Minnst þeirra sem látist hafa í umferðarslysum
Minnst var þeirra sem látist hafa í umferðarslysum við athöfn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í morgun en Sameinuðu þjóðirnar hvetja aðildarríki til að halda slíka athöfn þriðja sunnudag í nóvember ár hvert. Hér á landi er það starfshópur innanríkisráðuneytis og velferðarráðueytis um áratug aðgerða í umferðaröryggismálum sem skipuleggur athöfnina en í honum sitja einnig fulltrúar ýmissa aðila sem starfa að umferðaröryggismálum.
Viðstaddir athöfnina voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fulltrúar björgunarsveita, lögreglu og heilbrigðiskerfis og aðstandendur sem misst hafa ástvini í umferðarslysum. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í ávarpi við athöfnina að mikill fjöldi þeirra sem látist hafa og slasast í umferðarslysum ættu að vera okkur hvatning til að halda áfram á braut kynningar, fræðslu og hvatningar í umferðaröryggisaðgerðum. Lauk hann máli sínu með því að boða einnar mínútu þögn í minningu þeirra sem látist hafa í slysum og hvatti viðstadda jafnframt til að leiða hugann að þeim sem slasast hefðu með þakklæti fyrir þær fjölmörgu starfsstéttir sem sinna aðgerðum og meðferð þegar slys verða.
Að loknu máli forseta Íslands talaði Áslaug Melax, sem er einhverfuráðgjafi á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, en móðir hennar lést í umferðarslysi þegar Áslaug var barn að aldri og hún var stjúpmóðir stúlku sem lést í umferðarslysi á Siglufirði fyrir rétt rúmu ári síðan. Lýsti Áslaug á áhrifaríkan hátt erfiðri reynslu fjölskyldunnar við þennan ástvinamissi. Einnig talaði Bára Benediktsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, en hún hefur unnið mikið með aðstandendur þeirra sem lent hafa í slysum.
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytis, stýrði athöfninni og sagði í lokin að hugmynd starfshópsins væri að athöfn sem þessi yrði framvegis haldin árlega en hún var í fyrsta sinn haldin í fyrra.