Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 200/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 200/2022

Miðvikudaginn 17. ágúst 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með tölvupósti 11. apríl 2022 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála nánar tiltekin atriði í svari Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. janúar 2022, við erindum kæranda frá 16. og 28. desember 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupóstum 16. og 28. desember 2021 óskaði kærandi eftir örorkubótum vegna tímabilsins 1. október 2017 til 1. febrúar 2020. Þá spyr hann hver hafi falsað skjal til Þjóðskrár, hver hafi brotist inn í tölvupóstinn hans og eytt samskiptum og hver hafi farið í heimildarleysi inn á heimili hans 12. mars 2021 til að ræna skjölum. Einnig spyr kærandi hver hafi lagt 15% aukagjald á áætlaða skuld hans og dráttarvexti. Í svari Tryggingastofnunar, dags. 25. janúar 2022, kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvörðun um stöðvun lífeyrisgreiðslna vegna búsetu kæranda í B á tímabilinu 4. janúar 2017 til 15. janúar 2020. Þá segir að Tryggingastofnun hafi lagt 15% álag á skuld kæranda samkvæmt 45. gr. laga nr. 100/2007 og 5,5% ársvexti samkvæmt 3. mgr. 55. gr. laganna þangað til samkomulag um endurgreiðslu hafi verið skráð 30. apríl 2021. Fram kemur að Persónuvernd hafi tekið ásakanir um skjalafals til athugunar og öllum öðrum ásökunum á hendur starfsmönnum Tryggingastofnunar sé hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. apríl 2022. Með bréfi, dags. 15. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. júní 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kæri til úrskurðarnefndar velferðarmála niðurstöðu Tryggingastofnunar frá 25. janúar 2022. Fram kemur að það hafi verið að falla dómur í Hæstarétti sem staðfesti að óheimilt hafi verið hjá Tryggingastofnun að skerða örorkubætur vegna búsetu erlendis. Tryggingastofnun neiti að hafa verið með skjalafals vegna skjals frá 4. janúar 2016 sem hafi verið sent frá stofnuninni til Þjóðskrár vegna kæranda. Þessi gjörningur hjá Tryggingastofnun að taka af honum mánaðarlega sé ólöglegur. Þetta 15% álag sem Tryggingastofnun hafi lagt á kæranda sé ólöglegt og því hafi alltaf verið mótmælt. Þá hafi Tryggingastofnun brotist inn í netfang kæranda til þess að eyða samskiptum hans við Tryggingastofnun og Þjóðskrá vegna skjalsins frá 4. janúar 2016.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. júní 2022 segir að með bréfi, dags. 15. júní 2022, hafi úrskurðarnefnd velferðarmála óskað eftir greinargerð Tryggingastofnunar vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að draga mánaðarlega af greiðslum kæranda.

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi:

„Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.

Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.“

Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. október 2017, að ofgreidd réttindi hans væru 1.872.710 kr. og lagt væri 15% álag ofan á þá fjárhæð, eða samtals 338.087 kr. Ofgreiðslan hafi myndast þar sem kærandi hafi verið fluttur úr landi samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá.

Eftir flutning aftur til landsins í janúar 2020 hafi verið samþykktur örorkulífeyrir til kæranda að nýju frá 1. febrúar 2020. Samkvæmt meðfylgjandi hreyfingayfirliti kröfu hafi verið byrjað að draga af greiðslum kæranda upp í kröfuna frá og með 1. mars 2020.

Frá 1. júní 2021 hafa verið dregnar 26.645 kr. af greiðslum kæranda upp í kröfuna eftir að samkomulag við kæranda um endurgreiðslu hafi verið skráð 30. apríl 2021. Dráttarvextir hafi ekki verið lagðir á kröfuna eftir það. Kærandi haldi því fram að það að taka af honum mánaðarlega sé ólöglegt. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar að draga af mánaðarlegum greiðslum kæranda upp í kröfu stofnunarinnar sé í fullu samræmi við heimild stofnunarinnar samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að svari Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. janúar 2022, við erindum kæranda frá 16. og 28. desember 2021.

Í kæru er byggt á því að Tryggingastofnun sé óheimilt sé að skerða örorkubætur vegna búsetu erlendis og leggja á 15% álag á skuld kæranda. Í enduruppteknum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 387/2018 staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda vegna búsetu hans í B og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur með 15% álagi. Úrskurðarnefndin hefur því þegar tekið framangreint álitaefni til endurskoðunar.

Kærandi byggir jafnframt á því að Tryggingastofnun hafi falsað skjal til Þjóðskrár og brotist inn í netfang hans. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Það fellur því utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um meint skjalafals Tryggingastofnunar.

Þá gerir kærandi athugasemdir við að Tryggingastofnum dragi mánaðarlega af greiðslum til hans vegna skuldar hans við stofnunina. Eins og áður hefur komið fram staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála með úrskurði í enduruppteknu máli nr. 397/2018 að Tryggingastofnun væri heimilt að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.

Um endurkröfurétt Tryggingastofnunar er fjallað í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1., 2. og 3. mgr. ákvæðisins segir:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.

Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.“

Samkvæmt framangreindu á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Þá er stofnuninni heimilt að draga það sem ofgreitt er frá öðrum tekjutengdum bótum ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr. Þó verður ráðið af 3. mgr. 55. gr. laganna að heimilt sé að semja um endurgreiðslu með frádrætti frá greiðslum, þrátt fyrir að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt.

Fyrir liggur að endurgreiðslukröfu kæranda er ekki að rekja til þess að tekjur á ársgrundvelli voru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta heldur vegna þess að kærandi fékk greiðslur frá Tryggingastofnun, án þess að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum. Tryggingastofnun er því ekki heimilt að draga ofgreiddar bætur frá mánaðarlegum greiðslum til kæranda, nema samið hafi verið um slíkt.

Samkvæmt gögnum málsins byrjaði kærandi að fá örorkulífeyrisgreiðslur á ný 1. febrúar 2020 og Tryggingastofnun byrjaði að draga mánaðarlega af greiðslum kæranda upp í kröfuna frá 1. mars 2020. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að það hafi verið gert á grundvelli samnings við kæranda. Með tölvupósti 24. apríl 2021 óskaði kærandi eftir að Tryggingastofnun lækkaði skuldfærslu vegna meintrar skuldar úr 43.000 krónur niður í 10.000 til 15.000 krónur mánaðarlega. Í kjölfarið lækkaði Tryggingastofnun frádrátt frá mánaðarlegum greiðslum kæranda niður í 26.645 krónur og hætti að rukka vexti þar sem stofnunin taldi að samkomulag hefði náðst við kæranda um endurgreiðslur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að náðst hafi samkomulag á milli kæranda og Tryggingastofnunar um að stofnuninni væri heimilt að draga mánaðarlega 26.645 krónur af greiðslum kæranda, enda óskaði kærandi eftir því að frádrátturinn væri mun lægri. Að mati úrskurðarnefndar er Tryggingastofnun því ekki heimilt að draga mánaðarlega af greiðslum til kæranda vegna skuldar hans við stofnunina.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að draga mánaðarlega af greiðslum til kæranda vegna skuldar hans við stofnunina felld úr gildi.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að draga mánaðarlega af greiðslum til A, vegna skuldar hans við stofnunina, er felld úr gildi. Öðrum kæruefnum er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta