Eva María Jónsdóttir skipuð formaður fagráðs um umferðarmál
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Evu Maríu Jónsdóttur formann fagráðs um umferðarmál. Fagráðið tekur við af umferðarráði og er skipað í samræmi við lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngmála. Er þar kveðið á um heimild til skipunar fagráðs um umferðarmál með fulltrúum Samgöngustofu, hagsmunaaðila og annarra aðila.
Eva María Jónsdóttir hefur um árabil starfað að dagskrárgerð í sjónvarpi og hefur BA próf í bókmenntum. Hún stundar nú meistaranám.
Hlutverk fagráðs um umferðarmál er að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta. Jafnframt skal það beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum. Ráðið skal vera óháð þeim stofnunum sem eiga aðild að því og starfa í umboði innanríkisráðherra. Skipunartími fagráðsins er til tveggja ára í senn en áætlað er að haldnir skuli fjórir fundir að jafnaði yfir árið.
Skipuð verður stjórn ráðsins og sitja í henni fimm fulltrúar: Formaður, sem skipaður er af ráðherra, varaformaður, sem jafnframt er fulltrúi innanríkisráðuneytis og þrír til viðbótar, sem kjörnir verða á fundi fagráðsins. Stjórnin er kjörin til tveggja ára í senn.
Í fagráðinu eiga eftirtaldir aðilar fulltrúa: Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra, Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglarnir, Brautin-Bindisfélag ökumanna, Bílgreinasambandið, Félag íslenskra bifreiðaeiganda, velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Landssamband íslenskra akstursíþrótta, Samtök verslunar og þjónustu, Landssamband vörubifreiðastjóra, Landssamtök hjólreiðamanna, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ríkislögreglustjóri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök fjármálafyrirtækja, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa, Vegagerðin, Ökukennarafélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök um bíllausan lífsstíl, Samtök ferðaþjónustunnar, Heimili og skóli og Íþróttasamband Íslands.