Hoppa yfir valmynd
7. desember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 76/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 76/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. apríl 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 27. apríl 2010 fjallað um umsókn kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta dags. 30. mars 2010. Umsókn kæranda var hafnað. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að ákvörðunin standi.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 30. mars 2010 en fylgigögn umsóknarinnar bárust 6. apríl 2010. Á fundi Vinnumálastofnunar 27. apríl var umsókn kæranda hafnað á þeim grundvelli að hann væri enn sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2010. Ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með kæru sem barst þann 10. maí 2010. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi lokað rekstri sínum 12. maí 2010 og í kjölfarið sótt um atvinnuleysisbætur á ný. Hin nýja umsókn var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 31. maí 2010. Kærandi varð sér úti um 100% starf hinn 14. júní 2010.

Með hliðsjón af ofangreindu lýtur ágreiningur málsins að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 30. mars til 12. maí 2010.

Þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta í lok mars síðastliðnum þá gerði hann einnig grein fyrir því að hann stundaði leigubílaakstur á eigin vegum og að hann hafi skráð sig á launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra þann 8. janúar 2010 vegna rekstursins. Í kæru kemur fram að kærandi sé atvinnulaus en stundi þá aukavinnu að aka leigubíl um helgar sem harkari. Um sé að ræða óreglulega vinnu og hann geti ekki gengið að því vísu að fá bíl þegar honum hentar. Til þess að greiða skatta og skyldur jafnóðum hafi hann skráð sig á launagreiðendaskrá að ráðum ríkisskattstjóra. Honum finnist það mótsagnakennt að það að hann sé á launagreiðendaskrá valdi því að hann fái ekki atvinnuleysisbætur. Honum finnst að verið sé að beina sér á þá braut að verða eingöngu atvinnulaus og það geti ekki verið rétt.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, kemur fram að í 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð grein fyrir þeim almennu skilyrðum sem sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfi að uppfylla til að njóta greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar komi meðal annars fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur verði að hafa stöðvað rekstur sinn, sbr. 20. gr. laganna. Hann verði að hafa sent tilkynningu þess efnis til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Einnig geti hann tilkynnt skrásetningarnúmer sitt sem afskráð eða framselt reksturinn, sbr. 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar sé undanþáguákvæði frá f- og g-lið 1. mgr. 18. gr. laganna sem heimili sjálfstætt starfandi einstaklingum að fá tímabundið greiðslur atvinnuleysistrygginga þrátt fyrir að hafa ekki stöðvað rekstur. Skilyrði fyrir undanþáguheimildinni sé að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiði til tímabundins atvinnuleysis hans. Ekki komi fram í gögnum kæranda að svo hafi verið statt um hann og engar slíkar tilkynningar hafi borist til skattyfirvalda. Undantekningar beri, eðli málsins samkvæmt, að túlka þröngt og verði með hliðsjón af þeirri túlkunarreglu ekki séð að aðstæður kæranda falli hér undir. Af þessu megi sjá að þar sem kærandi hafi ekki stöðvað rekstur líkt og honum hafi borið að gera sem sjálfstætt starfandi einstaklingi, sbr. f- og g-liði 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, né tilkynnt um samdrátt í rekstri til skattyfirvalda, sbr. bráðabirgðaákvæði VI, eigi hann ekki rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga enda uppfylli hann ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi þó stöðvað eigin rekstur þann 12. maí 2010 og eigi hann því rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sem launamaður, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2010, og var honum veittur frestur til 2. nóvember 2010 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Umsókn kæranda var dagsett 30. mars 2010 og fylgigögn umsóknarinnar lágu fyrir 6. apríl 2010. Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 27. apríl 2010. Ekki verður séð að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Venja er til að veita slíkan andmælarétt í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Þessi annmarki á málsmeðferð Vinnumálastofnunar leiðir þó ekki til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, meðal annars með tilliti til hagsmuna kæranda af því að fá úr þessu álitaefni skorið sem fyrst. Einnig skiptir hér máli að kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur og fékk þá umsókn samþykkta í lok maí 2010.

Óumdeilt er að kærandi vann sem leigubílstjóri í upphafi árs 2010. Um takmarkað starfshlutfall var að ræða. Hann var ekki launamaður heldur þáði hann verktakagreiðslur. Hann var á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra frá og með 8. janúar 2010.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 37/2009, telst sjálfstætt starfandi einstaklingur vera hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns. Í athugasemdum sem fylgdu með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 kom meðal annars fram að þeir teldust sjálfstætt starfandi einstaklingar sem greiddu staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi einu sinni á ári.

Með hliðsjón af ofangreindu var kærandi sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta í lok mars 2010.

Eins og fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar fyrir úrskurðarnefndinni geta launamenn fengið greiddar atvinnuleysisbætur þótt þeir sinni tilfallandi vinnu, sbr. 17. og 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. og 36. gr. sömu laga. Það sama á ekki við um sjálfstætt starfandi einstaklinga nema í þröngum undantekningartilvikum, sbr. bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar. Ljóst er að síðastnefnda ákvæðið á ekki við um mál kæranda. Því giltu hinar almennu reglur IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar um réttarstöðu kæranda. Þar sem hann hafði ekki stöðvað rekstur sinn og lagt fram staðfestingu þess efnis, var rétt af hálfu Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í ljósi framanritaðs verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að hafna umsókn hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,  for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta