnum launum hafi verið átt við það að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð séu til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun. Umræddur launamunur feli í sér mismunun sem brjóti í bága við ákvæði laga nr. 10/2008, meðal annars 18. gr. og 19. gr. um launajafnrétti, 24. gr. um bann við mismunun og 25. gr. um bann við mismunun í kjörum. Kærandi fái heldur ekki séð að hinn kynbundni launamunur samræmist jafnréttisáætlun kærða, sem unnin sé í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008. Framkvæmdastjórn kærða hafi til að mynda ekki beitt markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir mismunun í launum milli kynja að þessu leyti, sem skylt sé að gera samkvæmt jafnréttisáætlun kærða.
  18. Á það sé bent, svo sem dómafordæmi og álit kærunefndar jafnréttismála sýni, að launajöfnuðurinn taki ekki einungis til fólks innan sömu starfsstéttar, að öðrum kosti sé markmiði jafnréttislaga um jöfn kjör ekki náð. Mismunandi menntun sé heldur ekki talin réttlæta launamismun milli starfsmanna sem vinni sambærileg störf. Ennfremur geti mismunandi kjarasamningar eða kjaraviðmið ekki réttlætt ein og sér launamun kvenna og karla. Byggt sé á því að öll þessi atriði eigi við í þessu máli.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  19. Af hálfu kærða er þess krafist að úrskurðað verði að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá krefst hann þess að kröfu kæranda um málskostnað verði hafnað og krefst með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda verði gert að greiða sér málskostnað.
  20. Kærði vekur athygli á því í fyrsta lagi að kæran sé of seint fram komin þar sem kærufrestir sem tilteknir séu í lögum nr. 10/2008 séu liðnir, sbr. 3. mgr. 6. gr, en samkvæmt ákvæðinu skuli erindi berast kærunefnd jafnréttismála innan sex mánaða frá því að ætlað brot liggi fyrir.
  21. Um starfsemi heilsugæslustöðva gildi ákvæði laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, sbr. ennfremur ákvæði reglugerðar nr. 787/2007 um heilsugæslustöðvar. Þá hafi velferðarráðuneytið gefið út kröfulýsingar vegna reksturs heilsugæsluþjónustu. Markmiði með rekstri heilsugæslustöðva sé lýst þannig að tryggja skuli öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð. Fyrir liggi að hlutverk heilsugæslunnar sé víðfemt og kærði þurfi því að meta á hverjum tíma hvað áherslur eru lagðar til grundvallar í starfseminni, meðal annars með hliðsjón af þeim fjárveitingum sem fyrir hendi séu hverju sinni. Af fyrirkomulagi og tilhögun starfsemi heilsugæslustöðva hér á landi leiði að umfang og vægi klínískra starfa lækna sé mjög mikið á heilsugæslustöðvum og raunar miklu meira en hjá hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstéttum.
  22. Á árinu 2015 hafi verið ákveðið að endurskipuleggja starfsemi kærða. Skipulagsbreytingarnar hafi meðal annars haft í för með sér að stofnað hafi verið til tveggja starfa fagstjóra, annars vegar hjúkrunar og hins vegar lækninga. Samhliða hafi störf yfirhjúkrunarfræðinga og yfirlækna verið lögð niður. Störfin hafi verið auglýst með þeim hætti að fyrst hafi verið auglýst störf svæðisstjóra allra starfsstöðva en þar hafi komið fram að viðkomandi svæðisstjóri myndi jafnframt gegna starfi fagstjóra annað hvort hjúkrunar eða lækninga. Þegar svæðisstjóri hafði verið ráðinn hafi störf fagstjóra verið auglýst. Á þeim stöðvum þar sem svæðisstjóri hafi verið læknir hafi verið auglýst eftir fagstjórum hjúkrunar og öfugt. Í breytingunum hafi falist að í stað yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga hafi komið fagstjórar hjúkrunar og lækninga og að annar þessara fagstjóra á hverri starfsstöð skyldi jafnframt vera svæðisstjóri.
  23. Svæðisstjóra hafi verið ætla að bera ábyrgð á stjórnunarlegum þáttum starfsstöðvanna gagnvart yfirstjórn kærða. Í breytingunum hafi falist að á hverri starfsstöð hafi verið einn yfirstjórnandi í stað tveggja áður til að ná betri yfirsýn yfir starf stöðvanna. Endurskipulagning þessi hafi verið gerð að undangengnu uppýsinga- og samráðsferli þar sem að hafi komið stéttarfélög starfsmanna, þar með talið kærandi. Jafnframt hafi verið haldnir kynningarfundir með starfsfólki þar sem nánari grein hafi verið gerð fyrir áformuðum breytingum og raunar sérstaklega störfum og starfsskyldum fagstjóra og svæðisstjóra.
  24. Fyrir umræddar breytingar hafi yfirlæknar og yfirhjúkrunarfræðingar stýrt starfsemi heilsugæslustöðva. Næstu yfirmenn þeirra hafi verið framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar. Samkvæmt starfsauglýsingu frá árinu 2011 hafi yfirlæknir verið annar tveggja stjórnenda heilsugæslustöðvarinnar og á hans starfssviði meðal annars verið klínísk störf, þ.e. lækningar, heilsuvernd, kennsla og gæðamál. Yfirlæknar hafi jafnframt verið yfirmenn starfsmanna sem hafi tilheyrt læknaþætti, þ.e. lækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa, ritara og hreyfistjóra (sjúkraþjálfara). Samkvæmt starfsauglýsingu frá árinu 2013 hafi yfirhjúkrunarfræðingur verið yfirmaður hjúkrunar á heilsugæslustöð og stuðlað að uppbyggingu og þróun hjúkrunar. Hann hafi skipulagt og stjórnað allri hjúkrunarþjónustu heilsugæslustöðvar og tekið þátt í klínísku starfi. Hann, ásamt yfirlækni, hafi borið ábyrgð á að heilsugæslustöðin starfaði samkvæmt stefnu Heilsugæslunnar og stjórnað daglegum rekstri. Yfirhjúkrunarfræðingar hafi verið yfirmenn hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða, þar sem þeir starfi. Stjórnun heilslugæslustöðva hafi þannig verið tvískipt í hjúkrunar- og læknaþátt.
  25. Eftir umræddar skipulagsbreytingar hafi svæðisstjórar heilsugæslustöðva tekið yfir ýmsar þær starfsskyldur sem yfirlæknar og yfirhjúkrunarfræðingar hafi áður haft með höndum. Samkvæmt starfsauglýsingu beri svæðisstjóri ábyrgð á rekstri heilsugæslustöðvar gagnvart framkvæmdastjórn. Hann skipuleggi heilsugæsluþjónustu í umdæmi stöðvar, þrói nýjungar og vinni að breytingum í starfsemi. Hann móti, innleiði og endurskoði verkferla, byggi upp og styðji við teymisvinnu og þverfaglegt samstarf og stuðli að góðri vinnustaðamenningu. Hann stuðli að gæðaþróun og árangursmati í starfi stöðvar, taki þátt í gerð áætlana varðandi rekstur, þjónustu og áherslu í starfsemi stöðvar og sé faglegur yfirmaður á sínu sviði og sinni klínísku starfi eins og aðstæður leyfi. Hæfnikröfur byggi á þessu nýja starfi þar sem annars vegar sé auglýst eftir hjúkrunarfræðingi án þess að tiltekin sé sérgreind viðbótarmenntun eða sérfræðingi í heimilislækningum, þ.e. lækni með viðbótarsérmenntun, vegna klínískra áherslna í starfi svæðisstjóra. Eftirfarandi hæfniskröfur hafi verið gerðar í auglýsingu fyrir svæðisstjóra árið 2015:
    • Hjúkrunarfræðingur eða sérfræðingur í heimilislækningum
    • Reynsla af starfi í heilsugæslu
    • Þekking, reynsla og hæfni á sviði stjórnunar
    • Reynsla af þróunarstarfi og breytingarstjórnun æskileg
    • Nám í stjórnun æskilegt
    • Hæfni í mannlegum samskiptum
    • Leiðtogahæfni og metnaður til að ná árangri í starfi
    • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  26. Á hverri heilsugæslustöð séu tveir stjórnendur, þ.e. fagstjóri hjúkrunar og fagstjóri lækninga en annar þeirra gegni jafnframt stöðu svæðisstjóra. Vegna málatilbúnaðar kæranda um að starf þeirra, sem séu fagstjórar hjúkrunar og jafnframt svæðisstjórar, sé sama starf eða jafnverðmætt og þeirra þriggja fagstjóra lækninga sem eru jafnframt svæðisstjórar sem þær bera sig saman við, sé nauðsynlegt að fjalla með almennum hætti um störf annars vegar fagstjóra hjúkrunar og hins vegar fagstjóra lækninga.
  27. Þótt fagstjórar hjúkrunar og fagstjórar lækninga hafi áþekka starfslýsingu sé ábyrgðarsvið þeirra ólíkt. Það sem í reynd skilji á milli sé mismunandi klínísk áhersla í störfunum. Þannig séu klínísk störf lækna mun meiri en starfslýsingar gefi til kynna en auk þess séu fagstjórar lækninga einnig ábyrgir fyrir færslu og varðveislu sjúkraskrár. Þá séu starfskröfur (menntun, reynsla og sérhæfing) og ábyrgðarsvið mismunandi eftir því hvort um sé að ræða fagstjóra lækninga eða fagstjóra hjúkrunar, sbr. eftirfarandi:
    • Menntunar/hæfniskröfur – fagstjóri hjúkrunar:
    • Hjúkrunarfræðingur, framhaldsmenntun æskileg.
    • Æskilegt er að fagstjóri hjúkrunar hafi nám og/eða reynslu af stjórnun.
    • Menntunar/hæfniskröfur – fagstjóri lækninga:
    • Fagstjóri lækninga skal hafa sérfræðimenntun í heimilislækningum og reynslu í heimilislækningum.
    • Æskilegt er að fagstjóri lækninga hafi nám og/eða reynslu af stjórnun.
    • Fagstjóri lækninga skal vera helgur.
    • Ábyrgðarsvið – fagstjóri hjúkrunar
    • Ábyrgð á skipulagningu hjúkrunarþjónustu í samráði við svæðisstjóra.
    • Ábyrgð á að framfylgja stefnu B og ákvörðunum svæðisstjóra og framkvæmdastjórnar.
    • Ábyrgð á gæðum og öryggi þjónustu.
    • Ábyrgðarsvið – fagstjóri lækninga
    • Ábyrgð á skipulagningu læknisþjónustu í samráði við svæðisstjóra.
    • Ábyrgð á færslu og varðveislu sjúkraskráa.
    • Ábyrgð á að framfylgja stefnu B og ákvörðunum svæðisstjóra og framkvæmdastjórnar.
    • Ábyrgð á gæðum og öryggi þjónustu.
  28. Kærði hafni því með öllu að hann mismuni kærendum á grundvelli kyns með lakari launakjörum en launakjör þeirra karlkyns lækna sem þær kjósi að bera sig saman við. Laun hjá kærða eru ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Sá mismunur sem er á launakjörum tilgreindra aðila grundvallast á málefnanlegum forsendum en ekki kyni starfsmannanna.
  29. Kærandi beri saman launakjör fimm kvenkyns hjúkrunarfræðinga og þriggja karlkyns lækna sem öll starfi hjá kærða sem svæðisstjórar. Samburður þessi sé ótækur þar sem hann gefi til kynna að kærði mismuni starfsmönnum sínum á grundvelli kyns en því fari fjarri.
  30. Hjá heilsugæslustöðvum kærða starfi 15 svæðisstjórar sem séu bæði fagstjórar annað hvort hjúkrunar eða lækninga auk þess að vera yfirmenn heilsugæslustöðvarinnar sem þeir starfi hjá. Þessi hópur skiptist í fernt eftir tveimur breytum, annars vegar fagsviði og hins vegar kyni, með eftirfarandi hætti:

     

    Konur

    Karlar

    Alls

    Svæðisstjórar, fagstjórar hjúkrunar

    7

     

    7

    Svæðisstjórar, fagstjórar lækninga 

    5

    3

    8

    Svæðisstjórar alls:

     

     

    15

     

                                                                                                                                      

  31. Líkt og glögglega megi sjá af töflunni sé samanburðarhópur sá sem kærandi kjósi að nota villandi. Samanburðarhóparnir tveir séu réttilega annars vegar svæðisstjórar sem jafnframt séu fagstjórar hjúkrunar en svo vilji til að þeir fagstjórar, fimm talsins, séu allir konur og hins vegar svæðisstjórar jafnframt séu fagstjórnar lækninga en innan þess hóps séu þrír karlar og fimm konur, samtals átta.
  32. Allir þessir starfsmenn sinni einnig klínískum störfum sinnar faggreinar en í tilfelli lækna séu klínísk störf umtalsverður hluti starfa þeirra. Laun svæðisstjóra í starfi hjá kærða séu fyrst ákvörðuð eftir því hvort viðkomandi svæðisstjóri sé fagstjóri lækninga eða fagstjóri hjúkrunar. Þar myndist sá launamunur sem sé til staðar. Þá sé þeim fagstjóra sem jafnframt sé svæðisstjóri viðkomandi heilsugæslustöðvar greidd þóknun sem sé föst krónutala og þannig óháð öðrum launum og þar með óháð því hvort viðkomandi svæðisstjóri sé fagstjóri hjúkrunar eða lækninga. Fjárhæð viðbótargreiðslna til svæðisstjóra grundvallist á ákvörðun stofnunar og byggi á mati á stjórnunarþætti þeirra sérstöku starfa sem viðkomandi svæðisstjóri gegni. Fagstjórar hjúkrunar og fagstjórar lækninga, sem jafnframt hafi svæðisstjórn með höndum, njóti viðbótargreiðslna, sem ráðist af stærð og umfangi hlutaðeigandi stöðva og séu á bilinu 120.000 - 150.000 krónur á mánuði.
  33. Sá munur sem sé til staðar á launum þeirra einstaklinga sem hér séu borin saman stafi af því að svæðisstjórar séu í grunninn einnig fagstjórar lækninga eða fagstjórar hjúkrunar og taki þeir laun eftir því. Sú viðbótarþóknun sem greiðist fyrir þau störf sem í svæðisstjórn felist taki mið af stærð heilsugæslustöðvar og umfangi starfs þeirra sem í svæðisstjórninni felast. Sérstaklega sé bent á að laun séu ákvörðuð á sama hátt fyrir konur sem gegni starfi svæðisstjóra hjá kærða og karla sem gegni sama starfi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 10/2008. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að ekki sé um kynbundna mismunun að ræða.
  34. Þess er krafist með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 að kærunefnd jafnréttismála úrskurði kæranda til greiðslu málskostnaðar. Kærði telji að skilyrði ákvæðisins um bersýnilega tilgangslausa kæru séu uppfyllt. Bersýnilega reyni ekki á mismunun á grundvelli kyns en það sé fyrsta skilyrði jafnlaunareglu jafnréttislaga. Þá sé bent á að sá samanburður sem kærandi hafi kosið að stilla upp sé einkar villandi og misvísandi enda sleppi kærandi fimm kvenkyns læknum úr samanburðinum en þær séu fleiri en karlkyns læknar. Þannig sé ljóst að ekki sé um kynbundinn launamun að ræða þegar litið sé á alla svæðisstjóra í einni heild.
  35. Í máli kærunefndar nr. 5/2016, þar sem fjallað sé um samanburðarhópinn og meintan kynbundinn launamun í 81. og 82. mgr. úrskurðarins, segi: „Meirihluti lækna sem sinna störfum sem svæðisstjórar og fagstjórar hjá kærða er þannig konur, ellefu konur en karlarnir eru tíu. Á því sýnist ekki byggt af hálfu kæranda að launamunur milli lækna og hjúkrunarfræðinga einskorðist við karlkyns lækna meðal sviðsstjóra og fagstjóra.“ Í framhaldinu segi í 82. mgr. úrskurðarins að með vísan til þessa sé „með öllu vanreifað hvernig um kynbundinn launamun geti verið að ræða konum í óhag þegar horft er til þessara hlutrænu staðreynda.“ Sömu hlutrænu staðreyndir séu uppi í máli þessu. Samanburðarhópurinn telji 15 svæðisstjóra sem skiptist í annars vegar sjö hjúkrunarfræðinga sem allir séu konur og hins vegar átta lækna sem séu fimm konur og þrír karlar. Líkt og í máli nr. 5/2016 séu meirihluti lækna konur en minnihluti karlar. Engu að síður kjósi kærandi að stilla samanburðarhópinum upp með þessum villandi og misvísandi hætti. Kærði telji að í tilfellum sem þessum, þegar um ítrekaðar bersýnlega tilgangslausar kærur sé að ræða, hljóti að vera ástæða til að úrskurða kæranda til að greiða málskostnað kærða, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga 10/2008.
  36. Í kæru sé því haldið fram að störf svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar hjúkrunar hjá kærða séu sömu eða jafnverðmæt störf í skilningi jafnréttislaga, og störf svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar lækninga. Þessu sé mótmælt sem röngu af hálfu kærða.
  37. Umfang og vægi klínískra starfa sé helsti ásteytingarsteinn þessa máls. Í kæru sé því haldið fram með hliðsjón af þeim almennu gögnum sem liggi til grundvallar, þ.e. starfslýsingum og starfsauglýsingum og e.t.v. fleiru, að klínísk störf svæðisstjóra séu hverfandi þáttur í starfi þeirra og eigi að minnsta kosti með hliðsjón af þessum gögnum ekki að hafa nein áhrif á ákvörðun launa svæðisstjóra sem starfi hjá kærða. Kærði mótmæli þessu þar sem klínísk störf séu umtalsverður hluti af störfum svæðisstjóra, sérstaklega lækna. Þá sé ljóst að hugtök jafnréttislaga sem hér á reyni, þ.e. sama starf og jafn verðmætt séu eigindleg (e. qualitative) í eðli sínu en ekki megindleg eins og virðist haldið fram í kæru. Dómstólar og úrskurðaraðilar hafihorft á inntak þeirrar vinnu sem raunverulega sé innt af hendi af þeim einstaklingum sem bornir séu saman í hvert sinn en ekki til almennra lýsandi gagna (þ.e. megindlegra gagna) sem liggi fyrir um störf viðkomandi, eins og starfstitla og starfslýsinga. Bent sé á ummæli Evrópudómstólsins í máli nr. C-381/99, I-4961 en í niðurstöðu dómsins sé vísað til þess að dómstóllinn hafi í framkvæmd lagt til grundvallar að hugtökin „sama vinna“ og „jafn verðmæt“ séu algjörlega eigindleg í eðli sínu og taki því mið af þeirri vinnu sem hafi raunverulega verið innt af hendi. Í málinu hafi reynt á túlkun hugtakanna, sbr. tilskipun um launajafnrétti, nr. 75/117/EBE, en með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra íslensk lög, til samræmis við EES-samninginn og þeirra reglna sem á honum byggi. Varðandi hugtökin sem hér á reyni hafi í innlendri dómaframkvæmd svo og úrskurðum kærunefndar jafnréttismála jafnframt verið lagt til grundvallar að við afmörkun hugtaka jafnlaunareglunnar sé horft til þess hvaða vinna sé raunverulega innt af hendi þótt ekki liggi fyrir innlend fordæmi þar sem reglan sé orðuð jafn skýrlega og í tilvitnuðu máli Evrópudómstólsins.
  38. Með hliðsjón af fyrrgreindri skýringarreglu, að hugtök jafnlaunareglunnar séu eigindleg, skipti mestu máli við mat á því hvort um sömu störf eða jafnverðmæt störf sé að ræða að meta hvaða störf og hvaða vinna sé raunverulega innt af hendi. Það sé einungis þegar gögn séu af skornum skammti sem almenn gögn komi til skoðunar, þ.e. starfslýsingar, titlar, starfsauglýsingar og fleira slíkt.
  39. Í kæru virðist á því byggt að klínísk störf þeirra einstaklinga sem hér séu borin saman eigi ekki að hafa neitt vægi við mat á því hvort um sömu eða jafnverðmæt störf sé að ræða. Ennfremur virðist ýmist á því byggt að klínísk störf þessara einstaklinga séu í reynd afar takmörkuð eða að klínísk störf þeirra eigi ekki að hafa nein áhrif við ákvörðun launa.
  40. Af skráningum klínískra starfa fag- og svæðisstjóra fyrir allt árið 2017 megi ráða að klínísk störf svæðisstjóra séu umtalsverð. Svæðisstjórar sem jafnframt séu fagstjórar lækninga hafi til að mynda sinnt rúmlega 55.800 viðtölum, vitjunum og lyfjaendurnýjunum á árinu. Að baki þeirri tölu séu 12 læknar og hafi því hver svæðisstjóri sem jafnframt sé fagstjóri lækninga sinnt 4.650 slíkum tilvikum á árinu 2017. Athygli veki þegar litið sé til klínískra starfa fagstjóra lækninga á árinu komi í ljós að um sé að ræða 78.500 skráningar 17 einstaklinga en það geri 4.600 viðtöl, vitjanir, símtöl og lyfjaendurnýjanir á hvern fagstjóra lækninga sem ekki sé jafnframt svæðisstjóri. Tölurnar sýni svo ekki verði um villst að umfang klínískra starfa lækna sé það sama hvort sem læknir sinni aðeins stöðu fagstjóra eða stöðu fagstjóra og jafnframt stöðu svæðisstjóra.
  41. Vægi klínískra starfa svæðisstjóra sem jafnframt eru fagstjórar hjúkrunar séu sýnilega minni en lækna. Klínísk störf hjúkrunarfræðinga sem gegni stöðu fagstjóra síns fags og hjúkrunarfræðinga sem ásamt fagstjórastöðunni gegni starfi svæðisstjóra séu þó töluverð. Þannig hafi 17 fagstjórar hjúkrunar sinnt rúmlega 24.000 viðtölum, vitjunum og símtölum á árinu 2017 en það geri rúmlega 1.400 slík tilvik á hvern fagstjóra hjúkrunar. Á sama ári hafi 8 svæðisstjórar sem jafnframt séu fagstjórnar hjúkrunar sinnt tæplega 9.600 viðtölum, vitjunum og símtölum en það geri um 1.200 slík tilvik á hvern fagstjóra sem jafnframt sé svæðisstjóri. Af þessu sé ljóst að fagstjóri hjúkrunar sem einnig er svæðisstjóri sinni sem nemi 85% af því umfangi klínískra starfa sem fagstjóri hjúkrunar geri sem ekki gegni stöðu svæðisstjóra. Af þessu sjáist berlega að vægi klínískra starfa svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar hjúkrunar sé einnig umtalsvert þótt það sé mun minna en svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar lækninga.
  42. Af hálfu kærða var skráning klínískra starfa fag- og svæðisstjóra á tímabilinu september 2016 til loka janúar 2017 borin saman við skráningu klínískra starfa yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga á tímabilinu september 2014 til loka janúar 2015. Úrtakið hafi náð til þeirra sex heilsugæslustöðva sem fyrstar hafi farið í gegnum fyrrnefndar skipulagsbreytingar á árinu 2015.
  43. Í þeim samanburði megi sjá að þrír svæðisstjórar sem jafnframt hafi gegnt starfi fagstjóra lækninga hafi verið á tímabilinu september 2016 til loka janúar 2017 skráðir með samtals 6.598 viðtöl, vitjanir, símtöl og lyfjaendurnýjanir eða 2.199 slík tilvik á hvern svæðisstjóra sem jafnframt sé fagstjóri lækninga. Til samanburðar megi sjá skráningu sex yfirlækna á sama tímabili tveimur árum fyrr eða fyrir skipulagsbreytingar en alls séu skráð 12.565 tilvik á sex yfirlækna eða 2.094 tilvik á hvern yfirlækni.
  44. Eins megi sjá að þrír svæðisstjórar sem jafnframt hafi gegnt starfi fagstjóra hjúkrunar á þessu sama tímabili séu samtals skráðir með 715 viðtöl, vitjanir og símtöl eða 238 tilvik á hvern svæðisstjóra sem jafnframt sé fagstjóri hjúkrunar. Til samanburðar megi sjá skráningu klínískra starfa sex yfirhjúkrunarfræðinga á sama tímabili tveimur árum fyrr en skráð séu 2.476 viðtöl, vitjanir og símtöl eða 412 tilvik á hvern yfirhjúkrunarfræðing. Kærði hafi ekki skýringar á þessum hlutfallslega mun á vægi klínískra starfa lækna fyrir og eftir breytingarnar borið saman við vægi klínískra starfa hjúkrunarfræðinga fyrir og eftir breytingarnar. Hins vegar sé bent á að ljóst megi vera að vægi klínískra starfa lækna hafi ekki breyst mikið við það að fagstjóri lækninga hafi tekið að sér stöðu svæðisstjóra.
  45. Störf fagstjóra hjúkrunar og fagstjóra lækninga séu ólík að efni og inntaki. Þá sé bæði horft til hefðbundinna starfa sérfræðinga, þ.e. klínísk störf, og um leið störf fagstjóra sem faglegir stjórnendur hjá stofnuninni. Af skýringum á starfsheitum leiði að svæðisstjóri sem jafnframt sé fagstjóri hjúkrunar sinni þeim hluta starfseminnar sem felist í hjúkrun og svæðisstjóri sem jafnframt sé fagstjóri lækninga starfi við lækningahluta starfseminnar. Af umfjöllun um efni og umfang náms og námstíma hjúkrunarfræðinga og lækna megi ráða að inntak starfa þeirra, ábyrgð og starfsskyldur séu ólíkar og störfin því ekki sambærileg í skilningi laga og kjarasamninga. Framangreint skipti umtalsverðu máli meðal annars vegna þess að klínísk störf séu hluti starfsskyldna svæðisstjóra sem jafnframt sé fagstjóri hjúkrunar og langstærsti hluti starfsskyldna svæðisstjóra sem jafnframt sé fagstjóri lækinga auk þess sem fagábyrgð hvors um sig markist af ólíku inntaki starfa hjúkrunar annars vegar og lækninga hins vegar.
  46. Skýrlega hafi komið fram í auglýsingu um störf svæðisstjóra að klínísk störf væru hluti starfsskyldna viðkomandi sem yfirmanns stöðvarinnar. Það hafi enn fremur verið áréttað í viðtölum við alla umsækjendur, þ.m.t. umsækjendur um störf fagstjóra hjúkrunar. Þá hafi það ennfremur verið ítrekað á stjórnendafundum að samkvæmt stefnu stofnunarinnar sé ætlast til þess að fagstjórar, svo og svæðisstjórar, sinni klínískum störfum að umtalsverðu leyti.
  47. Þá megi ráða að ríkjandi samkomulag stofnunar um greiðslu fatapeninga til svæðisstjóra sem jafnframt sé fagstjóri hjúkrunar stríði gegn fullyrðingum í kæru þess efnis að störf hlutaðeigandi séu einungis stjórnunarstörf. Stofnunin hafi greitt fatapeninga til þeirra sem sinni klínískum störfum og sé skemmst frá því að segja að allir fagstjórar hjúkrunar og þ.m.t. þeir sem hafi svæðisstjórn með höndum, njóti nú slíkra greiðslna.
  48. Í kæru sé vísað til tveggja dómafordæma og tveggja úrskurða kærunefndar jafnréttismála. Kærði bendi á að niðurstöður þessara mála staðfesti einungis að það sem ráði úrslitum um hvort um sömu störf eða jafnverðmæt störf sé að ræða í skilningi jafnréttislaga sé heildarmat á þeim störfum sem raunverulega séu unnin, ekki almenn gögn eða ytri umgjörð skipulags vinnustaðar.
  49. Tilgangur þess hluta fyrrnefndra skipulagsbreytinga, sem hafi snúið að tilkomu hlutverks svæðisstjóra, hafi fyrst og fremst verið sá að á hverri starfsstöð væri einn aðili sem hefði það hlutverk að hafa yfirsýn yfir starfsemi viðkomandi starfsstöðvar og vera ábyrgðaraðili gagnvart yfirstjórn kærða. Báðir fagstjórar stöðva hafi faglega stjórnun starfa inna sinnar starfsstéttar á sínum höndum en annar, sá sem einnig gegni starfi svæðisstjóra, hafi jafnframt á sínum höndum rekstrarlega ábyrgð á starfi stöðvarinnar í heild. Ljóst megi vera að hefði það verið ætlan yfirstjórnar stofnunarinnar að stjórnunarstörf ættu að vera megininntak starfa svæðisstjóra hefði verið auglýst eftir einstaklingi með viðskipta- og rekstrarmenntun en ekki læknum eða hjúkrunarfræðingum.
  50. Jafnvel þótt því væri haldið fram að stjórnunarhluti starfa svæðisstjóra væri umtalsverður eða ráðandi sé ekki sjálfgefið að forsendur væru til þess að endurskoða launagreiðslur til svæðisstjóra sem jafnframt gegna starfi fagstjóra hjúkrunar. Í því sambandi beri að hafa í huga að kjarasamningur Læknafélags Íslandsog fjármála- og efnahagsráðherra mæli fyrir um hærri greiðslur til lækna en hjúkrunarfræðinga, bæði til þeirra sem sinni einungis klínískum störfum sem og þeirra sem sinni stjórnunarstörfum samhliða klínískum störfum.
  51. Launagreiðslur stjórnenda heilbrigðisstofana hafa löngum verið umtalsvert lægri en launagreiðslur sérfræðinga lækna og fagstjórnenda lækninga. Þannig njóti forstjórar heilbrigðisstofnana launagreiðslna samkvæmt úrskurði kjararáðs en sérfræðingar lækna og fagstjórnendur lækna samkvæmt ákvæðum kjarasamninga LÍ við ríkissjóð. Ekki sé óalgengt að laun forstjóra séu lægri en laun sérfræðinga og fagstjórnenda svo nemi tugum prósenta. Þá megi nefna að hjá kærða starfi um það bil 700 manns. Þegar litið sé til launaröðunar raðist forstjóri kærða í 71. sæti en í fyrsta til og með 70. sæti séu læknar.
  52. Menntun hjúkrunarfræðinga og lækna sé ekki sambærileg. Þannig sé námi hjúkrunarfræðinga lýst á heimasíðu Háskóla Íslands að kennsla sé þverfagleg og miðuð að því að nemendur verði færir um að viðhalda og efla heilbrigði skjólstæðinga sinna og bæta líðan þeirra í veikindum. Í grunnnáminu, sem taki fjögur ár og ljúki með BS gráðu í hjúkrunarfræði, sé lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á margbreytileika mannsins og áhrifum heilbrigðis og sjúkleika á aðstæður hans og líðan. Námið sé alls 240 einingar og séu því 30 einingar á misseri sé fullt nám stundað. Nemendur sem óski eftir að hefja BS nám í hjúkrunarfræði skuli gangast undir aðgangspróf (A-próf). Lokaverkefni til BS-prófs sé unnið á fjórða ári og vinni nemendur að því annaðhvort einir eða tveir saman. Námi lækna sé þannig lýst á heimasíðu Háskóla Íslands að aðgangur sé takmarkaður og ákvarðist af inntökuprófi sem haldið sé í júní ár hvert. Allir nemendur sem hafi lokið stúdentsprófi eigi kost á að þreyta prófið. Þeir 48 stúdentar sem nái bestum árangri í inntökuprófinu fái að hefja nám í læknisfræði að hausti. Að loknum fyrstu þremur árum námsins hljóti nemendur BS gráðu í læknisfræði, sem veiti þó ekki sérstök starfsréttindi en haldi síðan áfram í námi sem miði að embættisprófi. Sex ára námi í læknisfræði ljúki með embættisprófi, cand. med. Að loknu eins árs starfsnámi (kandídatsár) öðlist viðkomandi almennt lækningaleyfi og réttindi til að stunda lækningar á Íslandi. Þannig sé námstími lækna sex ár í háskóla, auk kandídatsárs sem sé eitt ár auk sérfræðimenntunar í heimilislækningum sem sé fimm ára nám. Af framangreindri umfjöllun megi ljóst vera að námstími starfandi hjúkrunarfræðinga hjá stofnuninni sé fjögur ár en námstími lækna tólf ár. Bæði hjúkrunarfræðingar og læknar geti síðan, til viðbótar við fyrra nám, bætt við sig frekari menntun, eins og meistaranámi þar sem námstími geti verið á bilinu frá eitt til tvö ár.
  53. Launagreiðslur til svæðisstjóra séu að fullu og öllu leyti í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga þar um. Þá sé sérstök ástæða til að mótmæla því að kærði hafi ekki starfað í samræmi við gildandi jafnréttisáætlun. Umræddir kjarasamningar endurspegli verðmæti starfa sem um ræði að teknu tilliti til menntunar, ábyrgðar, stjórnunar, starfssviða o.þ.h. Mismunur á launum, sem fjallað sé um í kæru, eigi rót sína að rekja til ákvæða kjarasamninga og stofnanasamnings sem um leið endurspegli mismunandi störf og starfsskyldur þessara stétta, mismun á verðmæti starfa, ólíka menntun og námstíma, annað inntak og ábyrgð sem fylgi störfum og fleira.
  54. Af hálfu kærða er bent á að í gildi séu annars vegar kjarasamningar FÍH og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs vegna hjúkrunarfræðinga, og hins vegar kjarasamningar LÍ og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs vegna lækna. Hinn miðlægi kjarasamningur FÍH við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs sé hvað varði launaákvörðun í raun samningur um tiltekinn ramma sem mæli fyrir um gerð stofnanasamnings. Í stofnanasamningi sé samið um röðun starfa innan fyrrnefnds ramma sem afmarkist af gildandi launatöflu, með hliðsjón af aðstæðum á tiltekinni stofnun og hvaða þættir og/eða forsendur skuli ráða röðun þeirra. Þar skuli fyrst og fremst metin þau verkefni og skyldur sem í starfinu felist auk þeirrar færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þurfi til að geta innt starfið af hendi. Þá skuli litið til skipurits stofnunar eða annars formlegs starfsskipulags við gerð samningsins. Kjarasamningur LÍ sé ólíkur samningi FÍH og mæli fyrir um röðun stafa án sérstakrar aðkomu tiltekinna stofnana og stéttarfélags. Kjarasamningar þessir séu sjálfstæðir og taki hvorir um sig til starfa þeirrar starfsstéttar sem um ræði. Ætla megi að efni beggja kjarasamninga endurspegli verðmæti starfa sem um ræði að teknu tilliti til menntunar, ábyrgðar, stjórnunar o.þ.h. Á það skuli bent að í ráðningarsamningum fagstjóra hjúkrunar og starfslýsingu sé kveðið á um röðun í launaflokka, þ.e. launaröðun byggi á samningsbundinni röðun yfirhjúkrunarfræðinga samkvæmt stofnanasamningi en það sé sami launaflokkur og forstöðumenn og sviðsstjórar raðist í. Í ráðningarsamningum fagstjóra lækninga og starfslýsingu sé kveðið á um röðun í launaflokka, þ.e. launaröðun byggi á kjarasamningsbundinni röðun yfirlækna án tillits til þess á hvaða stofnun þeir starfi.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  55. Meðal athugasemda kæranda við greinargerð kærða eru að meint brot sem deilt sé um í máli þessu sé enn við lýði og því geti kæran ekki talist of seint fram komin í skilningi 3. mgr. 6. gr. jafnréttislaga. Kærði hafi afhent kæranda umkrafðar launaupplýsingar, sem kæra byggi á, á fundi aðila 28. nóvember 2017. Við skoðun þeirra hafi kærandi fengið upplýsingar um meint brot kærða. Kæra hafi verið lögð fram 13. apríl 2018 og því lögð fram innan sex mánaða frá því að brot hafi legið fyrir.

     

  56. Sá launamunur sem sé fyrir hendi sé án nokkurs vafa kynbundinn. Í gegnum tíðina hafi læknar verið í miklum meirihluta karlar og hjúkrunarfræðingar konur. Í dag séu læknar starfandi hjá ríkinu um 60% og 40% konur. Hjúkrunarfræðingar sem starfi hjá ríkinu séu hins vegar í 98% tilvika konur. Þegar ný störf hafi myndast hjá ríkinu, meðal annars kærða, þar sem hvort tveggja hjúkrunarfræðingar og læknar hafi tekið við þeim og þau snúi ekki að klínískri vinnu, s.s. stjórnunarstarfið svæðisstjóri, hafi þessi áralangi kynbundni launamunur samt sem áður haldið áfram og orðið viðvarandi. Engu gildi því í þessu sambandi sú staðreynd að nokkrir kvenkyns læknar starfi hjá kærða sem svæðisstjórar. Eftir sem áður skýrist kærður launamunur af kyndbundnum atriðum. Þegar af þessari ástæðu vísi kærði því á bug að samanburðurinn sem byggt sé á í kæru sé villandi eða rangur.
  57. Engar nánari skýringar eða gögn liggi að baki umfjöllun kærða hvað varði það að fyrirkomulag heilsugæslustöðva hér á landi sé frábrugðið því sem tíðkist annars staðar og af því leiði að umfang og vægi klínískra starfa lækna sé meira vegna þessa. Kærandi átti sig því ekki á því hvernig kærði geti túlkað ofangreint markmið á þennan hátt þar sem ekki sé fjallað sérstaklega um læknisaðstoð eða mikilvægi lækna. Þvert á móti bendi kærandi á að hjúkrunarfræðingar gegni lykilhlutverki í ung- og smábarnavernd, mæðravernd, hjúkrunarmóttöku, heimahjúkrunar og skólahjúkrun innan heilsugæslunnar. Þess megi geta að hjúkrunarfræðingar beri ábyrgð á skólahjúkrun og komi læknar nánast ekkert þar að. Séu hjúkrunarfræðingar því í flestum tilvikum fyrsti viðkomustaður sjúklings og leiti flestir til móttöku hjúkrunarfræðinga áður en þeim sé beint í læknishendur. Við heilsugæsluna starfi framkvæmdastjóri hjúkrunar sem sé jafnsettur og framkvæmdastjóri lækninga. Fullyrðingar kærða um mun meira mikilvægi læknastarfa séu því beinlínis mótsögn við skipurit kærða og umfang starfa einstakra hópa.
  58. Það geti vart talist réttlætanlegt að greidd séu mun hærri laun til aðila sem nýti sér þann aukalega þátt sem greini í starfslýsingu, að sinna klínískri vinnu. Með því móti séu að engu gerðir þeir veigamiklu stjórnunarþættir sem störf svæðisstjóra og fagstjóra gangi út á og sé stærsti hluti starfanna, sbr. starfslýsingar.
  59. Hvorki hafi verið samið um viðbótargreiðslu að fjárhæð 120-150.000 kr. fyrir störf svæðisstjóra né hafi kæranda verið veittar upplýsingar um það hvernig sú greiðsla hafi verið ákveðin. Þá ákvörðun hafi kærði tekið einhliða.
  60. Kærandi hafni fullyrðingu kærða um að mismunandi menntun lækna og hjúkrunarfræðinga geti ráðið för við úrlausn málsins og vísi máli sínu til stuðnings til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála frá 21. október 2014. Þá sé það svo að meirihluti stjórnenda í hjúkrun séu með viðbótarmenntun að baki umfram háskólapróf sem hjúkrunarfræðingar, yfirleitt tveggja ára nám, og auk þess mikla starfsreynslu. Læknar hafi sannarlega lengra nám að baki en hafa beri í huga að viðbótarnám þeirra erlendis sé launað að fullu.
  61. Umfjöllun kærða um að hugtök jafnréttislaga sé eigindleg en ekki megindleg sé ekki haldbær. Í máli þessu sé um að ræða eitt og sama stjórnunarstarfið og um starfið gildi ein starfslýsing. Umrædd hugtök eigi sér hins vegar ekki lagastoð og geti því ekki réttlætt lögbrot kærða.
  62. Kærandi telji dóm Evrópudómstólsins (ECJ) nr. 381/99 ekki fordæmisgefandi í máli þessu. Þar hafi verið óumdeilt að grunnlaun aðila hafi verið þau sömu og að aðilar hafi fallið í sama launaflokk samkvæmt kjarasamningi. Í málinu hafi verið deilt um viðbótargreiðslu sem karlmaður hafi fengið í störfum sínum fyrir meiri ábyrgð í starfi. Sá mismunur hafi verið talinn löglegur því mismunandi launagreiðslur hafi byggt á viðbótargreiðslum. Málsatvik séu af þeim sökum að verulegu leyti ólík og verði því ekki lögð til grundvallar við úrlausn á máli þessu.
  63. Í frétt sem hafi birst á vef kærða 28. apríl 2016 sé fjallað um að breytingum á heilsugæslustöðvum verði flýtt. Þar greini meðal annars að „[s]væðisstjóri verður ráðinn til að bera faglega og fjármálalega höfuðábyrgð á rekstri hverrar heilsugæslustöðvar.“ Þarna hafi kærði staðfest og lýst því yfir að starf svæðisstjóra sé stjórnunarstarf en ekki blandað starf eins og hann haldi fram.
  64. Það að svæðisstjórar fái greidda fatapeninga segi ekkert til um umfang klínískra starfa viðkomandi og geti réttlætt þann launamun sem sé umfjöllunarefni kærunnar.
  65. Í greinargerð kærða segi að svæðisstjóri beri rekstrarlega ábyrgð á rekstri heilsugæslustöðva í heild. Kærandi telji það stinga í stúf þetta mikla hlutverk og ábyrgðarskyldur, þegar mið sé tekið af því að sami starfsmaður, þ.e. svæðisstjóri, hafi lægri laun en fagstjóri lækninga á sömu stöð, en eingöngu þó sé svæðisstjórinn hjúkrunarfræðingur. Kærði staðfesti í raun í umsögn sinni að þann mismun sem sé á launum stjórnenda eftir hvort þeir séu hjúkrunarfræðingar eða læknar, enda þótt um sama starfsheitið sé að ræða. Rætt sé um teymisvinnu og mikilvægi hennar en vandséð hvernig hún eigi að vera fyrir hendi sé launamyndun í teyminu jafn brengluð og raun beri vitni.
  66. Kærði fullyrði að stjórnun heilsugæslunnar sé að miklu leyti unnin miðlægt. Sú fullyrðing samræmist þó illa öðrum fullyrðingum hans um aukið sjálfstæði stöðva. Vandséð sé einnig hvernig hægt sé að reka heilsugæslustöð þannig að stjórnun sé sinnt í hjáverkum, svo sem kærði virðist halda fram. Slíkt stríði gegn skilningi kærða sjálfs á inntaki starfanna, sbr. starfslýsing.
  67. Tilvísun kærða til mismunandi launagreiðslna hjúkrunarfræðinga lækna og hjúkrunarfræðinga í samningum við fjármála- og efnahagsráðherra standist ekki því ákvarðanir um kjör lækna fari samkvæmt kjarasamningi en kærði ákvarði hins vegar launasetningu hjúkrunarfræðinga sjálfur í stofnanasamningi.
  68. Þegar auglýst hafi verið eftir svæðisstjóra til starfa hafi kærði tekið fram að umsækjendur gætu verið hvort sem er læknar eða hjúkrunarfræðingar. Kærði geri því sjálfur engin mun á því hvora menntun viðkomandi umsækjandi eða sá sem starfið hljóti hafi. Enda sé um stjórnunarstarf að ræða. Kærandi mótmæli ekki mikilvægi menntunar lækna með fram kominni kæru. Það dragi þó ekki úr því að um lögbrot geti verið að ræða þegar ekki séu greidd jafn há grunnlaun fyrir sama stjórnunarstarfið.
