Metaðsókn í sumarnám: 5.100 nemar í háskólum, 330 í framhaldsskólum
„Aðsóknin í sumarnámið er vonum framar enda fjölmargir spennandi námskostir í boði hjá framhalds- og háskólum. Ég hvet alla til þess að kynna sér þau tækifæri sem eru í boði. Það gleður mig sérstaklega hversu mikil aðsókn er í íslenskunámskeið hjá Háskóla Íslands. Þar hefur orðið að bæta við námskeiðum í Íslensku sem öðru máli og eru 400 nemendur skráðir á þau námskeið nú í júní,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Upplýsingar um framboð og námskosti í sumarnámi má finna á vefnum næstaskref.is. Bæði er hægt að taka einingarbæra áfanga sem og fjölbreytt námskeið en sérstök áhersla er á nám sem nýtist sem undirbúningur fyrir háskólanám, námskeið á sviði iðn- og verknáms, valkosti á sviði símenntunar og færnibrýr fyrir atvinnuleitendur sem vilja skipta um starfsvettvang.
Upplýsingar um sumarstörf námsmanna má finna á vef Vinnumálastofnunar.