Mál nr. 19/2001
Á L I T
K Æ R U N E F N D A R F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A
Mál nr. 19/2001
Skipting kostnaðar.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 23. apríl 2001, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 26. apríl 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús.
Greinargerð gagnaðila, dags. 2. maí 2001, var lögð fram á fundi nefndarinnar 16. maí sl. Á fundi nefndarinnar 21. september 2001 var málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 8. Húsið skiptist í tvo eignarhluta, þ.e. neðri hæð í eigu gagnaðila og efri hæð í eigu álitsbeiðanda. Ágreiningur er um skiptingu kostnaðar.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða 50% af kostnaði við frágang á yfirborði lagnaskurðs.
Í álitsbeiðni kemur fram að í tíð fyrri eiganda hafi verið grafinn lagnaskurður frá húsi að bílskúr. Fyllt hafi verið í skurðinn en ekki gengið frá yfirborði hans. Á síðasta ári hafi álitsbeiðandi og gagnaðili gert með sér munnlegt samkomulag um að ljúka framkvæmdum og malbika yfir skurðinn. Samhliða þeirra framkvæmd hafi álitsbeiðandi ætlað að skipta um jarðveg fyrir framan sinn bílskúr og setja snjóbræðslukerfi og niðurfall. Það hafi hins vegar gagnaðili ekki ætlað að gera. Gagnaðili hafi þó samþykkt að taka þátt í kostnaðinum við að ganga frá skurðinum. Þegar til framkvæmda kom hafi gagnaðili ákveðið að setja þunnt lag af malbiki fyrir framan sinn skúr en neiti nú að taka þátt í kostnaði vegna frágangs skurðar sem hafi nánast allur verið fyrir framan bílskúr álitsbeiðanda. Skurðurinn sé um 17,6 m² og hafi kostnaðurinn numið 38.720 krónur kr. og krefur hann gagnaðila um 19.360 krónurkr., auk vaxta frá 1. desember 2000.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þegar álitsbeiðandi hafi tilkynnt honum þær framkvæmdir sem hann hygðist ráðast í hafi hann ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að fara í slíkar framkvæmdir sjálfur. Þegar kom að því að malbika hafi ræst úr fjárhagnum og hann ákveðið að malbika fyrir framan skúrinn sinn. Undirlagið hafi verið gömul olíumöl og því hefði verið ljótt að sjá aðeins malbikað öðrum megin. Kostnaður gagnaðila hafi numið 70.000 krónum. Gagnaðili bendir á að til þess að komast að sínum bílskúr þurfi hann að keyra yfir aðkeyrslu álitsbeiðanda og sé álitsbeiðandi að krefja hann um greiðslu kostnaðar við skurðinn og þann hluta af aðkeyrslu álitsbeiðanda sem hann keyri yfir til að komast að sínum skúr.
III. Forsendur
Samkvæmt 9. tölultl. 5. gr. laga, nr. 26/1994, um fjöleignarhús telst einkabílastæði fyrir framan bílskúr séreign. Í því felst að bílastæði málsaðila fyrir framan bílskúra þeirra er séreign hvors fyrir sig en aðkeyrsla að þeim að öðru leyti í sameign. Í málinu er ágreiningslaust að ekki hafi verið lokið við að ganga frá yfirborði lagnaskurðs sem grafinn hafði verið frá húsi að bílskúr. Kærunefnd telur að sá kostnaður við að koma lóðinni í það horf sem hún var í fyrir þær framkvæmdir sé sameiginlegur kostnaður eigenda að jöfnu í samræmi við hlutfallstölu. Kostnaður við einkabílastæði fyrir framan bílskúr hvors eigenda er að öðru leyti sérkostnaður viðkomandi bílskúrseiganda. Þar sem ekki liggja fyrir í málinu nein gögn né nægjanlega rökstuddar upplýsingar um hvernig bílastæðið hafi verið fyrir framkvæmdir er kærunefnd ekki í stakk búin að meta hvort kostnaður sá, sem álitsbeiðandi krefur gagnaðila um, sé eðlilegur.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að kostnaður við að koma séreignarbílastæðum í það horf sem þau voru í fyrir umræddar framkvæmdir sé sameiginlegur.
Reykjavík, 21. september 2001
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Benedikt Bogason