Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 213/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. 213/2020

Miðvikudaginn 17. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 29. janúar 2021, óskaði Tryggingastofnun ríkisins eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 213/2020 þar sem ákvörðun Tryggingastofnunnar um útreikning á sérstakri uppbót til framfærslu til A, var felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt um nýja greiðsluáætlun vegna breytingar á lögum er varðar útreikning á sérstakri uppbót til framfærslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2019, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda og var kærandi beðinn um að leggja fram umsókn um lífeyri frá öðru EES-landi. Með fyrirspurn á „mínum síðum“ Tryggingastofnunar, dags. 29. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir skýringum á útreikningi sérstakrar uppbótar til framfærslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2019, voru umbeðnar skýringar veittar. Kærandi gerði athugasemdir við útreikningana með nokkrum tölvupóstum í desember 2019 og á fundi 15. janúar 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. janúar 2020, var kærandi upplýstur um að framlögð gögn breyttu ekki fyrri ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2020. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði úrskurðarnefndin í málinu 20. janúar 2021. Ákvörðun Tryggingastofnunnar ríkisins um útreikning á sérstakri uppbót til framfærslu til kæranda var felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Tryggingastofnun óskaði eftir frestun réttaráhrifa úrskurðarins með beiðni, móttekinni 29. janúar 2021. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, var kæranda gefinn kostur á að skila inn athugasemdum vegna beiðninnar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, mótteknu 5. mars 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að beiðni Tryggingastofnunar um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Í athugasemdum kæranda vegna beiðninnar kemur fram að Tryggingastofnun sé samfélagsstofnun og ætti ekki að vera rekin eins og tryggingafélag sem rekið er án félagslegrar vitundar.

Tryggingastofnun hafi ekki skilað þessari beiðni inn í góðri trú þar sem stofnunin hafi í tölvupóstum alltaf upplýst kæranda um að honum yrði greitt innan átta vikna. Hann hafi síðast verið upplýstur um það í tölvupósti 10. febrúar 2021, eða þrettán dögum eftir að beiðnin var lögð fram. Stofnunin hafi því logið, beitt svikum og verið í vondri trú.

Mál Tryggingastofnunar fyrir Landsrétti hafi fengið málsnúmer 9. september 2020. Kærandi spyr hvort Tryggingastofnun hefði ekki átt að óska eftir frestun á úrskurði fyrir úrskurðarnefndinni í stað þess að sóa tíma nefndarinnar og kæranda. Kærandi hafi beðið í níu mánuði eftir úrskurði.

Tryggingastofnun byggi á því að stofnunin þurfi ekki að bera málið undir dómstóla en lögin kveði á um að stofnunin eigi einnig að óska eftir flýtimeðferð og það hafi stofnunin ekki gert. Kærandi skilji það svo að ef Tryggingastofnun beri málið undir héraðsdóm yrði dómurinn honum í hag með hliðsjón af fyrri dómi í sambærilegu máli.

Kærandi spyr hvers vegna einstaklingur í fjárhagserfiðleikum þurfi alltaf að bíða. Hann spyr jafnframt hvers vegna Tryggingastofnun greiði honum ekki og endurkrefji hann síðar ef svo ólíklega vilji til að ástæða sé til þess. Tryggingastofnun hafi meiri fjárráð en kærandi og stofnunin geti verið án 2.000.000 kr. en ekki hann og hans fjölskylda.

Vegna vondrar trúar og lyga Tryggingastofnunar hafi kærandi óskað eftir 1.000.000 kr. láni frá foreldrum sínum og tengdaforeldrum til þess að greiða skuldir. Tryggingastofnun hafi alltaf sagt að kærandi fengi greiðslu innan átta vikna og nú hafi kærandi ýmsar ógreiddar skuldir, auk þess að skulda foreldum sínum og tengdaforeldrum 1.000.000 kr.

Kærandi spyr hversu margt fólk og stofnanir þurfi að segja Tryggingastofnun að framkvæmd stofnunarinnar sé röng til þess að stofnunin skilji það. Nú þegar hafi margir á þingi sagt það, Öryrkjabandalagið, héraðsdómur og úrskurðarnefnd velferðarmála.

Sérstök uppbót til framfærslu hafi verið búin til í þeim tilgangi að vernda fólk í sömu stöðu og kærandi. Hann og kona hans séu bæði á örorkulífeyrisgreiðslum. Þau eigi X börn og hann þurfi einnig að greiða [...]. Kærandi spyr hvernig Tryggingastofnun búist við að þau geti lifað mannsæmandi lífi þegar hann fái greiddar 57.000 kr. Kærandi hafi safnað skuldum á síðustu árum til þess að fjölskylda hans geti lifað af. Sérstök uppbót til framfærslu hafi verið búin til í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slíkt. Enginn geti lifað á 57.000 kr. Kærandi myndi vinna ef hann gæti. Kærandi og hans fjölskylda eigi rétt á mannsæmandi lífi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Tryggingastofnun óskar eftir að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 213/2020 á grundvelli 5. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í fyrrgreindum úrskurði hafi úrskurðarnefnd velferðarmála komist að þeirri niðurstöðu að 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 ætti sér ekki næga stoð í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. laganna og 70. gr. laga um almannatryggingar, og að Tryggingastofnun hefði því verið óheimilt að skerða sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu til kæranda vegna búsetu hans erlendis.

Úrskurðarnefndin vísi í niðurstöðu sinni meðal annars til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. júní 2020 í máli nr. E-2516/2016. Þeim dómi hafi verið áfrýjað til Landsréttar af hálfu Tryggingastofnunar og um samsvarandi ágreiningsefni sé að ræða og hafi verið til umfjöllunar í fyrrgreindum úrskurði. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem Tryggingastofnun hafi aflað sér, sé gagnaöflun lokið og málinu hafi verið frestað til úthlutunar dómara. Málið hafi fengið númerið 536/2020 hjá Landsrétti.

Þar sem samsvarandi mál sé enn til meðferðar hjá Landsrétti fari Tryggingastofnun fram á að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum umrædds úrskurðar á meðan beðið sé eftir dómi í málinu. Nauðsynlegt þyki að fá endanlega úr því skorið fyrir dómstólum hvort stofnuninni hafi verið heimilt að greiða sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu eingöngu í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, áður en hafist verði handa við að endurskoða rétt lífeyrisþega til þeirra greiðslna.

Þá líti Tryggingastofnun svo á að ekki þurfi að bera málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði, verði fallist á frestun réttaráhrifa, þar sem samsvarandi mál sé nú þegar til meðferðar hjá dómstólum. Óskað sé eftir að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þeirrar túlkunar stofnunarinnar í úrskurði sínum og taki fram hvort nefndin telji nauðsynlegt að bera málið undir dómstóla að nýju.

IV.  Niðurstaða

Tryggingastofnun óskar eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála fresti réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 213/2020.

Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála geti ákveðið, að kröfu málsaðila, að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun réttaráhrifa vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga.

Framangreint ákvæði var lögfest með lögum nr. 60/1999. Í frumvarpi til laganna hljóðaði ákvæðið svo:

„Að kröfu tryggingaráðs getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að tryggingaráð beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá nefndinni, þar til dómur gengur.“

Um ákvæðið segir í athugasemdunum með frumvarpinu:

„ Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að í 7. gr. b verði heimild fyrir tryggingaráð til þess að óska eftir frestun á réttaráhrifum. Svipað ákvæði er að finna í lögum um úrskurðarnefnd um upplýsingamál, svo og í lögum um yfirskattanefnd. Telji tryggingaráð að úrskurður úrskurðarnefndar, sem hafi í för með sér verulegar breytingar á fyrri framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins, sé augljóslega andstæður lögum getur ráðið óskað eftir því að nefndin fresti réttaráhrifum úrskurðarins. Verði nefndin við því verður framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins óbreytt allt þar til dómur liggur fyrir. Þá kemur í ljós hvort breyta þarf framkvæmdinni allt eftir því hvort úrskurði úrskurðarnefndar hefur verið hnekkt eða ekki.“

Í meðferð heilbrigðis- og trygginganefndar þingsins var orðalagi ákvæðisins breytt og hljóðaði svo eftir breytinguna:

„Að kröfu málsaðila getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem eru til meðferðar hjá henni, þar til dómur gengur í málinu.“

Í nefndaráliti meirihluta þingnefndar er eftirfarandi skýring gefin á breytingunni:

„Í öðru lagi er lagt til að c-lið 2. gr. verði breytt þannig að báðir málsaðilar eigi sama rétt til að krefjast frestunar á réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar ef þeir hyggjast bera málið undir dómstóla. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði sem ætlað er að tryggja að tryggingaráð geti ávallt borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla.“

Með hliðsjón af framangreindum lögskýringargögnum telur úrskurðarnefndin ljóst að hugtakið „málsaðili“ í 5. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar nái bæði yfir kæranda og Tryggingastofnun. Því telur úrskurðarnefndin að Tryggingastofnun sé heimilt að óska eftir frestun réttaráhrifa úrskurða nefndarinnar. Þá telur úrskurðarnefndin að ráða megi af lögskýringargögnunum að frestun réttaráhrifa geti komið til skoðunar þegar úrskurður hefur í för með sér verulegar breytingar á fyrri framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins.   

Kærandi óskar eftir að beiðni Tryggingastofnunar um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Kærandi greinir meðal annars frá fjárhagserfiðleikum sínum og byggir á því að Tryggingastofnun hafi ekki lagt fram þessa beiðni í góðri trú.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur ávallt greitt sérstaka uppbót til framfærslu í samræmi við búsetu á Íslandi, þ.e. frá því að þessar greiðslur komu til framkvæmda 1. september 2008 með reglugerð nr. 878/2008. Sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, að ákvæði 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi eigi sér ekki næga stoð í lögum og að Tryggingastofnun sé því óheimilt að skerða sérstaka uppbót til framfærslu vegna búsetu erlendis, hefur í för með sér verulegar breytingar á fyrri framkvæmd stofnunarinnar. Þá liggur fyrir að úrskurðarnefnd almannatrygginga, forveri úrskurðarnefndar velferðarmála, gerði ekki athugasemd við framkvæmd Tryggingastofnunar. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 300/2013 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009 um að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu á Íslandi hefði nægjanlega stoð í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að rétt sé að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 213/2020.

Í beiðni Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin líti svo á að ekki þurfi að bera málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði þar sem samsvarandi mál sé nú þegar til meðferðar hjá dómstólum. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst ekki á það, enda kemur skýrt fram í 5. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar að frestun á réttaráhrifum skuli vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði.

Að framangreindu virtu er beiðni Tryggingastofnunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar í máli nr. 213/2020 samþykkt. Tryggingastofnun skal bera málið undir dómstóla innan 30 daga frá úrskurði þessum og óska eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni Tryggingastofnunar ríkisins um frestun réttaráhrifa úrskurðar í máli nr. 213/2020 er samþykkt. Tryggingastofnun skal bera málið undir dómstóla innan 30 daga frá úrskurði þessum og óska eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta