Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og stuðningur við Úkraínu ofarlega á baugi á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins

Frá varnarmálaráðherrafundi NATO í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. - myndNATO

Málefni Úkraínu og alvarlegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs voru fyrirferðamikil mál á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í gær. Varnarmálaráðherra Ísrael ávarpaði ráðherrafundinn með fjarfundarbúnaði.

Í aðdraganda fundarins hittust ríflega fimmtíu ríki, þ.e.öll bandalagsríkin ásamt fjölda samstarfsríkja, á fundi vinnuhóps um stuðning við Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group) sem Bandaríkin leiða. Selenskí Úkraínuforseti sótti fundinn í fyrstu heimsókn sinni í höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins frá því að innrás Rússlands hófst í fyrra. Á fundinum var rætt um aukinn stuðning við Úkraínu, þar á meðal F-16 orrustuþotur og þjálfun, loftvarnir, skotfæri og sprengjueyðingarbúnað. 

Nýr varnarmálaráðherra Úkraínu fór yfir vígstöðuna

Fundur varnarmálaráðherra hófst með fundi NATO-Úkraínuráðsins sem stofnað var til á leiðtogafundi bandalagsins í Vilníus í sumar og er ætlað að styrkja pólitískt samstarf Úkraínu og bandalagsins. Rustem Umerov,  nýskipaður varnarmálaráðherra Úkraínu, sótti fundinn þar sem farið var yfir vígstöðuna, rætt um langtíma stuðningsáætlun bandalagsins fyrir Úkraínu og yfirstandandi umbætur í öryggis- og varnarmálum. Á fundinum var tilkynnt að Ísland muni á næstunni færa Úkraínu fullbúið, færanlegt neyðarsjúkrahús, sem er stærsta einstaka framlag Íslands til þessa. 

Varnarmálaráðherrarnir ræddu þar að auki varnarviðbúnað, fælingargetu og eflingu liðsafla til að styðja við nýjar varnaráætlanir bandalagsins. Þá var rætt um ástandið á Vestur-Balkanskaga og í Írak. 

Nánara samstarf við írösk stjórnvöld til skoðunar

Bandalagið hefur aukið viðveru í Kósovó til að bregðast við aukinni spennu í norðurhluta landsins. Atlantshafsbandalagið hefur að beiðni íraskra stjórnvalda sinnt þjálfun og ráðgjöf í Írak undanfarin ár. Starfið miðar að því að auka stöðugleika í landinu og getu heimamanna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ræddu ráðherrar möguleikann á að útvíkka það samstarf enn frekar í nánu samstarfi við íraska innanríkisráðuneytið. 

Að loknum ráðherrafundi bandalagsins funduðu ríkin í Norðurhópnum, sem er samráðsvettvangur tólf líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja í varnar- og öryggismálum. Öll Norðurlöndin eiga aðild að hópnum, auk Eystrasaltsríkjannas, Bretlands, Hollands, Póllands og Þýskalands. Á fundinum var rætt um þróun mála í Belarús og vernd mikilvægra innviða. 

Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd.

 
  • Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og stuðningur við Úkraínu ofarlega á baugi á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta