Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Alþjóðleg þátttaka Íslands til að koma í veg fyrir skattasniðgöngu

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að taka þátt í samstarfi sem lýtur að því að koma í veg fyrir alþjóðlega skattasniðgöngu. Markmiðið er að auka gagnsæi og styrkja skattframkvæmd í því skyni að allir framteljendur skili þeim sköttum til samfélagsins sem þeim ber.

Upplýsingaskiptasamningar

Baráttan gegn skattsvikum er ekki möguleg nema með alþjóðlegri samvinnu, sér í lagi um skipti á upplýsingum. Þátttaka Íslands í vinnu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) er mjög þýðingarmikil, en stofnunin hefur haft forgöngu um að þróa sameiginlegan staðal þar sem aðildarríki skuldbinda sig til þess að skiptast reglubundið á upplýsingum um fjármunalegar eignir og tekjur af þeim. Upplýsingaskiptin fara fram án sérstakrar beiðni að hálfu ríkjanna.

Ísland var meðal 52 ríkja sem undirrituðu samkomulag þann 29. október 2014 í Berlín um að taka upp þennan sameiginlega staðal. Auk þess að skiptast á upplýsingum í samræmi við staðalinn skuldbinda ríki sem staðfesta hann sig til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana svo þau geti staðið skil á upplýsingunum. Upplýsingaskiptin munu hefjast 2018 en Ísland er í hópi ríkja sem kallast „Early adopters group“, en í því felst ásetningur um að hefja upplýsingaskiptin ári fyrr, þ.e. á árinu 2017. Alls hafa 96 ríki gengist undir að hefja reglubundin skipti á upplýsingum í samræmi við staðalinn. Þegar upplýsingar á grundvelli hins nýja samræmda staðals OECD taka að berast til skattyfirvalda á næsta ári geta þær orðið kveikjan að því að skattyfirvöld óski eftir frekari gögnum á grundvelli upplýsingaskiptasamninga eða tvísköttunar­samninga um tiltekna skattaðila.

Ennfremur hefur Ísland tekið þátt í sameiginlegu átaki Norðurlandanna um gerð upplýsinga­skiptasamninga við lágskattaríki sem hófst árið 2006 og er nú lokið. Í höfn eru 44 samningar. Framangreindir upplýsingaskipta­samningar taka eingöngu til upplýsingaskipta samkvæmt beiðni sem þýðir að skattyfirvöld þurfa að hafa yfir að ráða lágmarksupplýsingum um skattaðilann svo að unnt sé að sinna beiðni um upplýsingar. Með þessum samningum víkkar net upplýsingaskiptasamninga verulega bæði fyrir Ísland og hin Norðurlöndin. Fyrir daga þeirra höfðu íslensk stjórnvöld nánast engin úrræði til að sannreyna upplýsingar um eignarhald á fyrirtækjum í eigu Íslendinga í lágskattaríkjum eða um tekjur eigenda sem af eignarhaldinu hlaust.

Þá hefur vilji stjórnvalda staðið til þess að greiða fyrir því að opinberar stofnanir sem fara með eftirlit og rannsóknir í skattamálum geti aflað gagna um fjármálalegar eignir skattskyldra aðila í skattaskjólum, en slík gögn hafa einnig verið boðin til kaups. Í samræmi við það var embætti skattrannsóknarstjóra heitið stuðningi vegna kaupa á gögnum sem boðin voru embættinu á árinu 2014 og var heimilda aflað á fjáraukalögum 2015 til kaupa á gögnum sem embætti skattrannsóknarstjóra taldi að gætu nýst embættinu og eftir atvikum öðrum stofnunum skattkerfisins. Voru þau gögn keypt á sl. ári, en það er viðkomandi stofnana að gera grein fyrir meðferð þeirra.

CFC löggjöf

Reglur um svokölluð CFC-félög (Controlled foreign corporation) tóku gildi í ársbyrjun 2010, en sú löggjöf er öflugt verkfæri skattyfirvalda í baráttunni við skattundanskot tengd lágskattaríkjum eða -svæðum. Þessar reglur ná til félaga, sjóða og stofnana sem staðsettar eru í lágskattaríki eða –svæðum sem eru í eigu eða undir stjórn íslensks eiganda, hvort heldur um er að ræða einstakling eða félag. Í lögunum er kveðið á um þann mælikvarða sem beita á við mat á því hvaða ríki eða svæði teljast til lágskattaríkja eða -svæða og er þar fyrst og fremst horft til hlutfalls tekjuskatts á hagnað félaga. Sé hlutfallið lægra en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á umrætt félag með skattalegt heimilisfesti hér á landi telst viðkomandi ríki vera lágskattaríki. Í dag er tekjuskatthlutfall íslenskra félaga 20%, en tveir þriðju hlutar þess er 13,3%.

Skattaleg meðferð á grundvelli CFC-reglna er sú að í tilviki félaga í eigu íslensks félags er samanlagður hagnaður félaganna skattlagður samkvæmt íslenskum reglum óháð því hvort hann hafi verið greiddur út til eigenda. Upplýsingum um eignarhaldið skal skilað árlega til ríkisskattstjóra. Sé eigandinn einstaklingur með skattalegt heimilisfesti hér á landi skulu greiðslur úr viðkomandi félagi skattlagðar sem atvinnurekstrartekjur, sem skattleggjast í tilviki einyrkja eins og launatekjur. CFC-reglurnar eiga hins vegar ekki við sé Ísland með tvísköttunarsamning eða alþjóðasamning við viðkomandi ríki. Þær ná ekki heldur til félaga í EES-ríki, EFTA-ríki eða í Færeyjum.

Reglur um milliverðlagningu

Nýjar reglur um milliverðlagningu, sem tóku gildi árið 2014, eru einnig öflugt verkfæri skattayfirvalda gegn skattasniðgöngu almennt, hvort heldur er um að ræða innlend félög eða erlend, þ.m.t. félög á lágskattasvæðum. Þær beinast að óeðlilegum viðskiptaháttum m.t.t. verðlagningar milli tengdra fyrirtækja, s.s. móður- og dótturfyrirtækja. Umfangsmiklar erlendar fjárfestingar á Íslandi eru gjarnan dæmi um löggerninga sem skattyfirvöld þurfa sérstaklega að skoða frá sjónarhóli milliverðlagningar.

BEPS áætlunin – aukin alþjóðleg samvinna

Í október 2015 kynnti Efnahags- og framfarastofnunin OECD ásamt leiðtogum G20 ríkjanna lokaskýrslu um hina svokölluðu BEPS áætlun (Base Erosion and Profit Shifting) sem unnið hafði verið að frá árinu 2013, með virkri þátttöku Íslands. Í skýrslunni er að finna sérstaka aðgerðaráætlun sem hefur það að markmiði að útfæra lausnir gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað hjá alþjóðafyrirtækjum þar sem skattaskipulagning er með þeim hætti að skattgreiðslur fyrirtækjanna verða mjög lágar, ef þá einhverjar. Þetta er unnt að gera með því að nýta glufur sem fyrirfinnast í mismunandi skattareglum ríkja í samspili við tvísköttunarsamninga með þeim afleiðingum að tilfærsla verður á hagnaði umræddra fyrirtækja frá háskattaríkjum til lágskattaríkja eða –svæða. Þetta þýðir að ríkið þar sem hagnaðurinn myndast í raun og eignast þannig skattlagningarrétt, kann að verða af verulegum skatttekjum.

Aðgerðaráætlun BEPS skiptist í 15 mismunandi hluta þar sem skilgreindir eru þeir þættir sem finna þarf lausn á. Þeir snúa ýmist að innanlandslöggjöf ríkja og/eða breytingum á orðalagi tvísköttunarsamninga. Þar má nefna skattalega þætti eins og aukna upplýsingagjöf milli landa um milliverðlagningu stórra fyrirtækja, sérstök ákvæði í tvísköttunarsamningum varðandi misnotkun þeirra, takmörkun á vaxtafrádrætti (þunn eiginfjármögnun), styrkingu á CFC-reglum, skýrara ákvæði í tvísköttunarsamningum um hver sé hinn raunverulegi eigandi félags svo eitthvað sé nefnt.

Frá því að BEPS skýrslan kom út hafa sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins unnið að kortlagningu og mögulegri útfærslu einstakra þátta, bæði hvað varðar gildandi löggjöf og tvísköttunarsamninga. Ljóst er að grípa þarf til lagabreytinga til að uppfylla kröfur OECD og er gert ráð fyrir að þær munu líta dagsins ljós á komandi haustþingi. Tillögur OECD kalla einnig á breytingar á tvísköttunarsamningum og -samningsmódeli Íslands, en útfærsla þeirra breytinga eru enn í vinnslu hjá OECD með virkri þátttöku sérfræðinga ráðuneytisins í ýmsum nefndum og vinnuhópum stofnunarinnar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta