Hoppa yfir valmynd
21. september 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 30/2001

 

Hagnýting sameignar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 19. júní 2001, beindi húsfélagið að X nr. 19, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við A og B, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 2. júlí 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 12. júlí 2001, var lögð fram á fundi nefndarinnar 22. ágúst. Á fundi nefndarinnar 21. september 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Fasteignin X nr. 19 skiptist í 7 eignarhluta. Ágreiningur er um hagnýtingu sameignar.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé eftirfarandi:

Að viðurkennt verði að gagnaðilum sé óheimilt að geyma persónulega muni í sameign hússins.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að á síðasta ári hafi verið haldinn húsfundur og hafi meiri hluti eigenda samþykkt að leyfa gagnaðilum að setja upp ljós og geyma persónulega muni á stigapalli. Fundargerð þess fundar hafi hins vegar ekki fundist. Á aðalfundi húsfélagsins 8. maí sl. hafi meiri hluti eigenda síðan samþykkt að óheimilt væri að geyma persónulega muni í sameign hússins. Gagnaðilar telji hins vegar að ákvörðun fyrri fundar sé bindandi.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að á húsfundi á síðasta ári hafi þeim verið veitt leyfi til að nýta rýmið undir stiganum. Íbúðin hafi nokkra sérstöðu þar sem hún sé eina íbúðin á jarðhæð. Fyrir framan íbúðina sé um 3 m² rými undir stiganum sem geti talist sérnotaflötur. Þar geymi gagnaðilar skótau auk þess sem þau hafi hengt þar upp myndir og sett upp veggljós.

 

III. Forsendur

Í málinu liggur fyrir fundarboð og fundargerð húsfundar sem haldinn var 8. maí 2001 þar sem m.a. var tekið fyrir "umgengnismál í sameign". Í fundargerðinni segir að atkvæðagreiðsla hafi farið fram um það hversu mikið af persónulegum munum mætti hafa í sameign. Fimm hafi greitt atkvæði um að óheimilt væri að geyma persónulega muni í sameign nema skraut og merkingu á eða í kringum hurðar. Þá hafi fjórir greitt atkvæði með því að hvorki mætti geyma skó né húsgögn í sameign.

Í 36. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús segir að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkaafnota tiltekinn hluta hennar. Í ákvæðinu kemur enn fremur fram að eigandi getur ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt. Þá segir í 4. mgr. 35. gr. sömu laga að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki.

Fyrir liggur að löglega boðaður húsfundur sem haldinn var 8. maí sl. samþykkti að óheimilt væri að geyma persónulega muni í sameign og afturkallaði þar með heimild gagnaðila til að nýta sameignarrými með þeim hætti sem hann hefur gert. Kærunefnd telur því að gagnaðilum sé óheimilt að geyma persónulega muni í sameign. Hins vegar er ekki að sjá að samþykkt hafi verið að gera gagnaðila að taka niður ljós sem fyrri húsfundur hafði samþykkt að hann mætti setja í sameigninni enda taldi hann það nauðsynlegt vegna bágrar lýsingar fyrir framan íbúðina.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðilum sé óheimilt að geyma persónulega muni í sameign.

 

 

Reykjavík, 21. september 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Benedikt Bogason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta