Samningur um þverfaglega þjónustu við fólk með vefjagigt
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur staðfest samning milli Sjúkratrygginga Íslands og Þrautar ehf. um tilraunaverkefni sem felur í sér þverfaglega þjónustu við sjúkratryggða einstaklinga með vefjagigt og tengda sjúkdóma.
Samkvæmt samningnum skal Þraut ehf. annast faglega og markvissa einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu á þessu sviði í þeim tilgangi að auka lífsgæði þessa fólks og færni til daglegra athafna. Í samningnum felst einnig að sinna fræðslu um vefjagigt og tengda sjúkdóma og veita sjúklingum kennslu og þjálfun til sjálfshjálpar til að viðhalda eða auka starfsgetu þeirra og draga markvisst úr líkum á því að útivinnandi einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegri örorku.
Markmið samningsins er einnig að kortleggja stöðu einstaklinga með vefjagigt og tengda sjúkdóma þannig að hægt sé að sjá hver staðan var fyrir meðferð með tilliti til færni, lyfjatöku og notkunar á annarri heilbrigðisþjónustu. Þessar upplýsingar verða síðan bornar saman við stöðu hópsins að meðferð lokinni.
Samningurinn tekur annars vegar til ítarlegrar þverfaglegrar greiningar og ráðgjafar fyrir allt að 200 einstaklinga á ári og hins vegar til þverfaglegrar endurhæfingarmeðferðar fyrir allt að 140-150 einstaklinga á ári sem eru með lengra genginn vefjagigtarsjúkdóm.
Samningurinn gildir frá 1. apríl 2011 til 31. mars 2012 en heimilt er að framlengja hann um eitt ár þegar árangur verkefnisins hefur verið metinn. Hámarksgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt samningnum eru 30 milljónir króna.
Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni sem lýsir sér í langvinnum og útbreiddum verkjum frá stoðkerfi, stirðleika, svefntruflunum og skertri færni til daglegra athafna. Talið er að á bilinu 1 – 5% fólks þjáist af vefjagigt en hún er mun algengari hjá körlum en konum. Orsakir vefjagigtar eru ekki þekktar en talið líklegt að erfðir ráði einhverju um hverjir fái sjúkdóminn.