Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 38/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 38/2001

 

Eignarhald. Ákvörðunartaka.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 30. júlí 2001, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C, D, E, F og G, hér eftir nefndir gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 2. ágúst 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Greinargerð B, C, D, H, I, J, K, F og G, dags. 24. september 2001, var lögð fram á fundi nefndarinnar 4. október 2001. Á fundi nefndarinnar 6. nóvember 2001 voru lagðar fram athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 12. október 2001. Á fundi nefndarinnar 21. nóvember 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 12, Reykjavík. Húsið skiptist í þrjá matshluta, þ.e. 01 (bakhús), 02 (millibygging) og 03 (forhús). Álitsbeiðandi er eigandi í matshluta 03 merktur 03-01-02 (23,64%) og er framkvæmdarstjóri L, sem er eigandi í matshluta 03 merktur 03-01-01 (9,92%), eignarhlutar þeirra í matshluta 03 eru samtals 33,56%. Ágreiningur er um eignarhald á þakskyggni, ákvörðunartöku og skiptingu kostnaðar.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

1. Að viðurkennt verði að þakskyggni yfir sérinngangi 2. hæðar sé í sameign sumra en ekki sameign allra í skilningi fjöleignarhúsalaganna.

2. Að viðurkennt verði að ákvarðanataka gagnaðila á framkvæmdum vegna þakskyggnis hafi ekki verið lögmæt.

3. Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri ekki skylda til að taka þátt í kostnaði vegna byggingu skyggnisins, hvorki stofn- né viðhaldskostnað.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að eignarhlutar 03-01-01 og 03-01-02 séu á 1. hæð og hafa sérinnganga fyrir framan húsið á 1. hæð. Á bak við húsið sé sameiginlegur inngangur fyrir 2., 3. og 4. hæð og sérinngangur fyrir eignarhluta 03-02-02 og 03-02-03. Fyrir framan húsið séu göngusvalir með tröppum upp á 2. hæð, merktar 02-07, sem séu í sameign sumra, þ.e. 03-02-01, 03-02-02 og 03-02-03. Þá teljast útitröppur fyrir framan húsið í sameign allra í matshluta 03.

Álitsbeiðandi telur að þakskyggni sem staðsett sé yfir sameiginlegum inngangi 2., 3. og 4. hæðar, svo og yfir sérinngöngum eignarhluta 03-02-01, 03-02-02 og 03-02-03 sé sameign sumra og því sé stofn- og viðhaldskostnaður þess honum óviðkomandi. Þá telur álitsbeiðandi að ekki hafi verið staðið rétt að ákvarðanatöku um byggingu þakskyggnisins og því sé hann ekki bundinn af henni né skylt að taka þátt í stofn- og viðhaldskostnaði þakskyggnisins.

Á húsfundi sem haldinn hafi verið um utanhússframkvæmdir hafi m.a. verið samþykkt að láta teikna umrætt þakskyggni upp. Álitsbeiðandi hafi verið á fundinum og ekki gert athugasemdir við það. Hins vegar hafi enginn húsfundur verið boðaður eftir það til að meta kostnaðaráætlun né taka ákvörðun um útlit, staðsetningu, endanlegan kostnað og kostnaðarskiptingu á þeim framkvæmdum. Um leið og utanhússframkvæmdir hafi verið gerðar hafi þakskyggnið verið byggt með tilheyrandi kostnaði án þess að samþykki formlegs húsfundar lægi fyrir um endanlegt útlit, kostnað og staðsetningu skyggnisins.

