Hoppa yfir valmynd
24. júní 2010 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurður 24. júní 2010

Úrskurður mannanafnanefndar í tilefni af endurupptöku ákvörðunar í máli 71/2009.

Mál nr. 71/2009

Eiginnafn: Hávarr

Á fundi mannanafnanefndar 20. júlí 2009 var tekin fyrir beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.). Í kjölfarið mun umsækjendum hafa verið tilkynnt með tölvupósti, dags. 25. júlí 2009 að nefndin hefði synjað beiðninni. Fyrir mistök virðist hins vegar ekki hafa verið birtur formlegur úrskurður nefndarinnar í málinu.

Málið var tekið fyrir að nýju af hálfu mannanafnanefndar á fundi 14. janúar 2010. Er ástæðum þess lýst í þeim úrskurði, en þær lúta fyrst og fremst að áðurnefndum skorti á birtingu fyrri úrskurðar. Í úrskurðinum frá 14. janúar var beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.) synjað.

Umsækjandi leitaði í kjölfar þess úrskurðar til umboðsmanns Alþingis og lagði fram kvörtun vegna úrskurðar mannanafnanefndar. Nefndin ritaði umboðsmanni Alþingis ítarlegt skýringarbréf vegna málsins, dags. 12. mars en einnig áttu fulltrúar í nefndinni fund með umboðsmanni 4. júní 2010. Á þeim fundi óskaði umboðsmaður m.a. skýringa á því hvernig nefndin hefði í framkvæmd beitt ákvæðum vinnulagsreglna um skýringu hugtaksins hefð í lögum um mannanöfn. Það er í kjölfar nánari skoðunar málsins á þeim grundvelli, sem mannanafnanefnd hefur nú ákveðið að afturkalla fyrri ákvörðun sína frá 14. janúar 2010, og kveða upp nýjan úrskurð í tilefni af umræddri beiðni. Eftir því sem við á verður þó vísað til þeirra röksemda sem fram koma í fyrri úrskurði.

Eiginnafnið Hávar (kk.) er á mannanafnaskrá. Það nafn með rithættinum Hávarr hefur hins vegar ekki verið fært á skrána. Hér þarf því að taka til þess afstöðu hvort umræddur ritháttur fullnægi skilyrðum laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Þegar um almennt eiginnafn er að ræða, og ekki reynir á nafnrétt manna af erlendum uppruna, eins og hér er, verður nafn að fullnægja skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn. Í því ákvæði segir svo:

„Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“

Í 1. mgr. ákvæðisins koma fram þrjú skilyrði sem nafn skal fullnægja. (1) Nafn má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Þessi regla er án undantekninga. (2) Nafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu. Undantekningu frá þessu skilyrði má gera ef nafn hefur unnið sér hefð í íslensku máli. (3) Nafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Undantekningu frá þessu skilyrði má gera ef hefð er fyrir öðrum rithætti þess.

Rithátturinn Hávarr (kk.) fullnægir öllum ofangreindum skilyrðum nema því síðastgreinda. Litið hefur verið svo á að sá ritháttur, sem sótt er um í máli þessu, að nafnið endi á –arr, sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Á 14. öld virðist „langt r“ í bakstöðu (þ.e. aftast í orði) í áherslulitlum endingum hafa styst. Dæmi: Ragnarr > Ragnar, hamarr > hamar, jöfurr > jöfur. Slík orð eru ævinlega rituð með einu r-i skv. stafsetningu nútímamáls. „Langt r“ kemur hins vegar fyrir í bakstöðu í áhersluatkvæðum í ýmsum orðum, sbr. kjarr og kurr. Dæmi um rithátt sem fallist hefur verið á af hálfu mannanafnanefndar í samræmi við framangreint er millinafnið Gnarr, sem beiðandi hefur vísað til í erindi sínu um skráningu á eiginnafninu Hávarr.

Af þessu leiðir að niðurstaða um það hvort rétt sé að fallast á ritháttinn Hávarr veltur á því hvort hann teljist hefðaður, í skilningi 5. gr. laga um mannanöfn.

Túlkun mannanafnefndar á hugtakinu hefð, bæði í 5. og 6. gr. mannanafnalaga, styðst við eftirfarandi vinnureglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

  1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
    1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
    2. Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
    3. Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
    4. Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
    5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.
  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Í fyrri úrskurði, dags. 14. janúar 2010, varð það niðurstaða nefndarinnar að jafnvel þó að ofangreind skilyrði um hefð væru túlkuð beiðanda í hag gæti nefndin ekki fallist á að ritháttur teldist hefðaður væru einvörðungu til um hann dæmi í forníslensku. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að í fornum ritum er stafsetning með ýmsu móti og hún er ekki samræmd eins og nú er. Um þetta er rétt að gefa dæmi. Í Möðruvallabók, AM 152 fol, stóru miðaldahandriti sem hefur að geyma fjölda Íslendingasagna, eru ýmis dæmi um að nafnið Hávar sé ritað með litlu h (havarr), oft er ritað u í stað v (hauarr) og jafnvel f í stað v (hafarr). Engin dæmi eru þarna um að nafnið sé ritað með broddi yfir a. Í þessu sama handriti er nafnið Njáll gjarna ritað Niall (niall) eða Níall (níall) og fyrir kemur að nafnið Þórarinn sé ritað þorarenn. Samkvæmt þessu verður því vart vísað til hinna fornu handrita sem heimilda um hefð tiltekins ritháttar nafns, þó þau verði eftir atvikum notuð sem heimildir um tilvist og viðurkenningu ákveðinna nafna sem slíkra.

Í fyrri úrskurði var hins vegar ekki tekin til þess afstaða hvort líta mætti svo á að rithátturinn Hávarr (kk.) væri hefðaður á grundvelli þess að hann kæmi fram í öðrum alkunnum ritum en hinum fornu ritum sjálfum, þ.e. síðari tíma útgáfum þeirra sem telja má alkunnar hér á landi.

Eiginnafnið Hávarr (kk.) kemur fyrir, með þeim rithætti, í ýmsum alþekktum útgáfum, s.s. útgáfum Hins íslenzka fornritafélags að Fóstbræðrasögu (Íslenzk fornrit VI) og Landnámabók (Íslenzk fornrit I). Með hliðsjón af því er hægt að líta svo á að rithátturinn sé hefðaður í skilningi 3. gr. vinnulagsreglna mannanafnanefndar, sbr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn.

Fallist er á beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.). Nafnið beygist svo: Hávarr - Hávar - Hávari - Hávars. Til leiðbeiningar skal tekið fram að framburður nafnsins er sá sami í nefnifalli og þolfalli, rétt eins og Héðinn (nefnifall) er borið fram eins og Héðin (þolfall).

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Hávarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta