Samþykkt nr. 91 um orlof með launum fyrir farmenn (endurskoðuð 1949)
Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt
Samþykkt nr. 91 um orlof með launum fyrir farmenn (endurskoðuð 1949)
Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, saman komið til 32. þingsetu sinnar í Genf 8. júní 1949 eftir kvaðningu stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hefur samþykkt ákveðnar tillögur varðandi endurskoðun að nokkru á samþykktinni frá 1946 um orlof með launum fyrir farmenn, sem gerð var á 28. þingi þess, en þetta mál er nú undir 12. dagskrárlið þingsins, og þar sem það álítur, að tillögur þessar beri að gera í formi alþjóðasamþykktar, gerir það í dag, 18. júní 1949, svo hljóðandi samþykkt, sem nefna ber Samþykkt frá 1949 um orlof með launum fyrir farmenn (endurskoðuð).
1. gr.
1. Samþykkt þessi tekur til allra vélknúinna hafskipa, sem stunda flutninga á mönnum eða munum í atvinnuskyni og skráð eru innan landsvæðis, sem samþykkt þessi tekur til, hvort sem þau eru í eigu hins opinbera eða einstaklinga.
2. Í lögum hvers lands eða reglugerðum skal ákveðið, hvenær skip skuli talin hafskip.
3. Samþykkt þessi tekur ekki til:
a. tréskipa af frumstæðri gerð, svo sem „dhow“ og „junk“;
b. skipa, sem stunda fiskveiðar eða störf nátengd þeim, selveiðar eða hliðstæða atvinnu;
c. skipa, sem notuð eru í árósum.
4. Með lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum má undanskilja skip, sem eru innan við 200 brúttó rúmlestir, ákvæðum þessarar samþykktar.
2. gr.
1. Samþykkt þessi tekur til allra þeirra, sem ráðnir eru til hvers konar starfa á skipi, nema:
a. leiðsögumanna, sem ekki tilheyra skipshöfninni;
b. lækna, sem ekki tilheyra skipshöfninni;
c. hjúkrunarliðs og annars starfsfólks, sem einungis stundar hjúkrun og önnur störf til aðhlynningar sjúkum, en tilheyrir ekki skipshöfninni;
d. fólks, sem vinnur eingöngu fyrir eigin reikning eða fær í laun aðeins hluta af ágóða eða tekjum;
e. fólks, sem ekki fær nein laun fyrir störf sín eða einungis málamyndalaun;
f. fólks, sem ráðið er á skip af öðrum vinnuveitanda en útgerðarmanni, að undanteknum loftskeytamönnum eða starfsmönnum loftskeytafélaga;
g. hafnarverkamanna, sem ferðast á milli hafna, en tilheyra ekki skipshöfninni;
h. fólks, sem ráðið er á hvalveiðaskip, fljótandi verksmiðjur, eða á annan hátt við hvalveiðar eða hliðstæð störf við skilyrði, sem ákveðin séu í sérstökum heildarsamningum um hvalveiðar eða hliðstæðum samningum um launakjör, vinnutíma og önnur vinnuskilyrði, sem sjómannasamtök hafa gert;
i. fólks, sem ráðið er til vinnu í höfn, en er yfirleitt ekki ráðið til starfa á sjó.
2. Hlutaðeigandi stjórnarvald getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðamanna og farmanna, undanskilið skipstjóra, fyrstu stýrimenn og fyrstu vélstjóra ákvæðum þessarar samþykktar, enda njóti þeir samkvæmt lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum eigi lakari kjara en þessi samþykkt krefur, að því er snertir árlegt orlof.
3. gr.
1. Hverjum þeim, sem samþykkt þessi tekur til, ber að loknu tólf mánaða samfelldu starfi árlegt orlof með launum, er eigi sé skemmra en:
a. átján dagar virkir fyrir hvert starfsár að því er snertir skipstjóra, aðra yfirmenn og loftskeytamenn;
b. tólf dagar virkir fyrir hvert starfsár að því er snertir aðra skipverja.
2. Maður, sem unnið hefur a.m.k. sex mánuði samfleytt, skal, er hann lætur af því starfi, eiga rétt á orlofi, er nemi einum og hálfum virkum degi fyrir hvern heilan starfsmánuð, sé um skipstjóra, aðra yfirmenn eða loftskeytamenn að ræða, en einum virkum degi, sé um aðra skipverja að ræða.
3. Maður, sem vikið er úr starfi án saka áður en hann hefur unnið samfleytt í sex mánuði, skal, er hann lætur af því starfi, eiga rétt á orlofi, er nemi einum og hálfum degi fyrir hvern heilan starfsmánuð, sé um skipstjóra, aðra yfirmenn eða loftskeytamenn að ræða, en einum virkum degi, sé um aðra skipverja að ræða.
4. Við útreikning á því, hvenær réttur til orlofs hefst, skal:
a. telja störf utan samningsbundins vinnutíma með samfelldum starfstíma;
b. ekki telja, að stutt hlé á starfi komi í veg fyrir, að starfstíminn fyrir og eftir það hlé teljist samfelldur, enda stafi það ekki af breytni eða yfirsjón starfsmannsins og fari ekki fram úr sex vikum á hverjum tólf mánuðum;
c. ekki telja, að samfelldur starfstími hafi slitnað, þó að breyting verði á framkvæmdastjórn eða eignarrétti að skipi því eða skipum, sem viðkomandi maður hefur unnið á.
5. Með launuðu orlofi skal ekki telja:
a. almenna og hefðbundna frídaga;
b. starfshlé vegna veikinda og slysa.
6. Í lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum má kveða á um skiptingu árlegs orlofs samkvæmt samþykkt þessari í hluta, svo og að leggja megi orlof frá einu ári við næsta árs orlof.
7. Í lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum má kveða svo á, að þegar alveg sérstaklega stendur á og starfsemin krefur, megi láta peningagreiðslu koma í stað árlegs orlofs samkvæmt samþykkt þessari, enda má hún ekki vera lægri en greiðsla sú, sem kveðið er á um í 5. gr.
4. gr.
1. Þegar að því kemur að veita árlegt orlof, skal það veitt eftir samkomulagi eins fljótt og þarfir starfseminnar leyfa.
2. Engan má krefja án samþykkis hans til að taka árlegt orlof, sem honum ber, í höfn utan þess lands, þar sem hann var ráðinn á skip, eða heimalands hans. Að fullnægðu þessu skilyrði skal orlofið veitt í höfn, sem samþykkt er með lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum.
5. gr.
1. Allir þeir, sem orlof taka skv. 3. gr. þessarar samþykktar, skulu fá venjuleg laun sín allan orlofstímann.
2. Venjuleg laun, sem greiða ber samkvæmt fyrri málsgrein, skulu reiknuð á þann hátt, sem ákveðinn sé með lögum eða reglugerðum hvers lands eða heildarsamningum, og mega þau fela í sér hæfilega fæðispeninga.
6. gr.
Að undanskilinni heimildinni í 7. málsl. 3. gr. skulu allir samningar um afsal réttarins til árlegs orlofs með launum eða niðurfellingu orlofs vera ógildir.
7. gr.
Maður, sem fer eða er vikið úr þjónustu vinnuveitanda síns áður en hann hefur tekið orlof það, sem honum ber, skal fá greiðslu þá, sem ákveðin er í 5. gr., fyrir hvern orlofsdag, sem honum ber samkvæmt samþykkt þessari.
8. gr.
Hvert það aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, skal tryggja raunhæfa beitingu ákvæða hennar.
9. gr.
Ekkert í samþykkt þessari skal hafa áhrif á nokkur lög, úrskurði, venjur eða samninga milli útgerðarmanna og farmanna, sem tryggja betri kjör en ákveðin eru í samþykkt þessari.
10. gr.
1. Samþykkt þessari má veita gildi: a) með lögum eða reglugerðum, b) með heildarsamningum útgerðarmanna og farmanna, eða c) sameiginlega með lögum eða reglugerðum og heildarsamningum útgerðarmanna og farmanna. Ákvæði samþykktar þessarar skulu látin taka til allra skipa skrásettra innan aðildarríkis, sem hefur fullgilt hana, og allra þeirra, sem ráðnir eru á slík skip, enda sé ekki öðruvísi kveðið á í henni sjálfri.
2. Þegar einhverjum ákvæðum samþykktar þessarar hefur verið veitt gildi með heildarsamningi skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal því aðildarríki, þar sem samningurinn gildir, ekki skylt að gera neinar ráðstafanir í samræmi við 8. gr. þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum hennar líður, að því er tekur til þeirra ákvæða samþykktarinnar, sem hafa verið tekin upp í heildarsamninga.
3. Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skal gefa forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar upplýsingar um ráðstafanir þær, sem gerðar eru til að framfylgja henni, þar á meðal upplýsingar um alla heildarsamninga, þar sem einhver ákvæði hennar eru tekin upp og eru í gildi, þegar aðildarríkið fullgildir samþykktina.
4. Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, undirgengst að senda þrískipta sendinefnd til þátttöku í störfum hverrar þeirrar nefndar, sem sett kann að verða á stofn til þess að rannsaka þær ráðstafanir, sem gerðar eru til þess að framfylgja þessari samþykkt, og skipuð er fulltrúum ríkisstjórna og félaga útgerðarmanna og farmanna, svo og ráðgefandi fulltrúum frá siglingamálanefnd Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.
5. Forstjórinn leggur fyrir umrædda nefnd yfirlit yfir upplýsingar þær, sem honum berast skv. 3. mgr. hér að framan.
6. Nefndin skal athuga, hvort heildarsamningar þeir, sem henni eru tilkynntir, veiti ákvæðum samþykktar þessarar fyllilega gildi. Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir samþykktina, skuldbindur sig til að taka til athugunar hverjar þær athugasemdir og tillögur, sem nefndin kann að gera varðandi framkvæmd samþykktarinnar. Enn fremur skuldbindur það sig til að kynna samtökum verkamanna og vinnuveitenda, sem hlut eiga að einhverjum þeim heildarsamningum, sem um getur í 1. mgr., allar athugasemdir og tillögur fyrrgreindrar nefndar um, að hve miklu leyti slíkir samningar gefa ákvæðum samþykktarinnar gildi.
11. gr.
Að því er snertir 17. gr. í samþykkt frá 1936 um orlof með launum fyrir sjómenn, skal þessi samþykkt skoðuð sem endurskoðun á þeirri samþykkt.
12. gr.
Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skal senda forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.
13. gr.
1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem látið hafa forstjóra skrá fullgildingar sínar.
2. Hún gengur í gildi sex mánuðum eftir að fullgildingar níu eftirtalinna ríkja hafa verið skrásettar: Argentína, Ástralía, Bandaríki Ameríku, Belgía, Brasilía, Chile, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Indland, Írland, Ítalía, Júgóslavía, Kanada, Kína, Noregur, Pólland, Portúgal, Sameinað konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands, Svíþjóð og Tyrkland. Að minnsta kosti fimm þessara níu ríkja skulu hvert um sig hafa skipastól, sem sé a.m.k. ein milljón rúmlestir brúttó. Þetta ákvæði er sett hér til þess að auðvelda og flýta fyrir fullgildingu aðildarríkjanna á samþykktinni.
3. Eftir það gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, sex mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.
14. gr.
1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, má segja henni upp að 10 árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en einu ári eftir skrásetningu hennar.
2. Hver sá meðlimur, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan þess árs, er kemur næst á eftir þeim 10 ára fresti, sem um getur í fyrri málsgrein, réttindi þau til uppsagnar, sem ráð er fyrir gert í þessari grein, skal bundinn af henni í önnur 10 ár, en má að þeim loknum segja henni upp, og síðan að hverju 10 ára tímabili liðnu, svo sem gert er ráð fyrir í þessari grein.
15. gr.
1. Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum meðlimum Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skrásetningu allra fullgildinga, yfirlýsinga og uppsagna, sem meðlimir stofnunarinnar hafa sent honum.
2. Þegar forstjóri tilkynnir meðlimum stofnunarinnar skrásetningu síðustu fullgildingarinnar, sem þarf til þess að samþykktin öðlist gildi, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi i gildi.
16. gr.
Forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til skrásetningar skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar, yfirlýsingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði næstu greina hér á undan.
17. gr.
Í lok hvers 10 ára tímabils frá gildistöku samþykktar þessarar skal stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktarinnar, og skal hún jafnframt athuga það, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins tillögur um endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.
18. gr.
1. Ef þingið gerir nýja samþykkt um hreytingar á samþykkt þessari allri eða hluta hennar, skal:
a. fullgilding meðlims á hinni nýju, endurskoðuðu samþykkt ipso jure skoðast sem tafarlaus uppsögn á þessari samþykkt, hvað sem ákvæðum 14. gr. hér að framan líður, frá þeim tíma er hin nýja, endurskoðaða samþykkt hefur öðlast gildi;
b. meðlimum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, frá því er hin nýja, endurskoðaða samþykkt öðlast gildi; enda sé ekki öðruvísi ákveðið í hinni nýju samþykkt.
2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, vera í gildi, eins og hún er nú að formi til og efni, hvað snertir þá meðlimi, sem hafa fullgilt hana, en ekki hina endurskoðuðu útgáfu hennar.
19. gr.
Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar skulu jafngildir.
Þetta er staðfestur texti samþykktar þeirrar, sem löglega var gerð á 32. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem haldið var í Genf og slitið 2. dag júlímánaðar 1949.
Þessu til staðfestu höfum vér undirritað hann í dag, átjánda dag ágústmánaðar 1949.
Forseti þingsins
Guildhaume Myrddin-Evans.
Forstjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar
David A. Morse.
Samsvarandi formálsgreinum í samþykktunum hér á eftir er sleppt svo og niðurlagsorðum þeirra.