Álitsbeiðandi telur að þakskyggni yfir sérinngangi 2. hæðar sé í sameign sumra. Sameign sumra sé undantekning frá meginreglunni um sameign allra og komi helst til skoðunar þegar afnotamöguleikar og hagnýting tilheyri eingöngu sumum séreignarhlutum en ekki öllum Eigi það helst við þegar veggir skipta upp fjöleignarhúsi og eignarhald séreignarhluta sé talsvert aðskilið t.d. þegar þar séu margir sér- og sameiginlegir inngangar, svo og þegar fjöleignarhús skiptist í fleiri smærri einingar eða hús. Í þeim tilvikum geti meginreglan virkað ósanngjörn og óeðlileg gagnvart einstökum séreignarhlutum. Álitsbeiðandi hafi hvorki afnot né afnotamöguleika af umræddum inngöngum og ekki sé um að ræða aðgang að sameiginlegu húsrými. Eingöngu sé um að ræða aðgengi að sameign sumra, þ.e. sameign gagnaðila. Álitsbeiðandi telur að með hliðsjón af staðsetningu þakskyggnis á húsinu þjóni það þörfum einstakra séreignarhluta og hefur eignarhluti álitsbeiðanda á 1. hæð sérinngang inn á jarðhæð fyrir framan húsið og engan aðgang né afnotamöguleika að þakskyggninu. Því eigi þeir séreignarhlutar sem þar hafi einir aðgang og afnotamöguleika að bera sameiginlegan kostnað af byggingu og viðhaldi þakskyggnisins. Greiðsluskylda annarra séreignarhluta eigi að falla niður með hliðsjón af 2. tölul. 7. gr. laga nr. 26/1994.

Þá telur álitsbeiðandi að ákvarðanataka um byggingu, útlit, staðsetningu, kostnað o.fl. vegna þakskyggnisins hafi ekki verið lögmæt þar sem enginn löglegur húsfundur hafi verið haldinn. Álitsbeiðandi telur að ákvörðun og samþykki húsfundar fyrir því að veita umboð til að láta teikna upp þakskyggnið feli ekki í sér samþykki af sinni hálfu á byggingu þakskyggnisins né samþykki sínu í kostnaðarþátttöku. Álitsbeiðandi telur að þar sem um sé að ræða sameign sumra hafi gagnaðilum borið að hafa samráð við hann um útlit og staðsetningu. Gagnaðilum hafi verið óheimilt að fara í endurbætur, framkvæmdir, endurnýjanir o.s.frv., á sameign hússins, án þess að fyrir lægi samþykki tilskilins meirihluta eigenda.

Þá telur álitsbeiðandi að honum beri ekki skylda til að taka þátt í kostnaði vegna þakskyggnisins, hvorki stofn- né viðhaldskostnað. Með vísan til þeirrar meginreglu sem fram komi í 40. gr. laga nr. 26/1994 sé honum heimilt að hafna greiðsluskyldu sinni þar sem hvorki hafi verið haft samráð við hann né hafi verið boðað til löglegs húsfundar til að taka formlegar ákvarðanir um byggingu þakskyggnisins.

Álitsbeiðandi styður kröfur sínar aðallega við 10. tölul. 5. gr., 1. og 2. tölul. 7. gr., 9. gr., 5. tölul. 8. gr., 30.gr., 36. gr., 39. gr., 40. gr., og 46. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að óskipt bílastæði séu bæði að framanverðu, til hliðar og á milli forhúss og bakhúss. Álitsbeiðandi hafi leigt bílasölu hluta húsnæðis síns um tíma og hafi bílasalan einokað allt planið að framanverðu. Notuðu því allir eigendur hússins bílastæðin til hliðar og á milli forhúss og bakhúss jafnt á þessum tíma. Gangstétt liggi meðfram bakhlið forhúss undir hinu umdeilda skyggni, meðfram hliðargafli hússins og niður tröppur á planið fyrir framan forhúsið framanvert. Sé þannig sérstaklega auðveldað gangandi vegfarendum að fara frá bílastæðinu milli forhúss og bakhúss og að verslunum í kjallara framhliðar forhúss.

