Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 17. desember 2019
Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Bryndís Ásbjarnardóttir, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hófst 13:06 17. desember 2019.
- Kynning formanns kerfisáhættunefndar á helstu þáttum greinargerðar hennar
Formaður kerfisáhættunefndar fór yfir helstu þætti í greinargerð nefndarinnar til fjármálastöðugleikaráðs. Að mati nefndarinnar hefur sveiflutengd kerfisáhætta lítið breyst frá síðasta fundi. Það er áfram samdráttur í hagkerfinu en síðustu þjóðhagsreikningar voru hagfelldari en búist var við. Viðnámsþróttur fjármálakerfisins er enn töluverður. Um áramótin tekur gildi afsláttur á eiginfjárkröfur bankanna vegna lána sem veitt hafa verið til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem jafngildir lækkun á eiginfjárkröfu um 0,2% til 0,4% hjá bönkunum. Umræður um sveiflutengda kerfisáhættu, samdrátt í hagkerfinu og beitingu sveiflujöfnunarauka. - Fjármögnun heimila og fyrirtækja
Seðlabankinn hélt kynningu á stöðu og horfum um fjármögnun heimila og fyrirtækja og Fjármálaeftirlitið kynnti greiningu stofnunarinnar á þeim þáttum sem kunna að takmarka lánsframboð í bönkum hér á landi. - Verðbréfamarkaðir og kerfisáhætta
Fjármálaeftirlitið hélt kynningu á fjármögnun á verðbréfamarkaði og þjóðhagsvarúðartæki sem ESB er með á teikniborðinu til þess að draga úr kerfisáhættu sem slíkri fjármögnun kann að fylgja. - Ársfjórðungsleg ákvörðun sveiflujöfnunarauka
Tillaga um óbreyttan sveiflujöfnunarauka samþykkt. - Önnur mál
Drög að fréttatilkynningu samþykkt.
Fundi slitið 14:00.