Ungmennafulltrúi valinn á sviði loftslagsmála
Aðalbjörg Egilsdóttir var í gærkvöldi kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála. Kjörið fór fram á fulltrúaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga í Hinu húsinu. Aðalbjörg kemur til með að sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd annan til þrettánda desember næstkomandi og taka þátt í störfum ráðstefnunnar í umboði íslenskra ungmenna.
Aðalbjörg er menntaður líffræðingur og starfar hjá Náttúrustofu Vesturlands. Þá situr Aðalbjörg í Stúdentaráði Háskóla Íslands og er forseti Umhverfis- og samgöngunefndar ráðsins.
Í framboðsræðu sinni talaði Aðalbjörg fyrir mikilvægi endurheimtar vistkerfa og að ungu fólki sé hleypt að ákvarðanatöku um loftslagsmál.
„Ég er þakklát fyrir að fá vettvang til að nýta þekkingu mína á umhverfismálum í þágu ungs fólks og legg áherslu á að rödd okkar ungmenna verði áberandi á ráðstefnunni. Ég átta mig vel á þeim hindrunum sem eru í vegi fyrir árangri á sviði loftslagsmála og að mörgu leyti hvaða leiðir standa til boða í baráttunni fyrir betri heimi. Til þess að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnir heimsins hafa sett sér þarf kúvendingu í loftslagsmálum og mun ég berjast fyrir því að hagsmunir alls ungs fólks verði í fyrirrúmi,” er haft eftir Aðalbjörgu í tilkynningu frá Landssambandi ungmennafélaga.
Þetta er í annað sinn sem Ísland skipar slíkan fulltrúa, en Esther Hallsdóttir var kjörin ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda í ágúst síðastliðnum.