  69. Vísað sé til þess að í nokkrum dómum Hæstaréttar hafi þeirri réttlætingarástæðu vinnuveitanda fyrir kynbundnum launamun verið ítrekað hafnað, að mismunandi kjarasamningar eða kjaraviðmið gildi um störfin sem séu borin saman. Sem dæmi um þetta megi vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 255/1996, 11/2000 og 258/2004.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  70. Í athugasemdum kærða kemur meðal annars fram að vegna athugasemda kæranda sé bent á að konum hafi fjölgað ört í stétt heimilislækna síðustu ár. Nú um stundir séu 2/3 hluti þeirra lækna sem séu í sérnámi í heimilislækningum konur en með hliðsjón af þessari þróun megi ætla að þess sé ekki langt að bíða að meirihluti starfandi heimilislækna verði konur. Kærði bendi á að yrði fallist á röksemd kæranda um sögulegar karla- og kvennastéttir myndi vera til staðar kynbundin mismunun þótt allir starfandi læknar hjá kærða væru konur. Slíkt standist ekki skoðun.
  71. Að hálfu kæranda sé byggt á því að svæðisstjórar heilsugæslustöðva sem jafnframt séu faglegir stjórnendur hjúkrunarfræðinga sinni alfarið sama starfi og svæðisstjórar heilsugæslustöðva kærða sem jafnframt séu faglegir stjórnendur lækna. Þetta sé ekki rétt. Fyrir liggi að á hverri og einni heilsugæslustöð starfi annars vegar fagstjóri lækninga og hins vegar fagstjóri hjúkrunar. Þetta sé í samræmi við lagaskyldu heilsugæslustöðva og annarra heilbrigðisstarfsstöðva, sbr. 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu sem kveði á um faglega stjórnun og ábyrgð yfirlækna annars vegar og deildarstjóra hjúkrunar hins vegar. Ennfremur sé bent á að á hverri heilsugæslustöð sem starfrækt sé á vegum kærða sé annað hvort fagstjóri hjúkrunar eða fagstjóri lækninga einnig svæðisstjóri viðkomandi starfsstöðvar.
  72. Kærandi fullyrði ítrekað að starf svæðisstjóra sé eitt og sama starfið. Kærði bendi á að sé það rétt hljóti það að leiða til þeirrar niðurstöðu að fagstjóri lækninga eða hjúkrunar sem jafnframt gerist svæðisstjóri hætti þá þegar að vera einnig fagstjóri lækninga eða hjúkrunar þar sem viðkomandi sé einungis svæðisstjóri. Sú niðurstaða myndi leiða til þess að starfsemi heilsugæslustöðva á vegum kærða væri brotleg við fyrrnefnd ákvæði 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 40/2007.
  73. Umræddir stjórnendur, fagstjórar lækninga og hjúkrunar, svo og þeir sem einnig séu svæðisstjórar sinni svo allir klínískum störfum í samræmi við sína fagstétt enda hafi það verið markmið og niðurstaða skipulagsbreytinga sem gerðar hafi verið á starfsemi kærða að þær leiddu ekki til fjölgunar starfa fagfólks. Af hálfu kæranda sé ítrekað fjallað um klínískan þátt starfa svæðisstjóra á þann hátt að svæðisstjórar hafi heimild til að sinna klínískum störfum en þannig sé gefið í skyn að klínísk störf séu valkvæður þáttur í starfi svæðisstjóra. Kærði bendi á að þetta sé alrangt. Klínísk störf hafi verið og séu ráðandi þáttur í starfi svæðisstjóra.
  74. Af hálfu kæranda sé því ranglega haldið fram að kærði fjalli um að stjórnunarhlutverk svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar hjúkrunar sé viðameira en stjórnunarhlutverk svæðisstjóra sem jafnframt séu fagstjórar lækninga. Kærði hafi ekki haldið þessu fram. Fjallað sé um umfang klínískra starfa svæðisstjóra sem jafnframt gegni starfi fagstjóra lækninga og hjúkrunar í greinargerð kærða. Af þeim tölum megi berlega sjá að umfang klínískra starfa lækna breytist lítið sem ekkert við það að viðkomandi sinni einnig störfum svæðisstjóra. Niðurstaðan sé önnur þegar komi að fagstjórum hjúkrunar en umfang klínískra starfa þeirra minnki við það að þeir sinni einnig störfum svæðisstjóra. Benda verði á að orsök þessa sé óljós en ljóst sé að ástæða þessa munar sé ekki sú að stjórnunarstörf séu umfangsmeiri á þeim heilsugæslustöðvum þar sem svæðisstjórn sé sinnt af fagstjórum hjúkrunar á viðkomandi stöð.
  75. Starfsemi heilsugæslustöðva kærða felist í þjónustu sérfræðinga í heilbrigðisvísindum við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Eðli starfa slíkra sérfræðinga sé að starfa sjálfstætt en af því leiði að ekki sé til staðar þörf á mikilli beinni, daglegri stjórnun á slíkum vinnustöðum. Þessu til stuðnings sé bent á að á höfuðborgarsvæðinu starfi nú um stundir fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar en eftir því sem kærði best viti starfi á engri þeirra stjórendur í fullu starfi og eigendur viðkomandi stöðva gangi í öll verk. Í samkeppnisumhverfi sem þessu sé ekki rekstrarlegt rými fyrir stjórnendur í fullu starfi sem slíkir á hverri heilsugæslustöð.
  76. Kærandi hafi lagt fram afrit af fréttatilkynningu sem hafi birst á vef kærða 28. apríl 2016 um að fyrrnefndum skipulagsbreytingum á starfsemi kærða yrði flýtt. Kærði bendi á að réttilega komi þar fram að „[s]væðisstjóri verður ráðinn til að bera faglega og fjármálalega höfuðábyrgð á rekstri hverrar heilsugæslustöðvar.“ Kærandi hins vegar dragi ranglega þá ályktun að af þessu leiði að starf svæðisstjóra sé einungis stjórnunarstarf en ekki blandað starf. Af þessu tilefni bendi kærði á að lesa verði tilvitnaðan texta í ljósi þess að hver og ein heilsugæslustöð sem starfrækt sé innan kærða sé ekki sjálfstæð ríkisstofnun heldur deild innan ríkisstofnunar kærða. Af því leiði að nefnd „fagleg og fjármálaleg[..] höfuðábyrgð á rekstri“ sé gagnvart yfirstjórn kærða. Svæðisstjórar komi ekki fram út á við gagnvart þriðju aðilum og beri ekki ábyrgð nema gagnvart yfirstjórn kærða. Með hliðsjón af umfangsmiklu hlutverki stoðdeilda kærða megi ljóst vera að í starfi svæðisstjóra felist einungis viðbótar verkefni sem felist í stjórnun og yfirsýn yfir starfsemi viðkomandi stöðvar. Viðkomandi starfsmaður sé þess utan ávallt læknir eða hjúkrunarfræðingur og fagstjóri síns fagsviðs.
  77. Kærði hafni fullyrðingu kæranda um að þóknun fyrir verkefni svæðisstjóra hafi verið einhliða ákveðin af honum og bendi á fyrirliggjandi ráðningarsamninga þeirra fimm hjúkrunarfræðinga sem kæra þessi sé lögð fram fyrir. Þar komi fram undir dálknum aðrar greiðslur að greiddar séu viðbótargreiðslur vegna svæðisstjórnunar, en flokkar fari eftir stærð stöðvar eins og áður hafi verið skýrt frá. Ráðningarsamningarnir sýni ljóslega að þóknanir þessar séu niðurstaða tvíhliða samninga en ekki einhliða ákvörðunar af hálfu kærða.
  78. Kærandi beri því við að kærði upphefji lækna og þeirra fag og tali hjúkrunarfræðinga niður og þeirra faglegu viðfangsefni. Kærði mótmæli þessum áburði sem röngum. Af þessu tilefni vilji kærði koma því á framfæri að starfsemi heilsugæslunnar í landinu standi og falli með aðkomu ólíkra stétta heilbrigðisstarfsmanna svo og annarra stétta, faglærðra og ófaglærðra, sem myndi mikilvæga heild. Verkefni og ábyrgð skiptist í samræmi við sérhæfingu og menntun þessara ólíku faghópa en aðkoma þeirra allra sé órjúfanlegur partur af faglegri og öflugri heilsugæslu.

    NIÐURSTAÐA

  79. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  80. Með bréfi, dagsettu 13. desember 2016, barst kæra til kærunefndar jafnréttismála vegna munar á launakjörum hjúkrunarfræðinga sem gegna starfi svæðisstjóra hjá kærða og lækna sem gegna sömu stöðu, sbr. mál nr. 5/2016. Að auki var kærður launamunur fyrir störf fagstjóra hjúkrunar og fagstjóra lækninga. Því máli lauk með úrskurði 18. maí 2017 er málinu var vísað frá kærunefndinni. Bæði var talið að aðild kæranda þess máls samrýmdist ekki 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en einnig væri ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvernig bera mætti saman launatekjur hjúkrunarfræðinganna við hóp lækna sem voru að hluta til konur auk þess sem menntunarkröfur hópanna voru mjög ólíkar.
  81. Með kæru máls þessa er á ný kærður munur á launakjörum hjúkrunarfræðinga sem gegna starfi svæðisstjóra hjá kærða og karlkyns lækna sem gegna sömu stöðu. Kærði mun hafa afhent kæranda launaupplýsingar, sem kæra þessi byggir á, á fundi aðila 28. nóvember 2017. Á því er byggt af hálfu kæranda að það hafi fyrst verið við skoðun þeirra gagna sem hann hafi fengið upplýsingar um meint brot kærða. Kæra málsins hafi verið lögð fram 13. apríl 2018 og því lögð fram innan sex mánaða frá því að brot hafi legið fyrir.
  82. Í ljósi þess að sú aðstaða sem kærandi telur vera í andstöðu við lög nr. 10/2008 er enn við lýði og tölulegar upplýsingar komu fyrst fram innan sex mánaða áður en kæra málsins var lögð fram telst hún ekki of seint fram komin í skilningi 3. mgr. 6. gr. laganna.
  83. Kæra í máli þessu er sett fram fyrir hönd fimm nafngreindra hjúkrunarfræðinga sem allt eru konur og starfa hjá kærða. Kærður er launamunur milli þeirra og þriggja nafngreindra karlkyns lækna en öll gegna þau stöðu svæðisstjóra hjá kærða. Byggt er á því að störf þessara einstaklinga séu sambærileg og séu fyrst og fremst stjórnunarstörf. Því til stuðnings vísar kærandi til starfslýsingar, auglýsingar um starfið og þess að bæði hjúkrunarfræðingar og læknar sæki um þessi störf og sinni þeim.
  84. Fyrir liggur að svæðisstjórar hjá kærða, sem eru æðstu yfirmenn á hverri heilsugæslustöð fyrir sig, eru jafnframt starfandi sem fagstjórar yfir sínu fagi á viðkomandi heilsugæslustöð. Þannig eru hjúkrunarfræðingar sem eru svæðisstjórar fagstjórar hjúkrunar á viðkomandi heilsugæslustöð og læknar sem eru svæðisstjórar eru fagstjórar lækninga á þeirri heilsugæslustöð.
  85. Upplýst er að svæðisstjórar hjá heilsugæslustöðvum kærða eru 15. Allir eru þeir fagstjórar sinnar faggreinar. Svæðisstjórar sem eru hjúkrunarfræðingar eru sjö, allt konur. Svæðisstjórar sem eru læknar eru átta, þar af fimm konur og þrír karlar. Kærandi hefur kosið að bera kjör nafngreindra fimm félagsmanna sinna saman við karlana þrjá. Fyrir liggur að kynbundinn launamunur er ekki á milli læknanna innbyrðis eftir kynferði. Karlkyns læknarnir þrír og tvær kvennanna eru öll með sömu laun. Hinar konurnar þrjár sem eru læknar eru með hærri laun en karlarnir.
  86. Af ofangreindu leiðir að sami launamunur, og raunar meiri í þremur tilvikum, er í grunninn milli kvenkyns lækna og kvenkyns hjúkrunarfræðinga sem sinna starfi svæðisstjóra hjá kærða. Launamunurinn er ekki meiri í tilviki karlanna. Eðli máls samkvæmt verður þessi launamunur ekki skýrður með skírskotun til kynferðis.
  87. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um sérstaka þóknun sem kærði greiðir svæðisstjórum er ekki um að ræða mun á þeim greiðslum til hjúkrunarfræðinga annars vegar og lækna hins vegar. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fá allir svæðisstjórar hjá kærða sérstaka þóknun til viðbótar launum samkvæmt viðkomandi kjarasamningi fyrir svæðisstjórnun. Greiddar eru tvær misháar fjárhæðir eftir stærð og umfangi hverrar heilsugæslustöðvar. Allir læknarnir og þrír hjúkrunarfræðingar fá lægri fjárhæðina. Fjórir hjúkrunarfræðingar fá hærri þóknun. Kynbundinn launamunur hjúkrunarfræðingum til tjóns felst því ekki í greiðslu þessarar þóknunar.
  88. Fyrir liggur að umtalsverður munur er á launum hjúkrunarfræðinga og lækna hjá kærða sem sinna svæðisstjórnun. Sá munur birtist í hærri launum sem greidd eru samkvæmt kjarasamningum annars vegar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og hins vegar Læknafélags Íslands. Sá launamunur milli hjúkrunarfræðinga og lækna er ekki kynbundinn þar sem fleiri kvenkyns læknar sinna svæðisstjórn en karlar.
  89. Kærði hefur skýrt þennan mun á launum þessara fagstétta meðal annars með vísan til þess að mikill munur sé á menntun hjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í heimilislækningum. Í auglýsingu um starf svæðisstjóra er gerð sú krafa til menntunar að umsækjendur séu annað hvort hjúkrunarfræðingar eða sérfræðingar í heimilislækningum.
  90. Fyrir liggur að menntun hjúkrunarfræðinga og lækna er ólík og hefur það haft áhrif á launakjör viðkomandi fagstétta. Fagþekkingu sína munu svæðisstjórar hagnýta í klínískum störfum sínum. Rakið er ítarlega af hálfu kærða að læknar sem sinni svæðisstjórn sinni í öllum aðalatriðum jafnviðamiklum klínískum störfum eins og aðrir læknar sem einvörðungu eru fagstjórar hjá kærða án þess að sinna störfum svæðisstjóra samhliða. Læknar sem eru svæðisstjórar sinna störfum sem læknar og eru launaðir fyrir sem slíkir samkvæmt kjarasamningi. Á sama hátt hagnýta hjúkrunarfræðingar sem eru svæðisstjórar sína fagþekkingu sem hjúkrunarfræðingar við sín klínisku störf sem marka þeirra launakjör.
  91. Í ljósi ólíkra sérfræðistarfa þeirra hjúkrunarfræðinga og lækna sem sinna störfum hjá kærða og hagnýta þá fagþekkingu sína í starfi verður talið að kærði hafi fært málefnaleg rök fyrir þeim launamun sem er milli svæðisstjóra sem eru hjúkrunarfræðingar annars vegar og læknar hins vegar.
  92. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur kærunefnd jafnfréttismála að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launa svæðisstjóra á heilsugæslustöðvum kærða.
  93. Þar sem ekki er fallist á að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 verður ekki fallist á kröfu kæranda um málskostnað, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.
  94. Kærði krefst málskostnaðar á þeim grunni að kæran sé bersýnilega tilefnislaus. Fyrir liggur að í fyrri úrskurði kærunefndar vegna sama ágreinings, sbr. úrskurðí máli nr. 5/2016, var sérstaklega tekið fram að með öllu væri vanreifað hvernig um kynbundinn launamun gæti verið að ræða konum í óhag þegar horft er til þeirrar hlutrænu staðreyndar að konur væru í meirihluta lækna sem sinntu störfum svæðisstjóra. Sú staðreynd liggur á sama hátt fyrir í þessu máli þótt kærandi beini samanburði einungis að körlum í hópi lækna. Í þessu samhengi er einnig til þess að líta að í upplýsingum um launakjör sem kærandi fékk afhentar 28. nóvember 2017 kemur glöggt fram að kvenkyns læknar eru ekki eftirbátar karlkyns lækna þannig að halli sérstaklega á hjúkrunarfræðinga gagnvart körlunum. Áður en efnt var til þessa máls hafði því með launaupplýsingunum verið slegið enn rækilegar föstu að launakjör lækna hjá kærða væru óháð kyni og sami munur væri gagnvart hjúkrunarfræðingum óháð kyni læknanna. Viðhlítandi skýringar hafa ekki verið færðar fram af hálfu kæranda hvernig horfa megi framhjá þessu grundvallaratriði. Í þessu ljósi verður ekki hjá því komist að gera kæranda að greiða kærða 250.000 krónur vegna kostnaðar af rekstri málsins með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 220/2017.
  95. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veittra fresta til málsaðila til gagnaöflunar og annríkis nefndarmanna við önnur störf.

                                                                                                                                                                                                                                                                   .

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu kærða, B, um frávísun er hafnað.

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launakjara hjúkrunarfræðinga sem gegna starfi svæðisstjóra heilsusgæslustöðva hjá kærða.

Kærandi, A, greiði kærða 250.000 krónur í málskostnað.

 

 

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Grímur Sigurðsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta