Nr. 524/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 27. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 524/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21090044
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik og málsmeðferð
Þann 8. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2020, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. október 2020. Þann 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 373/2020, dags. 29. október 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigögnum þann 14. desember 2020. Þann 14. janúar 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 9/2021. Þann 14. september 2021 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgigögnum.
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Krafa kæranda er jafnframt reist á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir á því að í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020 hafi verið lagt til grundvallar að það hafi fundist fyrirferð í legi hennar og að um væri að ræða góðkynja vöðvahnút. Nú liggi hins vegar fyrir að kærandi sé með æxli sem virðist stækka með hverjum degi sem líði, enda sé ekki hægt að aðgreina æxlið frá legi hennar. Kærandi leggi fram með beiðni sinni komunótu frá sérfræðilækni í kvenlækningum sem staðfesta það. Kærandi telur að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn þessa máls og nauðsynlegt sé að skoða betur með tilliti til þess að heilsu hennar hafi hrakað verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp. Aðstæður kæranda hafi því breyst verulega frá því að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur telur kærandi að góðkynja vöðvahnúturinn sem hafi í raun verið æxli geti stefnt lífi hennar í hættu. Því hafi heilsufar hennar verið mun verra en úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi gert ráð fyrir. Kærandi telur að þessi nýju gögn séu til þess fallin að varpa ljósi á að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Þá telur kærandi að brottvísunin muni valda henni sálrænum skaða. Óljóst sé hvort heilsa kæranda sé með þeim hætti að hún þoli eða leyfi brottvísun á þessu stigi með öllu því sem slíkri brottvísun tilheyrir. Meðfylgjandi sjúkragögn bendi til þess að frekari rannsóknir, greiningar og aðgerðir séu nauðsynlegar til þess að meta hættuna sem stafi af æxlinu en það liggi ekki fyrir hvort slík læknisþjónusta sé aðgengileg í heimaríki hennar. Þá vísar kærandi til þess að heilsufar sé einn þeirra þátta sem stjórnvöldum beri m.a. að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um. Kærandi vísar til athugasemda við frumvarp laga um útlendinga þar sem fram komi að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljist lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Samkvæmt framansögðu telur kærandi að aðstæður hennar nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um. Fara þurfi fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda, enda hafi aðstæður breyst verulega og ljóst sé að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um heilsufar hennar. Þá beri að hafa í huga að alvarlega veikir einstaklingar séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærandi að það sé andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum ef ekki yrði kannað frekar mat sérfræðilæknis í kvenlækningum, á líkamlegri heilsu hennar á þeim grundvelli að gögnin væru of seint fram komin.
Í ljósi alls framangreinds séu skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í málinu þar sem hagsmunir kæranda séu í húfi. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í málinu á fyrri stigum. Kærunefnd beri að endurupptaka málið og kanna til hlítar framlögð gögn og hvaða áhrif þau kunni að hafa á niðurstöðu þess. Þá telur kærandi að fullt tilefni sé til að endurupptaka málið með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmuna þeim sem séu í húfi í málinu og hvernig þessar nýju upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 8. október 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að henni bæri að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að skoðun hjá sérfræðingi í kvenlækningum frá 30. apríl 2021, hafi leitt í ljós að kærandi væri með tólf sentimetra æxli sem virðist fara stækkandi. Ásamt endurupptökubeiðni lagði kærandi fram heilsufarsgögn. Í gögnunum kemur m.a. fram að kærandi hafi verið með með stóran vöðvahnút (e. myoma) í legi sem valdi versnandi einkennum frá kvið. Segulómun hafi leitt í ljós hnút sem hafi stækkað mikið frá síðustu rannsókn frá 1. febrúar 2019. Legið hafi þá náð upp að nafla en teygi sig nú vel upp fyrir naflann. Þá hafi fimm aðrir hnútar sést í leginu. Þá hafi sést litlar blöðrur (e. cysts) á eggjastokkum.
Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hefði greinst með fyrirferð í legi sem greint hafi verið sem góðkynja vöðvahnútur. Þá kom fram í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020 að viðtal kæranda við sálfræðing hafi leitt í ljós að hún hafi sýnt töluverð einkenni áfallastreitu, kvíða og þunglyndis. Það er mat kærunefndar að framangreind heilsufarsgögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og sé aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni. Ekki verður af framlögðum gögnum lesið að vöðvahnúturinn sé illkynja eða að heilsu kæranda hafi hrakað verulega vegna þess að hann hafi stækkað frá fyrri skoðun. Þá var kæranda leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 28. september 2021, um framlagningu frekari gagna í málinu, t.a.m. uppfærðra heilsufarsgagna. Í svari frá lögmanni kæranda, dags. 5. október 2021, kemur fram að kærandi geri ekki ráð fyrir að leggja fram ný gögn að svo stöddu. Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020, kemur fram að kæranda standi til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki en samkvæmt gögnum sé aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli talsvert betra en á strjálbýlli svæðum. Þá standi kæranda til boða sálfræðiaðstoð í heimaríki, bæði á sjúkrahúsum og stofum. Kærunefnd telur að þrátt fyrir framangreind heilsufarsgögn, sem bendi til þess að þeir vöðvahnútar í legi sem kærandi hefur glímt við hafi stækkað, sé ekki um að ræða nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið.
Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Þorbjörg I. Jónsdóttir Sindri M. Stephensen