Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 182 um bann við barnavinnu í sinniverstu mynd
og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,sem kom saman til 87. þingsetu sinnar í Genf 1. júní 1999 að kvaðningu stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og með hliðsjón af því að þörf er á að setja ný viðmið um að banna barnavinnu í sinni verstu mynd og afnema hana og að veita ber slíkum aðgerðum sem mestan forgang bæði innan einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu og aðstoð, til fyllingar samþykkt og tilmælumum lágmarksaldur við vinnu frá 1973, sem áfram eru grundvallarviðmið um barnavinnu og að teknu tilliti til þess að raunverulegt afnám barnavinnu í sinni verstu mynd krefst tafarlausra og víðtækra aðgerða þar sem tillit verði tekið til mikilvægis grundvallarmenntunar börnum að kostnaðarlausu og þess að taka verður börn sem þannig er ástatt um úr allri slíkri vinnu og sjá þeim fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun um leið og brugðist er við þörfum fjölskyldna þeirra og sem minnist ályktunar um afnám barnavinnu sem samþykkt var á  83. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1996, sem gerir sér grein fyrir að barnavinna er að miklu leyti afleiðing fátæktar og að langtímalausn á þessu vandamáli felst í viðvarandi hagvexti sem leiðir til félagslegra framfara, einkum til afnáms fátæktar og að allir eigi kost á menntun og sem minnist Samningsins um réttindi barnsins sem samþykktur var af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 20. nóvember 1989, sem minnist yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnuog  ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir sem samþykktar voru á 86. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1998, sem minnist þess að aðrir alþjóðasáttmálar taka til barnavinnu í nokkrum verstu myndum sínum, einkum samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu frá 1930 og samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám þrælahalds og þrælasölu frá 1956 og sem hefur komið sér saman um ákveðnar tillögur varðandi barnavinnu, sem er fjórða mál á dagskrá þingsins og að tekinni ákvörðun um að tillögur þessar skuli birtast í formi alþjóðasáttmála, gerir hinn sautjánda júní árið 1999 eftirfarandi samþykkt sem vísa má til sem Samþykktar um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999.

   
1. gr.
     Hvert aðildarríki sem fullgildir samþykkt þessa skal þegar í stað gera virkar ráðstafanir til að tryggja bann við og afnám barnavinnu í sinni verstu mynd og skal litið á það sem brýnt verkefni.
 
2. gr.

     Í samþykkt þessari á orðið barn við um hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri.

3. gr.

     Í samþykkt þessari á hugtakið „barnavinna í sinni verstu mynd“ við um eftirfarandi:

(a) Hvers konar þrælkun eða framkvæmd sem jafna má til þrælkunar, svo sem sölu og verslunar með börn, skuldaránauð, aðra ánauð og nauðungar- eða skylduvinnu, þar með talið að börn séu neydd eða skylduð til þátttöku í vopnuðum átökum.

(b) Notkun, öflun og framboð barna til vændis, til framleiðslu á klámi eða til klámsýninga.

(c) Notkun, öflun og framboð barna til ólöglegra athafna, einkum til framleiðslu og verslun með ávana- og fíkniefni eins og þau eru skilgreind í viðeigandi alþjóðasáttmálum.

(d) Störf sem vegna eðlis síns eða þeirra aðstæðna sem þau eru unnin við eru líkleg til að skaða heilsu, öryggi eða siðferði barna.

4. gr.

1. Tilgreina skal hvaða störf falla undir d-lið 3. gr. með landslögum eða reglum eða af þar til bæru yfirvaldi að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks og með tilliti til viðeigandi alþjóðlegra viðmiða, einkum 3. og 4. greinar tilmæla um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999.

2. Þar til bært yfirvald skal að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks tilgreina hvar störf sem þannig hafa verið ákvörðuð eru stunduð.

3. Skrá um þau störf sem tilgreind eru samkvæmt 1. lið þessarar greinar skal yfirfarin reglulega og endurskoðuð eins og þörf krefur í samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks.

5. gr.

     Hvert aðildarríki skal að höfðu samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks koma á viðeigandi tilhögun til að fylgjast með framkvæmd þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar eða fela viðeigandi aðilum að gera það.

6. gr.

1. Hvert aðildarríki skal hafa sem forgangsverkefni að setja sér og framkvæma aðgerðaráætlanir til að uppræta barnavinnu í sinni verstu mynd.

2. Slíkar aðgerðaáætlanir skulu gerðar og framkvæmdar í samráði við viðeigandi stofnanir ríkisvaldsins og samtök atvinnurekenda og launafólks, og taka eins og við kann að eiga tilit til sjónarmiða annarra hópa sem þær varða.

7. gr.

1. Hvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja  innleiðingu og framkvæmd þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar og framfylgja þeim, þar á meðal með því að mæla fyrir um refsiviðurlög og beitingu þeirra, eða önnur viðurlög eins og við kann að eiga.

2. Með tilliti til mikilvægis menntunar við að uppræta barnavinnu skal hvert aðildarríki gera virkar ráðstafanir innan ákveðins frests til að:

(a) koma í veg fyrir að börn séu sett í barnavinnu í sinni verstu mynd,

(b) veita nauðsynlega og viðeigandi beina aðstoð til að taka börn úr barnavinnu í sinni verstu mynd og til endurhæfingar þeirra og félagslegrar aðlögunar,

(c) tryggja aðgang að grundvallarmenntun barna þeim að kostnaðarlausu og starfsmenntun hvarvetna þar sem það er nauðsynlegt og viðeigandi, fyrir öll börn sem tekin eru úr barnavinnu í sinni verstu mynd,

(d) finna börn sem háð eru sérstakri áhættu og ná til þeirra og

(e) taka tillit til sérstakra aðstæðna stúlkna.

3. Hvert aðildarríki skal tilgreina það yfirvald sem ber ábyrgð á innleiðingu þeirra ákvæða sem ætlað er að tryggja virkni samþykktar þessarar.

8. gr.

     Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að aðstoða hvert annað við að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktar þessarar með aukinni alþjóðlegri samvinnu og/eða aðstoð, þar með talið stuðningi við félagslega og efnahagslega uppbyggingu, áætlunum til afnáms  fátæktar og menntun fyrir alla.

     
9. gr.
     Formlegar fullgildingar þessarar samþykktar skulu sendar forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.
   
10. gr.
1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
2. Hún skal öðlast gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
3. Síðar gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.
11. gr.

1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynning um uppsögn skal send forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

2. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í 1. mgr., rétt þann til uppsagnar sem þar er  kveðið á um, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en er síðan heimilt að segja henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

12. gr.

1. Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum stofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar sem honum berst skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gengur í gildi.

13. gr.

     Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

14. gr.

     Þegar stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

 

15. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt sem breytir þessari samþykkt að nokkru eða öllu leyti og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg skal:

(a) fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist.

(b) aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.

2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

16. gr.

     Enskur og franskur texti þessarar samþykktar er jafngildur.



Tilmæli nr. 190

Tilmæli um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana

     Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 87. þingsetu sinnar í Genf 1. júní 1999 að kvaðningu stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, sem undirritað hefur Samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd frá 1999 og sem hefur ákveðið að samþykkja ákveðnar tillögur varðandi barnavinnu, sem er fjórða mál á dagskrá þingsins og sem hefur ákveðið að tillögur þessar verði í formi tilmæla, til fyllingar Samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999, samþykkir hinn sautjánda júní 1999 eftirfarandi tilmæli, sem vísa má til sem tilmæli um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999.

1. ákvæði tilmæla þessara eru til fyllingar samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd 1999 (hér á eftir nefnd samþykktin), og ber að beita þeim jafnhliða henni.

I. AÐGERÐAÁÆTLANIR

2. Aðgerðaáætlanir, sem um er fjallað í 6. gr. samþykktarinnar, ætti að ákveða og hrinda í framkvæmd með hraði, í samráði við viðeigandi ríkisstofnanir og samtök atvinnurekenda og launafólks að teknu tilliti til sjónarmiða þeirra barna sem barnavinna í sinni verstu mynd kemur beint niður á og fjölskyldna þeirra og eins og við getur átt annarra hópa sem vinna að markmiðum samþykktarinnar og tilmæla þessara. Með slíkum áætlunum ætti meðal annars að stefna að því að:

(a) finna og fordæma barnavinnu í sinni verstu mynd,

(b) að koma í veg fyrir að börn séu sett í  barnavinnu í sinni verstu mynd, taka þau úr slíkri vinnu, vernda þau fyrir hefndaraðgerðum og sjá þeim fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun með ráðstöfunum sem beinast að þörfum þeirra til menntunar sem og líkamlegum og sálfræðilegum þörfum þeirra;

(c) veita sérstaka athygli:

     (i) ungum börnum,

     (ii) stúlkubörnum,

     (iii) því vandamáli sem felst í duldum vinnuaðstæðum þar sem stúlkur búa við sérstaka áhættu,

     (iv) öðrum hópum barna sem þarfnast sérstakrar verndar eða hafa sérstakar þarfir,

(d) finna samfélög þar sem börn búa við sérstaka áhættu, ná til þeirra og starfa með þeim,

(e) upplýsa almenning og gera hann meðvitaðan um vandann, og nýta almenningsálit og hópa sem láta sig slíkt varða, þar á meðal börn og fjölskyldur þeirra.

 

II. HÆTTULEG STÖRF

3. Þegar ákvarðað er hvaða vinna fellur undir d-lið 3. gr. samþykktarinnar og skilgreint hvar slík vinna er stunduð ætti meðal annars að líta til:

(a) vinnu þar sem börn eiga á hættu líkamlegt eða sálrænt ofbeldi eða kynferðislega misnotkun,

(b) vinnu neðanjarðar eða undir vatnsyfirborði, í hættulegri hæð eða í þröngu rými,

(c) vinnu við hættulegar vélar, búnað eða verkfæri eða þar sem þung vara er meðhöndluð eða flutt með handafli,

(d) vinnu við heilsuspillandi aðstæður þar sem börnum er til dæmis hætta búin af efnum, skaðvöldum eða vinnsluferlum, hitastigi, hávaðastigi eða titringi sem spillt getur heilsu þeirra,

(e) vinnu við sérstaklega erfiðar aðstæður, svo sem langan vinnutíma, næturvinnu eða vinnu þar sem barn er með óréttmætum hætti bundið við vinnustað sinn.

4. Að því er snertir þá vinnu sem vísað er til í d-lið 3. gr. samþykktarinnar og 3. grein hér að framan gætu landslög eða reglur eða þar til bært yfirvald, heimilað starf eða vinnu frá 16 ára aldri að höfðu samráði við viðkomandi samtök atvinnurekenda og launafólks með þeim skilyrðum að gætt sé til hlítar heilsu, öryggis og siðferðis þeirra barna sem í hlut eiga og að þeim hafi með fullnægjandi hætti verið veittar sérstakar leiðbeiningar eða starfsþjálfun í viðkomandi grein.

III. Framkvæmd

5. (1) Safna ætti og halda við ítarlegum upplýsingum og tölfræðilegum gögnum um eðli og umfang barnavinnu, til að mynda grundvöll fyrir ákvörðun forgangsverkefna sem miða að afnámi barnavinnu í aðildarríki, einkum til að banna og afnema barnavinnu í sinni verstu mynd.

     (2) Að því marki sem unnt er þyrftu upplýsingarnar og hin tölfræðilegu gögn að fela í sér sundurliðaðar uppýsingar eftir kynferði, aldri, starfi, atvinnugrein, atvinnustöðu, skólasókn og staðsetningu. Taka ætti tillit til þess hversu mikilvæg fæðingarskráning er, þar á meðal útgáfa fæðingarvottorða.

     (3) Taka ætti saman og halda við upplýsingum um brot gegn landslögum um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar.

6. Taka ætti réttmætt tillit til friðhelgis einkalífs við söfnun og meðferð upplýsinga þeirra og gagna sem fjallað er um í 5. grein hér að framan.

7. Senda ætti Alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega þær upplýsingar sem safnað er samkvæmt ákvæðum 5. greinar.

8. Aðildarríki ættu að koma á eða tilgreina viðeigandi tilhögun innanlands til að fylgjast með framkvæmd landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar,  að höfðu samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks.

9. Aðildarríki ættu að tryggja að þau yfirvöld sem bera ábyrgð á að framkvæma reglur landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar hafi samstarf sín á milli og samræmi störf sín.

10. Ákvarða ætti í landslögum eða reglugerðum eða af þar til bæru yfirvaldi, hverja draga ber til ábyrgðar ef ákvæðum landslaga um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar er ekki fylgt.

11. Aðildarríki ættu að því marki sem samræmist landslögum að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu sem miðar að banni við og afnámi barnavinnu í sinni verstu mynd og afnema hana, þar sem mikið liggur við að það verði gert, með því að:

(a) safna saman og skiptast á upplýsingum um refsilagabrot, þar á meðal brot tengd skipulagðri alþjóðlegri samvinnu,

(b) finna og sækja til saka þá sem fást við sölu barna og verslun með börn eða nýtingu, útvegun eða framboð á börnum til ólögmætrar starfsemi, til vændis, framleiðslu á klámi eða til klámsýninga,

(c) skrá þá sem slík brot fremja.

12. Aðildarríki ættu að kveða svo á að eftirtalin barnavinna í sinni verstu mynd feli í sér refsilagabrot:

(a) þrælkun í hvaða formi sem er eða framkvæmd sem er áþekk þrælkun, svo sem sala og verslun með börn, skuldaránauð, önnur ánauð og nauðungar- eða skylduvinna, þar með talið að börn séu neydd eða skylduð til þátttöku í vopnuðum átökum,

(b) nýting, öflun eða framboð á barni til vændis, til framleiðslu á klámi eða til klámsýninga og

(c) nýting, öflun eða framboð á barni til ólöglegra athafna, einkum til framleiðslu og verslunar með ávana- og fíkniefni eins og þau eru skilgreind í viðeigandi alþjóðasáttmálum, eða til athafna sem fela í sér ólöglega meðferð eða notkun á skotvopnum eða öðrum vopnum.

13. Aðildarríki ættu að tryggja að viðurlögum, þar með talið ef við getur átt refsiviðurlögum, sé komið fram vegna brota gegn landslögum um bann við störfum af hverju því tagi sem fjallað er um í d-lið 3. gr. samþykktarinnar og afnám slíkra starfa.

14. Aðildarríki ættu jafnframt að sjá til þess með hraði að þar sem við á séu fyrir hendi refsiréttarleg og borgaraleg úrræði og stjórnsýsluúrræði til að tryggja að landslögum um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar sé framfylgt með virkum hætti, svo sem með sérstöku eftirliti með fyrirtækjum sem nýtt hafa sér barnavinnu í sinni verstu mynd og ef um er að ræða ítrekuð brot að tekið sé til athugunar að afturkalla rekstrarleyfi tímabundið eða til frambúðar.

15. Aðrar ráðstafanir sem miða að banni við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnámi hennar gætu meðal annars falið í sér að:

(a) upplýsa almenning, gera hann meðvitaðan um vandann og fá liðveislu hans, þar á meðal forystumenn í landsmálum og sveitastjórnarmálum, þingmenn og dómara,

(b) fá til liðs samtök atvinnurekenda og launafólks og almannasamtök og veita þeim leiðsögn,

(c) veita þeim opinberu starfsmönnum sem um þessi mál fjalla, einkum eftirlitsmönnum og löggæslumönnum, svo og öðru viðkomandi fagfólki, viðeigandi þjálfun,

(d) sjá til þess að þeir ríkisborgarar aðildarríkis sem fremja afbrot samkvæmt landslögum þess um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og afnám hennar verði sóttir til saka í heimalandi sínu, jafnvel þótt slík brot hafi verið framin í öðru landi,

(e) einfalda lagalega og stjórnsýslulega málsmeðferð og tryggja að hún sé viðeigandi og tafarlaus,

(f) hvetja til stefnumótunar með aðgerðum sem miði að því að ná fram markmiðum samþykktarinnar,

(g) fylgjast með og kynna opinberlega þær starfsaðferðir sem best hafa gefist við afnám barnavinnu,

(h) kynna opinberlega lagaákvæði eða aðrar ráðstafanir um barnavinnu á mismunandi tungumálum eða mállýskum,

(i) koma á sérstökum kæruleiðum og gera ráðstafanir til að vernda gegn mismunun og hefndaraðgerðum þá sem löglega koma upp um brot gegn ákvæðum samþykktarinnar, og koma á aðstoðarleiðum eða sambandsstöðvum og umboðsmannaembættum,

(j) gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta innra skipulag menntakerfisins og þjálfa kennara til að uppfylla þarfir drengja og stúlkna,

(k) taka svo sem unnt er í aðgerðaáætlunum í hverju landi tillit til:

     (i) þarfa foreldra og fullorðinna í fjölskyldum barna er starfa við aðstæður sem samþykktin tekur til, fyrir atvinnusköpun og starfsmenntun og

     (ii) þess að foreldrar verða að vera meðvitaðir um það vandamál sem vinna barna við slíkar aðstæður er.

16. Aukin alþjóðleg samvinna og/eða aðstoð aðildarríkjanna í milli til að banna og afnema í raun barnavinnu í sinni verstu mynd ætti að styrkja það sem gert er innanlands og getur eftir því sem við á verið mótuð og framkvæmd í samráði við samtök atvinnurekenda og launafólks. Slík alþjóðleg samvinna og/eða aðstoð ætti að fela í sér:

(a) að nauðsynleg framlög verði veitt til framkvæmdaáætlana innanlands og á alþjóðavettvangi,

(b) gagnkvæma lagalega aðstoð,

(c) tæknilega aðstoð, þar með talið upplýsingaskipti,

(d) stuðning við félagslega og efnahagslega uppbyggingu, útrýmingu fátæktar og almenna menntun.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta