Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 347/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 347/2021

Fimmtudaginn 23. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. júní 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. júní 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. júní 2021, var umsókn hans synjað á þeim grundvelli að hann hefði ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júlí 2021. Með erindi úrskurðarnefndar 8. júlí 2021 var óskað eftir að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 5. ágúst 2021 og barst hin kærða ákvörðun samdægurs. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. september 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir hinni kærðu ákvörðun og óskar eftir því að mál hans verði endurskoðað.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi unnið á Íslandi í tæplega átján mánuði og greitt skatta. Kærandi telji þetta ekki sanngjarna ákvörðun. Ef kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum þá vilji hann endurgreiðslu allra skatta sem hann hafi greitt. Kærandi greinir frá því að vinur hans, sem hafi verið í sömu stöðu og kærandi fyrir ári síðan, hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Af þeim sökum telji kærandi að hann eigi einnig rétt á atvinnuleysisbótum.

Kærandi greinir einnig frá því að hann hafi borgað háar fjárhæðir í skatta hérlendis og þar af leiðandi eigi hann rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta, að minnsta kosti í einn til tvo mánuði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn þann 1. júní 2021. Við afgreiðslu á umsókn kæranda hafi verið óskað eftir upplýsingum um réttindi kæranda til að dvelja og starfa hér á landi. Þann 15. júní 2021 hafi Greiðslustofa Vinnumálastofnunar fengið þær upplýsingar að kærandi hefði fengið útgefið tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi og ætti því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga.

Með erindi, dags. 28. júní 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem hann hefði ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli d-liðar 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum sé að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. Þá sé jafnframt áréttað í athugasemdum með 13. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að gert sé skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Í því samhengi sé um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafi leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafi verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum.

Samkvæmt framangreindu séu það íslenskir ríkisborgarar og útlendingar sem hafi heimild til að ráða sig til vinnu án takmarkana hérlendis sem geti átt rétt til atvinnuleysisbóta á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Þeir sem séu undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi geti einnig talist tryggðir samkvæmt lögunum. Það fari því eftir þeim lögum og reglum sem gildi hverju sinni um atvinnuréttindi útlendinga hvort útlendingur teljist hafa heimild til að ráða sig án takmarkana hér á landi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sé ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í máli kæranda hafi hann fengið útgefið tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga og 61. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Slík leyfi séu ávallt tímabundin og bundin við störf hjá þeim atvinnurekanda sem sótt sé um atvinnuleyfi hjá. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi hann með vísan til framangreinds ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga þar sem hann uppfylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann hefði ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. Í athugasemdum með 13. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars:

„Áfram verður gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar er um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafa leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafa verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum.“ 

Íslenskir ríkisborgarar og útlendingar sem hafa heimild til að ráða sig til vinnu án takmarkana og þeir sem eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi geta átt rétt til atvinnuleysisbóta. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi hjá B frá 20. janúar 2020 til 31. maí 2021, á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga og 61. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Samkvæmt áðurnefndum ákvæðum eru slík atvinnuleyfi alltaf tímabundin. Því er ljóst að skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana var ekki uppfyllt í máli kæranda þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. júní 2021, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta