Hoppa yfir valmynd
24. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 24. september 2021

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum á björtum og köldum degi og færum ykkur það helsta sem hefur verið á döfinni í utanríkisþjónustunni síðustu tvær vikurnar. Áður en fólk hefur lestur mælir upplýsinga- og greiningardeild með kaffibolla þar sem pósturinn er í lengri kantinum í dag.

Nú stendur yfir 76. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og eins og jafnan á þessum árstíma hefur utanríkisþjónustan í nógu að snúast. Þingið var sett með formlegum hætti í síðustu viku og fer fram bæði með fjarfundum og beinni þátttöku vegna heimsfaraldursins. Íslenskir ráðamenn taka þátt í þinginu og hliðarviðburðum með fjarfundabúnaði og myndabandsupptökum.


Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók upp ávarp Íslands í vikunni en það er á dagskrá þingsins á mánudaginn næsta.

Ávarp Íslands tekið upp fyrir ráðherraviku 76. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 🇮🇸🇺🇳 #UNGA76

Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Tuesday, 21 September 2021


Í dag tók ráðherra þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um orkumál, sem fram fór í tengslum við allsherjarþingið. Fyrr á árinu tók Ísland að sér hlutverk heimserindreka orkumála en sem slíkur talar Ísland fyrir jöfnu aðgengi að endurnýjanlegri orku sem leið til að ná öllum heimsmarkmiðunum og orkuskiptum með jafnræði og réttlæti að leiðarljósi. Þá kynnti Guðlaugur Þór orkusáttmála Íslands sem inniheldur markmið Íslands í orkumálum.

„Það er einfaldlega óásættanlegt að um 760 milljónir íbúa heims séu enn án aðgangs að rafmagni og að þriðjungur mannkyns reiði sig á mengandi og heilsuspillandi orkugjafa við matargerð. Ákvörðunin um að gerast heimserindrekar orkumála var því ekki erfið. Íslendingar þekkja af eigin raun hvernig jafn aðgangur að endurnýjanlegri orku getur umbreytt samfélögum og efnahag ríkja,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu á fundinum.

Utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa haft samráð og samstarf um hlutverk Íslands sem heimserindreki orkumála og hefur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tekið þátt í fundum þessu tengdu á undanförnum mánuðum. Af þessu tilefni rituðu Guðlaugur Þór og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, grein í The Hill þar sem þau hvetja þjóðir heims til orkuskipta.

Í tengslum við þingið flutti Guðlaugur Þór ávarp á öðrum hliðarviðburði þess um málefni hinsegin fólks á miðvikudag. 

„Það er hryggileg staðreynd að í um sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna eru í gildi lög sem gera samkynhneigð refsiverða eða vega að réttindum hinsegin fólks með öðrum hætti," sagði Guðlaugur Þór m.a. í ávarpi sínu.

Þá tók ráðherra þátt í fundi bandalags um fjölþjóðasamvinnu, sem miðar að því efla fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum í gær en fundurinn er einnig einn af hliðarviðburðum allsherjarþingsins. Ávarp ráðherra má lesa hér.

En það voru fleiri stórtíðindi í vikunni. Í upphafi hennar bárust fréttir af því að Bandaríkjamenn hygðust aflétta ferðabanni til landsins sem hefur verið í gildi í eitt og hálft ár. Í samtali við Vísi sagði Guðlaugur Þór að vitanlega væri um miklar gleðifréttir að ræða.

[V]ið erum búin að vera að vinna að þessu mjög lengi. Við höfum notað hvert einasta tækifæri til þess að þrýsta á um að þessu banni verði aflétt og átt fjölmarga fundi með bandarískum ráðamönnum vegna þessa,“ segir Guðlaugur Þór við Vísi.

„Ég tók þetta til dæmis upp með Blinken utanríkisráðherra þegar hann kom hingað. Þannig að í stuttu máli þýðir þetta að Íslendingar geta aftur ferðast til Bandaríkjanna sem er auðvitað mjög mikilvægt og mjög mikið af Íslendingum sem eiga erindi þangað eins og við þekkjum.“

Sendiherra Íslands í Washington, Bergdís Ellertsdóttir, fagnaði þessum tíðindum með viðeigandi myndskreytingu.


Grænlandsskýrslan sem kom út í upphafi þessa árs heldur svo áfram að bera ávöxt en í gær fundaði Guðlaugur Þór með  Pele Broberg, ráðherra utanríkis-, iðnaðar-, viðskipta- og loftslagsmála á Grænlandi, þar sem þeir undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um aukið samstarf landanna tveggja. 

Fyrir viku kom út skýrsla um samskipti Íslands og Póllands sem ber heitið Vinátta og vaxtarbroddar. Margar áhugaverðar tillögur má finna í skýrslunni sem gefur vafalaust að góðum notum.

Í tilefni af útgáfu Póllandsskýrslunar og Færeyjarskýrslunnar á dögunum ritaði ráðherra grein í Morgunblaðið í síðustu viku þar sem hann fjallaði um þau sóknarfæri sem eru til staðar í samskiptum við þessar vinaþjóðir.

Guðlaugur Þór fundaði með sænskum starfsbróður sínum, Peter Hultqvist varnarmálaráðherra á fimmtudag í síðustu viku þar sem undirrituð var sameiginleg yfirlýsing um samstarf Íslands og Svíþjóðar í öryggis- og varnarmálum. Undirritunin fór fram á fjarfundi ráðherranna, að viðstöddum Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar í Reykjavík, og Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Stokkhólmi.

„Nánara samstarf Íslands og Svíþjóðar styður við markmið norræna varnarsamstarfsins og annars fjölþjóðasamstarfs um öryggis- og varnarmál. Ég tel að við Íslendingar höfum mikið fram að færa í samstarfi við Svía og getum einnig lært margt af þeim,“ segir Guðlaugur Þór.

Af þessu tilefni átti Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Svíþjóð einnig fund með Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, í varnarmálaráðuneytinu í Stokkhólmi.

Á fimmtudaginn í síðustu viku fór einnig fram fundur ráðuneytsstjóra varnarmálaráðuneyta JEF ríkjanna tíu, sameiginlegu viðbragðssveitarinnar, í London. Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, tók þátt fyrir Íslands hönd.

Á mánudag í síðustu viku tilkynnti Guðlaugur Þór svo um  25 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Genf. Framlagið rennur til samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og bætist það við fjárframlög íslenskra stjórnvalda til Afganistans að undanförnu.

Sama dag greindi utanríkisráðuneytið frá því að fjórir ræðismenn Íslands hefðu hlotið riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu nýverið. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með það!

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Á Indlandi afhenti Guðni Bragason sendiherra Ram Nath Kovind forseta Indlands trúnaðarbréf sem sendiherra á Indlandi í vikunni. Sendiherra færði forseta Indlands bestu kveðjur Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og þakkir forsetahjóna fyrir ánægjulega heimsókn indversku forsetahjónanna til Íslands í september 2019.

Í Kaupmannahöfn tóku fimmtán íslensk sprotafyrirtæki þátt í TechBBQ í síðustu viku en um er að ræða eina stærstu  sprota- og fjárfestaráðstefnu í Norður-Evrópu. Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn stóðu fyrir þátttöku fyrirækjanna.  Og í tilefni af komu íslenskrar sendinefndar á ráðstefnuna bauð Helga Hauksdóttir til móttöku. Heiðursgestur móttökunnar var Helga Valfells, stofnandi og framkvæmdastjóri Crowberry Capital.

Annars hefur verið mikið um að vera í Kaupmannahöfn að undanförnu. Í dag greindi sendiráðið frá ráðningu Aldísar Guðmundsdóttur í starf fulltrúa í sendiráðinu. Við bjóðum hana velkomna til starfa!

Í dag birti sendiráðið einnig mynd af  Önnu Sonde, Kristínu Reynisdóttur og Valgerði Reynisdóttur, vinningshöfum Pioneer Prize, ásamt sendiherra. Verðlaunin sem eru 25.000 DKK eru veitt ungum frumkvöðlum frá Norðurlöndunum sem sýnt hafa í verki að hafa stuðlað gegn hvers konar hatri og félagslegri útskúfun.  Verðlaunin hlutu þær fyrir að hafa stofnað instagram reikninginn Antirasistarnir sem hefur það að markmiði að fræða fylgjendur markvisst um rasimsa.

Það hefur sömuleiðis verið nóg um að vera í Osló hjá okkar fólki. Í síðustu viku fékk sendiráðið kynningu frá norska fyrirtækinu Ocean GeoLoop á nýrri lífrænni tækni í að fanga, geyma og nýta koldíoxíð (CO2). 

Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra opnaði svo sýningu fjögurra íslenskra listamanna í Bærum Kunsthal.  Listamennirnir Fritz Hendrik, Finnbogi Pétursson, Katrín Elvarsdóttir og Egill Sæbjörnsson eru í fremstu röð íslenskra samtímalistamanna.

Þá fundaði Ingibjörg með Aud Lise sendiherra Noregs á Íslandi í sendiráði Íslands í Osló þar sem þær ræddu m.a. nýafstaðnar kosningar til Stórþingsins, komandi Alþingiskosningar og komandi hringborð Norðurslóða.

Annars er líf og starf sendiráðsins í Osló að komast í eðlilegt horft eftir langan tíma með sóttkvíum, takmörkunum, frestunum og vinnu sem tengst hefur heimsfaraldrinum. Skemmtileg færsla sendiráðsins talar sínu máli:

Að lokum heimsótti sendiherra vinnustofu listamanna á Gyssestad Gård þar sem íslenska listakonan Hildur Björnsdóttir vinnur með listsköpun sína. 

Í Brussel hefur Ísland tryggt sér áframhaldandi aðgang að ERASMUS+ og fleiri samstarfsáætlunum ESB en haldinn var fundur sameiginlegur EES-nefndarinnar í morgun. Á mánudag undirritaði svo Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel loftferðasamning milli Íslands og Konungsríkisins Hollands, vegna Curacao.

Í Róm afhenti Matthías G. Pálsson, nýr fastafulltrúi Íslands í Róm, Qu Dongyu, framkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm, trúnaðarbréf sitt.

Í Vín flutti Þórður Ægir Óskarsson sendiherra ræðu fyrir Íslands hönd á aðalfundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem stendur yfir í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vínarborg.

Í Þýskalandi fór María Erla Marelsdóttir sendiherra í heimsókn til Bæjaralands í síðustu viku. Þar hitti hún fyrir aðila úr stjórnmálum og úr viðskipta-, vísinda- og menningargeiranum í München til þess að ræða tengsl Bæjaralands og Íslands. Meðal umræðuefna voru endurnýtanlegir orkugjafar og snjalllausnir í baráttunni við loftlagsbreytingar, nýsköpun í líftækni, bókmenntir, hönnun og skapandi greinar.

Í Moskvu var Ísey Skyr með kynningarbás á matvælasýningu þar í borg og þangað mætti sendiherra Íslands að sjálfsögðu, Árni Þór Sigurðsson. 

Í tilefni af 25 ára afmæli Norðurskautsráðsins efndi rússneska formennskan til hringborðsumræðna í Moskvu í síðustu viku. Þar var Árni Þór fulltrúi Íslands.

Í París hélt Ísland í samstarfi við OECD viðburð í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum í höfuðstöðvum stofnunarinnar á dögunum. Haldið var upp á daginn (18. september) í annað sinn í ár en Ísland átti frumkvæði að ályktun um tilnefningu dagsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2019. Á viðburðinum komu saman leiðtogar úr einkageiranum og hinu opinbera og sögðu frá þeim leiðum sem vel hafa gagnast í baráttunni fyrir auknu launajafnrétti kynjanna.

Í Genf er haustlota mannréttindaráðsins hafin og þar verða brýn mannréttindamál tekin fyrir. Ísland mun á næstu vikum  flytja og taka undir yfirlýsingar líktþenkjandi ríkja. Fastafulltrúi Íslands í Genf ávarpaði ráðið og mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku og lýsti yfir áhyggjum af stöðu mannréttinda í Afganistan, norðurhluta Eþíópíu og Jemen. 

Í Kanada efndi sendiráð Íslands til fjarfundar ásamt Íslensk-kanadíska viðskiptaráðinu vegna nýlegra kosninga þar í landi. Áhugasamir geta séð upptöku af fundinum hér.

Hlynur Guðjónsson sendiherra heimsótti svo Winnipeg og Gimli á dögunum og hitti þar fyrir hina ýmsu aðila úr menningar- viðskiptalífinu ásamt fulltrúum ýmissa borgaralegra samtaka. Honum til halds og trausts var Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra og aðalræðismaður í Winnipeg.

Í London skellti okkar fólk sér á hersýningu.


Í Kína fundaði Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína með aðstoðarutanríkisráðherra Kínverja, Deng Li.

Við endum þessa yfirferð á vettvangi Heimsljóss. Síðustu tvær vikurnar hafa birst á þeim vettvangi fréttir af styrkveitingum utanríkisráðuneytisins úr sérstökum samstarfssjóði við atvinnulíf um heimsmarkmiðin. Þar hefur til dæmis verið sagt frá því hvernig íslensk þekking er nýtt í orkuskiptum í Kómorum. 

„Við viljum sjá fleiri burðug og kraftmikil íslensk fyrirtæki skoða samstarfstækifæri í þróunarríkjum og stuðla með starfsemi sinni að hagsæld þar og grípa um leið ný tækifæri til uppbyggingar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í frétt í Heimsljósi.

Í Heimsljósi hefur líka að undanförnu verið greint frá styrkjum til íslenskra félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð en slík verkefni eru fjölmörg, fjölbreytt og unnin víðs vegar um heiminn. Af fjórum verkefnum sem sagt hefur verið frá að undanförnu eru tvö unnin í Kenía og tengjast bæði menntun, annars vegar verkefni Sambands íslenskra kristniboðsfélaga í Pókot-héraði um stuðning við menntun afskiptra nemenda, og hins vegar verkefni Broskalla „Menntun í ferðatösku“ sem felur í sér tæknistudda kennslu fyrir sárafátæk börn með spjaldtölvum, einkum stærðfræðinám. Þriðja verkefnið er valdeflingarverkefni stúlkna í Tógó um rokkbúðir sem samtökin Stelpur rokka! og Sól í Tógó hafa staðið fyrir undanfarin ár og það fjórða felur í sér áframhaldandi stuðning við uppbyggingu leirkeraverkstæðis í Síerra Leóne á vegum Aurora velgjörðarsjóðsins.  

Við þökkum þeim sem komust alla leið hingað í þessari yfirferð kærlega fyrir lesturinn!

Upplýsingadeild óskar ykkur öllum góðrar helgar og gleðilegs kjördags!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta