Neytendasamtökin tilnefnd sem tengiliður við Evrópsku neytendaaðstoðina
Innanríkisráðuneytið hefur tilnefnt Neytendasamtökin sem tengilið Íslands við Evrópsku neytendaaðstoðina, ENA með samningi sem gildir til þriggja ára. Hlutverk ENA er að aðstoða neytendur sem eiga í deilum við seljendur vöru eða þjónustu yfir landamæri innan EES.
Starfsstöð ENA verður rekin af Neytendasamtökunum sem hafa aðsetur að Hverfisgötu 105 í Reykjavík og er gert ráð fyrir hálfu stöðugildi til að sinna verkefnum sem upp koma. Stöðin er ein af 30 slíkum stöðvum á Evrópska efnahagssvæðinu.
ENA liðsinnir íslenskum neytendum í samskiptum þeirra við erlend fyrirtæki og aðstoðar við upplýsingaöflun, kemur kvörtun neytandans á framfæri og fylgist með afdrifum málsins erlendis. Einnig annast stöðin á Íslandi samskipti við íslensk fyrirtæki sem erlendir neytendur kunna að beina kvörtun að. Aðstoðin er neytendum að kostnaðarlausu. Á síðasta ári voru 39 fyrirspurnir skráðar, 29 einfaldar kvartanir og 40 kvörtunarmál.
- Nánari upplýsingar um ENA er að finna á vef Neytendasamtakanna