Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirstöðugrein fyrir framkvæmdir: nám í jarðvinnu á teikniborðinu

Komið verður á formlegu námi á framhaldsskólastigi í jarðvinnu. Samkomulag þess efnis var undirritað í gær en að því standa mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Tækniskólinn og Félag vinnuvélaeigenda.

Jarðvinna er mikilvægur verkþáttur í byggingaframkvæmdum og mannvirkjagerð af öllu tagi en í henni felst til dæmis jarðvegsskipti, lagna- og lóðavinna. Vinnuveitendur í jarðvinnu fá eins og stendur ekki nægilega hæft fólk til starfa og skortur á nýliðun er mikið áhyggjuefni í faginu. Tilgangur námsins er að stuðla að nýliðun í faginu og auka færni og þekkingu þeirra sem vinna eða munu vinna við jarðvinnu. Með auknum kröfum um öruggari vinnubrögð, meiri gæði, styttri framkvæmdatíma, minna rask, þéttingu byggðar og tækniþróun eykst þörfin sífellt fyrir vel menntað starfsfólk á þessu sviði.

„Við viljum stuðla að nýsköpun í menntakerfinu og góðu samstarfi milli skóla- og atvinnulífs. Framtak þetta er gott dæmi um slíkt verkefni. Ég bind vonir við að nýja námið muni auka þekkingu og gæði á þessu starfssviði, og skapa tækifæri fyrir nemendur til þess að efla færni sína og sérhæfingu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Stýrihópur með fulltrúum frá Samtökum iðnaðarins, Félagi vinnuvélaeigenda, Tækniskólanum og mennta- og menningarmálaráðuneytinu mun vinna að framgöngu verkefnisins í samvinnu við verkefnastjóra og er ráðgert að tillögur þeirra að fyrirkomulagi námsins verði kynntar á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta