Samþykkt nr. 108 um persónuskírteini sjómanna
Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt
1. gr.
1. Samþykkt þessi tekur til allra sjómanna, sem gegna hvers konar störfum á skipi, öðru en herskipi, sem skrásett er í landi, sem samþykkt þessi tekur til, og venjulega er í siglingum.
2. Ef vafi leikur á því, hvort einhverjir hópar manna skuli teljast sjómenn í merkingu þessarar samþykktar, skal úr því skorið af þar til bæru stjórnvaldi í hverju landi, að höfðu samráði við samtök útgerðarmanna og sjómanna, sem hlut eiga að máli.
2. gr.
1. Sérhvert aðildarríki, sem samþykkt þessi tekur til, skal gefa hverjum þegni sínum, sem er sjómaður, skírteini í samræmi við ákvæði 4. gr. þessarar samþykktar, ef hann óskar þess. Ef óhentugt er að gefa út slíkt skírteini til handa sérstökum flokkum sjómanna, getur aðildarríki þó í þess stað gefið út vegabréf, sem greini að eigandi þess sé sjómaður og skal slíkt vegabréf hafa sama gildi og persónuskírteini sjómanns að því er tekur til þessarar samþykktar.
2. Sérhvert aðildarríki, sem samþykkt þessi tekur til, getur gefið út persónuskírteini til handa hverjum öðrum sjómanni, sem sækir um það, ef hann annað hvort vinnur á skipi, sem skráð er í landi þess, eða er skráður þar á vinnumiðlunarskrifstofu.
3. gr.
Persónuskírteini sjómanns skal ávallt vera í vörslu hans.
4. gr.
1. Persónuskírteini sjómanns skal vera einfalt að gerð, úr haldgóðu efni og þannig lagað að allar breytingar á því séu augljósar.
2. Í persónuskírteini sjómanns skal greina nafn og stöðu þess stjórnvalds, er gefur það út, hvenær og hvar það er gefið út og yfirlýsingu um að skírteinið sé persónuskírteini sjómanns í merkingu þessarar samþykktar.
3. Persónuskírteini sjómanns skal hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar um eiganda þess:
a. fullt nafn (fyrsta og síðasta nafn, þar sem það á við);
b. fæðingardag og fæðingarstað;
c. þjóðerni;
d. sérkenni;
e. mynd; og
f. undirskrift, eða fingrafar þumalfingurs, ef skírteinishafi er óskrifandi.
4. Ef aðildarríki gefur út persónuskírteini til handa erlendum sjómanni, er ekki nauðsynlegt að greina þjóðerni hans. Eigi skal heldur það, sem þar er skráð um þjóðerni, talið fullkomin sönnun um það efni.
5. Í persónuskírteini sjómanns skal greinilega tekið fram hversu lengi það gildi.
6. Að teknu tilliti til ákvæða undanfarandi málsgreina, skal form og efni persónuskírteinis sjómanns nánar ákveðið af aðildarríki, sem gefur það út, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og sjómanna.
7. Með lögum eða reglugerðum má kveða nánar á um önnur atriði, sem tekin skulu í persónuskírteini sjómanns.
5. gr.
1. Hverjum þeim sjómanni, sem hefur gilt persónuskírteini sjómanns, gefið út af þar til bæru stjórnvaldi í landi, sem þessi samþykkt tekur til, skal heimilt að koma aftur til þess lands.
2. Þannig skal tekið við sjómanni í a.m.k. eitt ár eftir að umrætt skírteini er útrunnið samkvæmt ákvæði þess.
6. gr.
1. Sérhvert aðildarríki skal leyfa sjómanni, sem hefur gilt persónuskírteini sjómanns, inngöngu í land, sem samþykkt þessi tekur til, þegar þess er óskað vegna landgönguleyfis um stundarsakir meðan skip er í höfn.
2. Ef í persónuskírteini sjómanns er rúm fyrir athugasemdir þar um, skal aðildarríki einnig leyfa sjómanni með gilt sjómannsskírteini inngöngu í land, sem samþykkt þessi tekur til, ef hann óskar þess:
a. til þess að komast á skip sitt eða flytjast á annað skip;
b. til þess að ferðast yfir landið til þess að ná skipi sínu í öðru landi eða vegna heimsendingar;
c. í öðrum þeim tilgangi, sem þar til bær stjórnvöld í hlutaðeigandi aðildarríki viðurkenna.
3. Áður en aðildarríki veitir leyfi til inngöngu í land þess í því skyni, sem greint er í undanfarandi málsgrein, getur það krafist fullnægjandi sannana, þ.á m. skjallegra, frá sjómanninum, útgerðarmanni eða hlutaðeigandi umboðsmanni eða ræðismanni, um áform sjómannsins og möguleika hans til að koma þeim fram. Aðildarríkið getur einnig takmarkað dvöl sjómannsins við tíma, sem telst nægur í þeim tilgangi, sem um er að ræða.
4. Ekkert í þessari grein má skilja þannig að það skerði rétt aðildarríkis til þess að hindra komu hvers sem er til landsins eða dvöl hans þar.
7. gr.
Formlegar fullgildingar á samþykkt þessari skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.
8. gr.
1. Þessi samþykkt skal einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.
2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum.
3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.
9. gr.
1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skráningardegi hennar.
2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að liðnu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
10. gr.
1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
2. Þegar framkvæmdastjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.
11. gr.
Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skráningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.
12. gr.
Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.
13. gr.
1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt allri eða hluta hennar skal:
a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 9. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma, er það gerðist;
b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi; enda sé ekki öðruvísi ákveðið í hinni nýju samþykkt.
2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er að formi og efni, hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana, en ekki hina nýju samþykkt.
14. gr.
Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.