Valdefling og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk
Velferðarrðáðuneytið hefur gert samkomulag við Hafnarfjörð og Reykjavíkurborg um þátttöku sveitarfélaganna í tilraunaverkefni sem miðar að því að styðja við valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk. Áður hafa Akureyrarbær og Árborg unnið að verkefnum í þessu skyni samkvæmt samningi við ráðuneytið.
Árið 2014 gerði velferðarráðuneytið á grundvelli framkvæmdaáætlunar um málefni fatlaðs fólks samkomulag við Akureyrarbæ og Árborg um tilraunaverkefni sem miðar að því að styðja við valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk. Í ljósi góðrar reynslu af þessum verkefnum var ákveðið að útvíkka samstarfið og hafa því Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður bæst í hópinn.
Verkefnin eru fjölbreytileg og taka til mismunandi hópa fatlaðs fólks. Unnið er að verkefnum sem ætlað er að styrkja stöðu þeirra sem búa við geðraskanir af ýmsu tagi og m.a. stefnt að útgáfu fræðsluefnis um valdeflingu og sjálfstætt líf á auðskildu máli. Fólki með þroskahömlun verður boðið upp á fræðslu um sama efni. Loks má nefna verkefni sem ætlað er að valdefla foreldra barna og unglinga sem nýta sér almenna og sértæka félagsþjónustu.