Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 343/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 343/2018

Fimmtudaginn 25. október 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 26. september 2018, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. mars 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2017, var kæranda tilkynnt um höfnun á umsókn hennar um þjónustu í „Vinnu og virkni“ á þeirri forsendu að hún nyti sólarhrings NPA-þjónustu.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að hún hafi sótt um þjónustu í „Vinnu og virkni“ hjá Vinnumálastofnun og bent á að starf á vernduðum vinnustað í um það bil þrjár klukkustundir tvisvar í viku myndi líklega henta henni best. Umsókn kæranda hafi verið hafnað á þeirri forsendu að hún nyti sólarhrings NPA þjónustu en í bréfinu hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Kæranda hafi verið tjáð í samtali við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun að niðurstaðan sé frá samráðshópi innan stofnunarinnar en í honum sitji fulltrúi frá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Höfnunin sé því í raun frá Hafnarfjarðarbæ.

Kærandi telur að vinnumál hennar og sú staðreynd að hún njóti sólarhringsþjónustu vegna fötlunar sinnar tengist ekki á nokkurn hátt. Kærandi bendir á að illa hafi gengið að fá vinnu en það sé nauðsynlegt fyrir andlega heilsu hennar að komast út úr húsi og hafa eitthvað fyrir stafni.

III.  Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. mars 2017.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. mars 2017, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru móttekinni 26. september 2018. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst einu og hálfu ári frá því að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta