Hoppa yfir valmynd
21. september 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 36/2001

 

Hagnýting sameignar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, ódagsettu en mótteknu 29. júlí 2001, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 3. september 2001, og athugasemdir álitsbeiðanda, ódagsettar, en mótteknar 10. september 2001, voru lagðar fram á fundi nefndarinnar 17. september 2001. Á fundi nefndarinnar 21. september 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 15, sem skiptist í þrjá eignarhluta. Gagnaðilar eru eigendur 2. hæðar og álitsbeiðandi 3. hæðar. Ágreiningur er um hagnýtingu sameignar.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé eftirfarandi:

Að viðurkennt verði að gagnaðilum sé óheimilt að geyma persónulega muni í sameign hússins.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðilar hafi komið fyrir fataskáp í sameiginlegum stigagangi fyrir íbúðir á 2. og 3. hæð. Þar geymi þau einnig barnavagn og hafi fjarlægt veggljós.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þau hafi fjarlægt alla sínu persónulegu muni úr stigaganginum og krefjast þess að álitsbeiðandi geri slíkt hið sama. Sé m.a. um að ræða fatahengi, ferðatöskur og skótau. Þá krefjast þau að frystikista álitsbeiðanda verði fjarlægð úr sameiginlegum kyndiklefa og viðurkennt að álitsbeiðanda sé óheimilt að geyma þar sorp. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að álitsbeiðanda sé óheimilt að halda kött í húsinu.

Í athugasemdum álitsbeiðanda varðandi kröfur gagnaðila kemur fram að umræddir persónulegir munir fyrir framan íbúðina standi á séreign hans, sbr. nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Þá komi það fyrir að álitsbeiðandi geymi sorppoka fyrir framan dyrnar sem hann hendi þegar hann fer út. Frystikistan sé ekki fyrir neinum en álitsbeiðandi býðst til að fjarlægja hana. Hvað varðar köttinn þá sé um sé að ræða persneskan kött sem ekki fari út úr íbúðinni.

 

III. Forsendur

Í 36. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús segir að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkaafnota tiltekinn hluta hennar. Í ákvæðinu kemur enn fremur fram að eigandi getur ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt. Þá segir í 4. mgr. 35. gr. sömu laga að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Upplýst er í málinu að eignaskiptayfirlýsing sú sem álitsbeiðandi vísar til sé ófrágengin verður hún því ekki lögð til grundvallar um séreignarhluta hans. Það er álit kærunefndar að málsaðilum sé óheimilt, án samþykkis hins, að geyma persónulega muni í sameign hússins.

Samkvæmt 13. tölul. A-liðar 41. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Þar sem af gögnum málsins verður ekki ráðið að fyrir liggi samþykki eigenda hússins fyrir kattahaldi þá er það álit kærunefndar að kattahald þar sé óheimilt.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að málsaðilum sé óheimilt að geyma persónulega muni í sameign hússins. Einnig er það álit kærunefndar að kattahald sé óheimilt í húsinu.

 

 

Reykjavík, 21. september 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Benedikt Bogason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta