Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2020

75 ár liðin frá stofnun Menningarmálastofnunar SÞ UNESCO

Fulltrúar fastanefndar Íslands hjá UNESCO í París að störfum - mynd

Í ár eru 75 ár frá því að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) var komið á fót, en fyrirrennari stofnunarinnar starfaði frá árinu 1922 á vettvangi Þjóðarbandalagsins. Ísland gerðist aðili að stofnuninni þann 8. júní 1964 og árið 1966 ákvað ríkisstjórnin að stofna íslenska UNESCO-nefnd.

UNESCO er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna og er meginmarkmið hennar að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda, menningarmála og fjölmiðla. UNESCO ber höfuðábyrgð á því meðal alþjóðastofnana að innleiða fjórða heimsmarkmiðið um menntun.

Framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn UNESCO
Íslands er nú í framboði til setu í framkvæmdastjórn stofnunarinnar árin 2021-2025, en málefnaáherslur framboðsins voru kynntar á ríkisstjórnarfundi í mars á síðasta ári. Starfsemi og áherslusvið UNESCO eru fjölbreytt og eru málefnaáherslur Íslands þar af leiðandi með breiða skírskotun ásamt því að flétta inn áherslur á sviði tungumála, menningar- og náttúruarfs. Þá verður framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, jafnrétti, virk þátttaka ungmenna og aðgengi allra að menntun rauður þráður í áherslum Íslands. Kosið verður í framkvæmdastjórn UNESCO á aðalráðstefnu stofnunarinnar í nóvember 2021, en auk Íslands eru Austurríki og Tyrkland í framboði um þrjú sæti Vesturlandahópsins. Nánar um áherslur Íslands má finna á Stjórnarráðsvefnum.

Um sameiginlegt norrænt framboð er að ræða en Norðurlöndin skiptast á að bjóða sig fram til setu í framkvæmdastjórn UNESCO. Ísland sat síðast í framkvæmdastjórninni á árunum 2001-2005 og hafði áður átt fulltrúa í stjórninni árin 1983-87.

Virkt samstarf íslenskra stjórnvalda við stofnunina
Á Íslandi eru starfandi tvær sjálfstæðar stofnanir undir merkjum UNESCO, GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, þar sem saman eru komnir fjórir skólar sem höfðu fram til loka árs 2019 verið starfræktir undir formerkjum Háskóla SÞ hér á landi, og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands. Frá árinu 1998 hefur Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO.

Þá eru íslensk stjórnvöld með samstarfssamning við stofnunina á sviði þróunarsamvinnu sem undirritaður var í apríl á síðasta ári. Hann felur í sér að Ísland styður við verkefni á vegum stofnunarinnar, m.a. með því að styrkja getu fátækra ríkja við umbætur á sviði menntamála og stuðla að tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna í þróunarlöndum.

Starf UNESCO sýnilegt víða á Íslandi
UNESCO hefur haft forystu um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsbyggðarinnar og Ísland hefur lagt ríka áherslu á skráningu minja á Heimsminjaskrá UNESCO. Vatnajökulsþjóðgarður komst á heimsminjaskrá stofnunarinnar í júlí á síðasta ári, en fyrir voru Surtsey og Þingvellir hluti af skránni. Reykjavík var árið 2011 útnefnd Bókmenntaborg UNESCO, en hún var fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan heiður og sú fyrsta utan ensks málsvæðis.

UNESCO-nefndin og fastanefnd Íslands gagnvart stofnuninni
Hlutverk Íslensku UNESCO-nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands til ráðuneytis í málum er varða stofnunina og tengiliður á milli UNESCO og íslenskra stofnana. Sendiráð Íslands í París gegnir hlutverki fastanefndar gagnvart stofnuninni og sinnir daglegu starfi fyrir Íslands hönd innan UNESCO. Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands í París, leiðir m.a. vinnu vinahóps um jafnréttismál í samstarfi við fastafulltrúa Óman.

Sjá nánar á unesco.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta