Alþjóðadagur til minningar og samstöðu með fórnarlömbum hryðjuverka
Sameinuðu þjóðirnar halda í fyrsta skipti í dag, 21. ágúst, alþjóðlegan dag til minningar og samstöðu með fórnarlömbum hryðjuverka. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) greinir frá.
„Með því að virða mannréttindi fórnarlambanna og veita þeim stuðning og upplýsingar, drögum við úr þeim skaða sem hryðjuverkamenn valda einstaklingum og samfélögum,“ segir António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.
Saga Irynu er dæmi um þau áhrif sem hryðjuverk getur haft á líf einstklings. Iryna, þrjátíu og sjö ára gömul móðir, særðist alvarlega þegar flutningabíl var ekið á mannfjölda í Drottninggaatan í miðborg Stokkhólms 7. apríl 2017. Taka varð annan fótinn af henni eftir að flutningabílinn ók yfir hana.
Iryna er frá Úkraínu. Hún fékk bráðabirgðardvalarleyfi í Svíþjóð á meðan málaferli stóðu yfir gegn hryðjuverkamanninum. Umsókn hennar um dvalarleyfi til langframa af mannúðarástæðum var hafnað og hún verður því að yfirgefa landið.
„Mér líður eins og flutningabíllinn hafi ekið yfir mig á ný,“ sagði hún í viðtali við Dagens Nyheter. „Ég þarf á hjálp, umönnun og endurhæfingu að halda,“ sagði hún.
Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna bera höfuðábyrgð á stuðningi við fórnarlömb hryðjuverka og að standa vörð um réttindi þeirra. Langtíma stuðingur felur í sér sálfræðilega, heilsufarslega, félagslega og fjárhagslega þætti. Mörg fórnarlömb eiga erfitt með að láta í sér heyra og fá stuðning.
„Það er siðferðileg skylda að styðja fórnarlömb og fjölskyldur þeirra, með skírskotun til þess að efla, vernda og virða mannréttindi. Umönnun fórnarlamba og eftirlifenda og að láta raddir þeirra heyrast, grefur undan hatursfullum sundrungarboðskap hryðjuverkamanna. Okkur ber að veita fórnarlömbum langtíma aðstoð, jafnt fjárhagslega, læknisfræðilega, lagalega sem sálfræðilega,“ segir António Guterres.
Philippe Vansteenkiste missti systur sína 22. mars 2016 þegar þrjár hryðjuverkaárásir voru gerðar í Brussel og nágrenni, tvær á flugvellinum í Zaventem og ein í Maalbeek-jarðlestarstöðinni í Evrópuhverfi borgarinnar. 32 létust og 300 særðust. Da´esh lýsti yfir ábyrgð á ódæðinu.
Fabienne, systir Philippes, lést í árás á flugvellinum. Hann stofnaði í kjölfarið samtök fórnarlamba hryðjuverka í Evrópu. Í viðtali sem sjá má á vef UNRIC, segir hann mikilvægt að fórnarlömb deili reynslu sinni.
Sífellt fleiri ríki verða fyrir barðinu á hryðjuverkum. Margar árásir hafa verið gerðar í Evrópu og á Norðurlöndum, en flest fórnarlambanna eru í örfáum ríkjum. Á síðasta ári voru þrír fjórðu hlutar fórnarlamba hryðjuverka í aðeins fimm ríkjum; Afganistan, Írak, Nígeríu, Sómalíu og Súdan.
Sameinuðu þjóðirnar hafa stofnað stuðningsvef fyrir eftirlifendur og fórnarlömb hryðjuverka um allan heim. Hægt er að finna vefinn og nánari upplýsingar hér.