Ástæða þess að húsfélagið hafi ákveðið að setja upp skyggni á bakhlið forhússins hafi verið sú að fyrir nokkrum árum féll snjóhengja af þaki framhliðar forhússins á bifreið á bílastæði við forhúsið og stórskemmdi hana. Í kjölfarið hafi verið höfðað mál á hendur húsfélaginu og það dæmt bótaskylt. Í dómnum sé að finna tvær lögregluskýrslur, þar sem fram komi að a.m.k. tvisvar áður höfðu snjóhengjur fallið af þakinu. Eftir að dómurinn gekk hafi snjóhengja fallið af þaki bakhliðar forhússins á gangandi vegfaranda en sá hafi ekki slasast. Húsfélagið hafi greitt bótafjárhæðina til tjónþola, en hver og einn eigandi hafi greitt húsfélaginu hluta af kostnaðinum í samræmi við hlutfallstölu eignarhlutans. Þar á meðal hafi álitsbeiðandi greitt hluta af bótafjárhæðinni án fyrirvara. Skömmu síðar hafi verið ákveðið að fara út í miklar viðhaldsframkvæmdir á húsinu. Hafi þáverandi formaður húsfélagsins minnst þessara atburða og bent á að hættuna á falli snjóhengja á vegfarendur og bíla þyrfti að fyrirbyggja. Hafi því verið ákveðið að láta smíða skyggni á bakhlið forhússins og setja snjógildrur á þak forhússins að framanverðu (en þar hafi áður verið þakskyggni) um leið og farið yrði út í þessar viðhaldsframkvæmdir. Hafi stjórn húsfélagsins fengið R til að gera útboðsgögn vegna þessara viðhaldsframkvæmda og sé þar gert ráð fyrir smíði skyggnis en á bls. 22 segir: "Verktaki skal smíða, setja upp og ganga að fullu frá skyggni á suðurhlið verslunar- og skrifstofubyggingar. Skyggni þetta er borið uppi af heitgalvaniseruðu stálburðarvirki sem tengt er saman með timburbitum er klæddir eru með málmklæðningu samanber teikningar arkitekta og verkfræðinga." Hafi þessar framkvæmdir verið ræddar á húsfundum 20. október 1997 og 19. júní 1998 og hafi þá verið ákveðið að láta ljúka hönnuninni á skyggninu svo og að fela eftirlitsaðilanum S fyrir hönd húsfélagsins að hefja samningaviðræður við verktakana til að vinna verkið á grundvelli tilboðs þeirra en fyrir fundinum hafi legið drög að samkomulagi við þá. Hafi það verið samþykkt á fundinum. Hafi tilboðið verið gert á grundvelli útboðsgagna R frá október 1997. Stjórn húsfélagsins hafi síðan haft umsjón með viðhaldsframkvæmdunum.

Gagnaðilar benda á að álitsbeiðandi hafi verið kosinn formaður húsfélagsins á aðalfundi þess 9. apríl 2001. Á sama fundi hafi ársreikningur húsfélagsins fyrir árið 2000 verið til umræðu. Einn af kostnaðarliðum ársreikningsins hafi verið kostnaður húsfélagsins fyrir árið 2000 vegna skyggnisins sem þá hafi verið nær fullgert. Í umræðum um ársreikninginn og kostnað vegna skyggnisins hafi fyrirsvarsmaður T talið að T ætti ekki taka þátt í kostnaði vegna skyggnisins, enda væri skyggnið á framhúsi X nr. 12, en ekki bakhúsi, sem sé eignarhluti T að X nr. 12. Hafi verið ákveðið að fá álit lögfræðings eða arkitekts um það hvort T ætti að taka þátt í þessum kostnaði. Aðrir hafi ekki gert athugasemdir um kostnaðarskiptingu í ársreikningi og samþykkt hann án fyrirvara og hafi álitsbeiðandi verið þar á meðal. Þrátt fyrir það hafi álitsbeiðandi fengið álit U um skyldu hans sjálfs sem húseiganda til að greiða fyrir skyggnið en ekki um skyldu T til að greiða fyrir skyggnið. Hafi U hvorki haft afrit af fundargerðum húsfélagsins né fengið upplýsingar um forsögu málsins áður en það gaf út álit sitt á málinu.

Gagnaðilar telja ljóst að kostnaður vegna viðhaldsframkvæmdanna, þar með talinna framkvæmda vegna skyggnisins, sé sameiginlegur kostnaður allra, sbr. 43. gr. laga nr. 26/1994, sem skuli skiptast niður á hlutaðeigandi eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta, sbr. A-lið 45. gr. sömu laga. Bakhlið forhússins sé eins og aðrir útveggir og ytra byrði hússins í sameign allra, sbr. 6. gr. laga nr. 26/1994. Enginn munur sé á þaki sem slútti fram yfir gangstétt eða þakskyggni sem sé viðfest útvegg húss að þessu leyti. Allt að einu sé um að ræða ytra byrði hússins sem sé sameign allra. Sameign sumra sé undantekningarregla sem beri samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að skýra þröngt. Sé einungis um að ræða sameign sumra þegar afnotamöguleikar af sameign séu þess háttar að ósanngjarnt sé að hún sé talin í sameign allra. Hér sé um að ræða þakskyggni sem sé hluti af ytra byrði hússins og því í raun ekki hægt að tala um afnotamöguleika af því frekar en afnotamöguleika að húsgafli eða þaki. Falli það því tvímælalaust undir það að vera sameign allra. Þegar hliðsjón sé einnig höfð af því að þakskyggnið hafi verið sett upp í öryggisskyni vegna hættu á falli snjóhengja, eftir að dómur féll á alla sameigendur hússins, svo og því að það hlífi þeim gangandi vegfarendum sem leið geta átt til álitsbeiðanda eins og annarra eigenda hússins svo og bifreiðum þeim sem lagt sé á sameiginleg bílastæði allra við bakhlið forhússins, sé ljóst að þakskyggnið þjóni hagsmunum allra og að undantekningarreglan um sameign sumra eigi ekki við í þessu máli.

Gagnaðilar benda á að álitsbeiðandi hafi allt frá árinu 1997 tekið þátt í ákvörðunum er varði þakskyggnið og aldrei sett nokkurn fyrirvara við þær ákvarðanir sem teknar hafi verið. Álitsbeiðandi hafi samþykkt á húsfundum að gengið skyldi til samninga við ákveðna verktaka um gerð skyggnisins sem aftur hafi verið byggt á útboðsgögnum sem húsfélagið hafi látið gera. Auk þessarar samþykktar hafi sérstaklega verið samþykkt af álitsbeiðanda sem og öðrum meðlimum húsfélagsins að láta ákveðna aðila fullhanna skyggnið, en það segi sig sjálft að forsenda þess að ákveðið sé að láta fullhanna skyggnið sé sú að búið sé að ákveða að setja upp skyggni vegna þeirra sérstöku hættu á falli snjóhengja af þaki hússins. Hefði sú umræða einhvern tímann komið upp á ákvarðanaferli viðhaldsframkvæmdanna, að þakskyggnið væri eingöngu í sameign sumra og að álitsbeiðandi teldi sig ekki þurfa að bera kostnað af því, hefði það leitt til þess að öðruvísi hefði verið staðið að framgangi framkvæmdanna. Þá hefði það líklega einnig haft áhrif á tekjuskiptingu af leiguplássi vegna auglýsingaskiltis o.fl., en allt húsfélagið hafi notið leigutekna vegna leigu á plássi fyrir skilti á austurgafli forhúss.

Þá benda gagnaðilar á að skv. 6. mgr. 46. gr. laga nr. 26/1994 ber eiganda að hafa uppi við húsfélag mótmæli vegna kostnaðarskiptingu eftir fyrirmælum 45. gr. laganna, þ.e. að sameiginlegur kostnaður skiptist á eigendur eftir hlutfallstölum, strax og tilefni sé til. Frestur til málshöfðunar sé þrír mánuðir frá því að húsfélagið réð máli til lykta. Höfði eigandi ekki mál innan frestsins telst hann una ákvörðuninni og við hana bundinn. Framangreindur frestur sé löngu liðinn í máli þessu. Ákvörðun um byggingu þakskyggnisins hafi verið tekin á árinu 1997 og hafi álitsbeiðandi þá þegar átt að gera fyrirvara um greiðslu kostnaðar teldi hann sig ekki bundinn af því að greiða fyrir þakskyggnið samkvæmt meginreglu 45. gr. Þá hafi stærsti hluti kostnaðar vegna framkvæmdanna verið inntur af hendi á árinu 2000 og við umræður um ársreikning ársins 2000, á aðalfundi félagsins þann 9. apríl 2001, hefði álitsbeiðandi þannig getað í síðasta lagi sett fyrirvara um greiðsluskyldu sína á þeim hluta. Það hafi hann hins vegar ekki gert heldur samþykkt ársreikninginn fyrirvaralaust. Álitsbeiðandi sé eins og aðrir meðlimir húsfélagsins bundinn af þeim ákvörðunum sem húsfélagið tók um byggingu þakskyggnis og kostnaðarskiptingu vegna þess.

Í athugasemdum álitsbeiðanda við greinargerð gagnaðila kemur fram álitsbeiðandi hafi hvorki verið á húsfundi 20. október 1997 né 19. júní 1998 og hafi fyrst fengið afrit af fundargerðum þessara funda 12. október 2001. Í fundargerð fyrri fundarins komi fram að samþykkt hafi verið að ljúka hönnun á skyggni og útbúa áætlun svo hægt yrði að fá tilboð í verkið og í fundargerð seinni fundarins komi fram að samþykkt hafi verið að hafa samband við arkitekta hússins og fá þá til að gera fullnaðarteikningar að skyggni á suðurhlið framhúss. Því sé ljóst að álitsbeiðandi hafi ekki komið nálægt ákvarðanatöku um málið né verið kunnugt um að framkvæmdir stæðu fyrir dyrum. Álitsbeiðandi hafi fyrst fengið upplýsingar um málið á aðalfundi 9. apríl 2001. Í reikningum fyrir árið 2000 komi fram að greiddar hafi verið 783.210 kr. það ár vegna skyggnisins og að áliti fráfarandi formanns gæti heildarkostnaður numið á milli 2,0 til 2,5 milljóna króna. Þá komi fram í fundargerðinni að "T ætti ekki að taka þátt í kostnaði við skyggni á framhúsi. Samþykkt að stjórn leitaði til arkitekts eða lögfræðings og fengi úrskurð um þetta atriði." Álitsbeiðanda hafi þá orðið ljóst að þetta gæti bæði átt við um sig og V sem sé í miðhúsi. Á fundinum hafi álitsbeiðandi verið kosinn formaður og hafi hann strax hafist handa við að framfylgja samþykktinni og leitað álits U. Í kjölfar álits U, dags. 28. maí 2001, hafi verið haldinn húsfundur 30. maí 2001. Með athöfnum sínum hafi álitsbeiðandi verið innan þriggja mánaða frestsins í þessu máli. Í greinargerð gagnaðila sé ekkert minnst á þann kostnað sem hafi fallið á þessu ári né að framkvæmdinni sé enn ekki fulllokið. Á þessu ári hafi verið greiddar 472.039 kr. og ógreiddar gætu verið 200-300 þúsund króna. Heildarkostnaður verði því um 1,5 milljónir króna.

Álitsbeiðandi telur að aðalatriði þessa máls sé sjálf ákvarðanatakan um að hefja framkvæmdir við skyggnið, sem í frumdrögum R, sem aldrei hafi verið dreifð til félagsmanna, verið áætluð um 700.000 kr., var aldrei framkvæmd formlega. Engir fundir hafi verið haldnir frá 1998 þar sem teikningavinna hafi verið samþykkt. Þáverandi formaður húsfélagsins hafi ráðist í framkvæmdir og sýni svo hluta kostnaðarins á aðalfundi. Inn í málið blandast T sem hafi tekið þátt í heildarviðgerðum hússins með því að taka að sér viðhaldsvinnu við sinn húshluta og vera þannig óháð öðrum húseigendum. Hafi þeir talið allan tímann að bygging skyggnisins væri alfarið framkvæmd sem snerti forhúsið eingöngu og þeim bæri ekki að taka þátt í kostnaðinum. Hlutur T í heildareigninni sé 36,43% og hlutur álitsbeiðanda 15,09%, því nemi eignarhlutar þeirra beggja 51,52%. Í því sambandi vísar álitsbeiðandi til 9. tölul. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994. Þá hafi aldrei verið leitað eftir né fengið samþykki hans fyrir byggingu skyggnisins.

 

III. Forsendur

Sameign í fjöleignarhúsi getur verið sameign allra eða sameign sumra. Sameign allra er meginreglan, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, og eru því jafnan líkur á að um sameign allra sé að ræða ef um það er álitamál. Um sameign sumra getur þó verið að ræða þegar það kemur fram eða má ráða af þinglýstum heimildum að svo sé eða þegar lega sameignar, afnot hennar eða möguleikar til þess eru með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt er að hún tilheyri aðeins þeim sem hafa aðgang að henni og afnotamöguleika, sbr. 7. gr. laganna. Þar sem sameign sumra er undantekning frá meginreglunni um sameign allra ber að túlka slíka reglu þröngri lögskýringu. Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 26/1994 kemur fram að þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum) sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standa á einni lóð eða fleirum er allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar, í sameign allra eigenda þess. Engar þinglýstar heimildir styðja þá fullyrðingu álitsbeiðanda að umdeilt þakskyggni á bakhlið forhúss sé sameign sumra, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 26/1994 né heldur fellst nefndin á að skilyrðum 2. tölul. sömu greinar séu uppfyllt. Það er álit kærunefndar að þakskyggni hússins í heild sé hluti af ytra byrði hússins sem sé í sameign allra eigenda þess.

Fyrir liggja í málinu útlitsteikningar hússins frá maí 1996 þar sem sýnt er m.a. þakskyggni á suðurhlið hússins. Í bókun byggingarnefndar frá 12. desember 1996 segir: "Sótt er um leyfi fyrir þegar gerðum breytingum í húsinu..." Var umsókn um útlitsbreytingu samþykkt af nefndinni. Í álitsbeiðni kemur fram að haldinn hafi verið húsfundur um utanhússframkvæmdir og hafi þar m.a. verið samþykkt að láta teikna umrætt þakskyggni upp. Á húsfundi sem haldinn var 20. október 1997 var samþykkt að fela Þ og R að ljúka hönnun á skyggninu og útbúa lýsingu svo unnt yrði að fá tilboð í verkið. Þá var samþykkt að framkvæmdin yrði undir eftirliti R. Í málinu liggur fyrir útboðslýsing, verklýsing, tilboðskrá og teikningar R um utanhússviðgerðir og málun að X nr. 12 frá því í október 1997. Í kafla 2.7. í verklýsingu sem ber heitið "Smíði skyggnis og handriða" segir: "Verktaki skal smíða og setja upp og ganga að fullu frá skyggni á suðurhlið verslunar- og skrifstofubyggingar." Í kafla 2.7.1. er síðan nánari verklýsing á frágangi skyggnisins. Á húsfundi sem haldinn var 19. júní 1998 var samþykkt að heimila S að hefja samningaviðræður við ákveðinn aðila á grundvelli tilboðs hans og með fyrirvara um fjármögnun verksins. Fundinum var frestað til 23. júní 1998 en þá var samþykkt að láta arkitekta hússins gera fullnaðarteikningu að skyggni á suðurhlið framhúss. Álitsbeiðandi kveðst ekki hafa verið á þessum húsfundum en gefur ekki á því neina skýringu. Leggur því kærunefnd til grundvallar í úrlausn sinni að til fundanna hafi verið löglega boðað. Kærunefnd telur ljóst að ákvörðun um byggingu þakskyggnis hafi verið tekin á húsfundi og sé álitsbeiðandi við hana bundinn. Þar af leiðandi ber álitsbeiðanda skylda til að taka þátt í kostnaði vegna byggingar skyggnisins, sem og viðhaldskostnaði. Á það skal bent að framkvæmdin hefur verið til undirbúnings og meðferðar um langt árabil. Teikningar samþykktar árið 1996 og framkvæmdir langt komnar árið 2000. Þá kemur fram í ársreikningum kostnaður vegna framkvæmdanna. Þyki því sýnt að álitsbeiðandi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda fram rétti sínum, sbr. m.a. grunnrök 2. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að þakskyggni á suðurhlið framhúss sé sameign allra.

Það er álit kærunefndar að ákvörðanataka vegna framkvæmdanna hafi verið lögmæt og ber álitsbeiðanda skylda til að taka þátt í kostnaði vegna byggingar skyggnisins, sem og viðhaldskostnaði.

 

 

Reykjavík, 21. nóvember 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta