Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

3.000 sumarstörf fyrir námsmenn

Liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 er sérstakt átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem eiga takmarkaðan eða engan rétt til atvinnuleysisbóta. Til þess verkefnis verður varið 2.200 m.kr. og er markmiðið að skapa um 3.000 tímabundin störf fyrir námsmenn í sumar.

„Þessi sumarstörf munu skipta sköpum fyrir námsmenn og leitast verður við að stuðla að fjölbreytni þeirra. Þetta verða samfélagslega mikilvæg verkefni sem munu gagnast okkur til framtíðar, þannig er ráðgert að störf muni til dæmis bjóðast á sviði rannsókna, skráninga af ýmsu tagi, umönnunar og umhverfisverndar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Jafnframt verður 300 milljónum kr. veitt aukalega í Nýsköpunarsjóð námsmanna en í hann geta háskólanemar í grunn- og meistaranámi sótt um styrki sem og sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir. Styrkirnir miðast við laun í þrjá mánuði og verður áhersla í styrkveitingum á frumkvöðlastarf og nýsköpun.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hafa einnig skipað samhæfingarhóp sem skoðar stöðu atvinnuleitenda og námsmanna og atvinnu- og menntaúrræði þeirra við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi. Sjá nánar í frétt á vef ráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta